Afburðakvöld Margar þéttar hljómsveitir komu fram á þriðja kvöldi Músíktilrauna, m.a. Yellow Void og hér sést einn liðsmanna hennar á sviði.
Afburðakvöld Margar þéttar hljómsveitir komu fram á þriðja kvöldi Músíktilrauna, m.a. Yellow Void og hér sést einn liðsmanna hennar á sviði. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta var vissulega arty, en það eru smáatriðin í útsetningunum sem búa til partíið.

Af tilraunum

Ragnheiður Eiríksdóttir

heidatrubador@gmail.com

Þriðjudagskvöldið 19. mars var þriðji í Músiktilraunum og um heljarinnar kvöld var að ræða. Þarna voru nokkur mjög vel æfð og þétt bönd og því úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina. Fyrst á svið steig hljómsveitin Kjurr frá Reykjavík og sló strax taktinn fyrir afburðakvöld. Trommustúlkan þeirra var þétt og flott, lagasmíðar frumlegar og bandið eiginlega búið að finna sitt eigið sánd. Eina skrúfan sem mætti herða væri samsöngur og raddanir, þar vantar bara herslumun. Við tók enn meiri kraftur og myljandi einbeiting, þegar In The Company of Men ruddust um sviðið, og hljómuðu eins og vel smurð hrærivél þegar best lét. Níðþungt rokkband með ótrúlega kraftmiklum söngvara/öskrara.

Askur var næstur, rapp-verkefni sem mætti leggja meira í, en undirspil var með hálfgerðu dósasándi og fulleinhæft til lengdar. Aragrúi frá Selfossi kom verulega á óvart með tveimur ungum söngkonum, þar af annarri bara 16 ára, sem sungu og rödduðu alveg frábærlega. Það er greinilega margt að gerast á Selfossi þessi misserin.

Fimmta og síðasta band fyrir hlé var svo Villta vestrið, hipp-hopp úr Vesturbænum, og þar var fín stemning og fjör og samhæfð dansspor og læti, en vantaði betra undirspil og meira grúv. Það verður svo leiðigjarnt ef það eru alltaf sömu lúppurnar undir rappinu, og þá skiptir engu máli hve góðir vókalistarnir eru.

Hinum megin við hlé tók hljómsveitin Yellow Void við en það eru átta krakkar á aldrinum 14 til 16 ára. Það þyrfti nú aðeins að grisja til í útsetningagarðinum þeirra, því oft er minna meira þegar kemur að slíku. Lögin hljómuðu svolítið eins og súpa sem þarf að elda aðeins lengur áður en hún er klár. Arty Party er annað band sem ekki er alveg tilbúið. Þau spila tölvupopp með trommuheilum en þar vantar smákjöt á trommuheilabeinin. Þetta var vissulega arty, en það eru smáatriðin í útsetningunum sem búa til partíið.

Þá var komið að Dólgunum úr Vestmannaeyjum. Það er hægt að treysta á að úr Eyjum komi gott rokk, og Dólgarnir eru engin undantekning. Dimmt og drungalegt og flottur hljómur þótt þarna væru bara þrír á sviðinu. Mætti þó vinna aðeins betur í lagasmíðum þótt lítið vanti upp á sánd og spilamennsku. Lokabandið var hljómsveitin OAS frá Stykkishólmi, og sú sveit er enn í mótun. Hún þarf líklega að æfa sig svolítið betur til að hreinsa burtu og fínpússa hnökra og hik. Það vantaði líka smá upp á að hljóðfæraleikarar stilltu hljóðfærin sín og slíkt eyðilagði aðeins fyrir.

Á heildina var kvöldið fullt af flottum trommurum og söngvurum. Salurinn valdi Yellow Void áfram en dómnefnd kaus In the Company of Men í úrslitin, og nú fer spennan að magnast því einungis eitt kvöld er eftir af undanúrslitum.