Baldur Helgason fæddist í Reykjavík 12. nóvember 1922. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 2. mars 2013. Foreldrar hans voru Helgi Sævar Vigfússon, blikksmíðameistari í Reykjavík, og Valgerður Bjarnadóttir húsfreyja og var hann yngstur fjögurra barna þeirra hjóna. Hin eru Friðþjófur sem lést 1988. Eftirlifandi systkini eru Helga og Vigfús.

Baldur og Anna Einarsdóttir frá Stöðvarfirði giftu sig í Kópavogi 24. desember 1952. Börn þeirra: Helgi Einar og Ásbjörn Garðar. Helgi Einar, f. 10.8. 1953. Maki Stella Sigríður Benediktsdóttir. Börn þeirra: Árni Þór, Anna Birna og Baldur Már. Ásbjörn Garðar, f. 3.12. 1956. Maki Sjöfn Tryggvadóttir. Börn þeirra: Vala Björk og Tinna Ýr.

Útför Baldurs fer fram í Kópavogskirkju í dag, 21. mars 2013, kl. 13.

Elsku afi.

Eins sárt og það er að kveðja þig vitum við þú tekur fagnandi hinni langþráðu hvíld. Loksins geturðu gert allt það sem þú dáðir og elskaðir áður en veikindin herjuðu á þig. Þú varst svo fagur og friðsæll þegar við komum að kveðja þig. Þér leið greinilega vel, það sást langar leiðir á brosinu sem tók á móti okkur.

Þú varst svo góður afi, vildir allt fyrir okkur gera og alltaf gátum við hringt í þig ef okkur vantaði aðstoð við hvað sem var. Þú kenndir okkur svo margt og varst ávallt tilbúinn að svara spurningum forvitinna krakka og uppfylla með ótæmandi fróðleik þínum. Við erum afar þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér, hann er okkur afar dýrmætur. Við munum alltaf geyma fagrar minningarnar í hjörtum okkar.

Hvíl í friði, elsku afi okkar. Við pössum ömmu, gullið þitt sem hugsaði um þig svo fallega. Þín verður sárt saknað.

Þó jörðin sé frosin og fokið í gömul skjól,

þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á

ástina og vorið.

Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.

Eitt fagurt kærleiksorð getur sálir til himins borið.

Hin innsta lífsins þrá getur eld til

guðanna sótt.

Ein auðmjúk bæn getur leyst hinn hlekkjaða fanga.

Svö fögnum við þá – og fljúgum þangað í nótt,

þar sem frelsið ríkir, og sígrænir skógar anga.

(Davíð Stefánsson.)

Anna Birna og Baldur Már.

Í dag kveð ég góðan vin og velgjörðarmann, Baldur Helgason tæknifræðing og eiginmann Önnu frænku, móðursystur minnar. Á fimmta áratugnum voru þeir Björn móðurbróðir minn og Baldur samtíða við nám í tæknifræði í Svíþjóð. Ég minnist þess að hafa sem lítil stúlka austur á Stöðvarfirði horft hugfangin á myndir hjá afa og ömmu af þessum glæsilegu ungu námsmönnum í útlöndum. Annar þeirra, Bjössi frændi sem ég elskaði og dáði, var dökkur á brún og brá en hinn, Baldur, sem ég átti eftir að tengjast fjölskylduböndum var ljós yfirlitum og brosmildur. Mér fannst yfir þeim báðum ævintýraljómi. Heimkomnir úr námi festu þeir fljótlega ráð sitt og urðu báðir frumbyggjar í Kópavogi með fjölskyldum sínum og bjuggu báðir í Kópavogi til æviloka. Baldur hreppti fallegu og yngstu heimasætuna frá Ekru sem margir ungir menn höfðu áður rennt hýru auga til en ekki haft erindi sem erfiði. Það var lán Baldurs og þeirra beggja en einnig annarra sem áttu eftir að eiga með þeim samleið í gegnum lífið. Sjálf var ég svo lánsöm að fá að vera mikið hjá Önnu frænku og Baldri allt frá barnsaldri. Sumarið þegar ég var á tólfta ári fékk ég ósk mína uppfyllta um að fara suður til Önnu og Baldurs í Hófgerðið og átti að gæta Helga Einars sem var á öðru ári. Það vildi ekki betur til en að ég lá að mestu rúmföst allt sumarið og í stað þess að létta undir með Önnu þurfti hún að annast mig og hjúkra sem hún gerði eins og besta móðir. Á þessu sumri kynntist ég líka Baldri vel sem þeim mannkostamanni sem hann var og hversu barngóður og mikill fjölskyldufaðir hann var. Þessi sumardvöl varð mitt lán því ég tengdist fjölskyldunni allri tryggðaböndum upp frá því. Veturinn eftir stúdentspróf þegar ég hafði vetursetu í Reykjavík var ég nær daglegur gestur í Vogatungunni og átti þar ómetanlegt atlæti og samverustundir með Önnu og Baldri og strákunum þeirra Helga Einari og Ásbirni sem urðu mér eins og bræður.

Allt frá fyrstu kynnum til síðustu funda var Baldur sannur vinur og góður samferðamaður. Ef lýsa ætti Baldri væru orðin reglufesta, heiðarleiki og vinsemd þau sem fyrst koma upp í huga minn. Hann var líka varkár og skynsamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann reyndist traustur fjölskyldufaðir, sá vel fyrir öllu og hafði sitt á hreinu gagnvart Guði og mönnum. En þrátt fyrir þessi lyndiseinkenni leyndist í Baldri ástríðumaður sem hann fór þó vel með. Það var einkum tvennt þar sem ástríðan fór ekki á milli mála. Skógræktin var sú ástríða sem fór hæst. Baldur varð um og eftir miðjan aldur stórtækur skógræktarmaður og var meðal annars bæði virkur og virtur liðsmaður í Skógræktarfélagi Kópavogs um árabil. Hitt áhugamálið sem Baldur stundaði af ástríðu var útskurður og eftir hann liggja mörg listaverk sem margir samferðamenn nutu góðs af. Nú þegar komið er að kveðjustund er mitt að þakka trygglyndi og góðvild sem ég naut af hálfu Baldurs. Önnu frænku minni, Helga Einari, Ásbirni og fjölskyldum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Baldurs Helgasonar.

Lára Björnsdóttir.

Anna og Baldur bjuggu sín fyrstu búskaparár í Hófgerði 4. Í garðinum var mikið af gómsætum jarðarberjum sem Anna var ekki spör á að traktera okkur krakkana á með sykri og rjóma. Síðan byggðu þau hjónin sér glæsilegt raðhús í Vogatungu 22 þar sem Anna býr enn. Baldur útbjó fallegan trjágarð á lóðinni og kom upp gróðurhúsi þar sem hann ræktaði rósir. Til að fá frekari útrás fyrir ræktunaráhuga sinn hóf Baldur að gróðursetja ýmsar trjátegundir á heimajörð Önnu, Ekru Stöðvarfirði, en skilyrði til trjáræktar eru þar fremur erfið. Fururnar hafa komið best út og eru þéttar og fallegar. Einnig tók Baldur virkan þátt í starfsemi Skógræktarfélags Kópavogs sem fengið hafði land í Fossá í Hvalfirði. Þar er nú glæsilegur skógur.

Þegar Baldur lét af störfum hjá Rafmagnsveitum ríkisins eftir langan og farsælan starfsferil gat hann loksins gefið sér tíma til að byggja sinn eigin sumarbústað. Er hann staðsettur á fallegum stað sunnan við Hestfjall, þar sem Hvítáin blasir við. Naut hann þess að taka þátt í byggingu bústaðarins og sá sjálfur um marga verkþætti. Að lokinni byggingunni hóf hann að gróðursetja í landið og er þar nú fallegur trjálundur. Á efri árum skar Baldur út í tré af miklu listfengi, gestabækur og ýmsa skrautmuni. Þegar ég, sem er systursonur Önnu, hafði útvegað land til skógræktar hjá Landgræðslunni kom ekki annað til greina en að hitta Baldur og ræða málin. Margar skemmtilegar heimsóknir fylgdu í kjölfarið.

Eftir að við hjónin höfðum plantað trjám í þetta land í nokkur ár byggðum við þar sumarbústað. Hinn 18. júlí 2003 gistum við fyrstu nóttina í gluggalausum bústaðnum. Kvöldið var kyrrt og hljótt og landið logaði í gulum og rauðum litum, sem stöfuðu frá breiðum af gulmöðru og blóðbergi. Daginn eftir í 25 stiga hita komu þau Anna og Baldur akandi með syni sínum, Helga Einari. Ekki dugði minna en fara með þessa heiðursgesti um alla sex hektarana og sýna þeim hvað væri búið að gróðursetja á síðustu fjórum árum. Það var með ólíkindum hve þau hjónin, þá um áttrætt, voru létt á fæti og gengu fótviss yfir sandhóla, móa og mela, rofabörð og hraungrýti. Baldur var yfir sig hrifinn og undrandi yfir hve miklu hafði verið áorkað á ekki lengri tíma.

Þau komu færandi hendi með tvær fallegar trjáplöntur, dárahegg og broddhlyn, sem við gróðursettum þar sem þær sjást vel úr borðstofukróknum. Heggurinn er orðinn tveggja metra hár státinn runni. Fyrri part sumars eru laufblöð hans ljósgræn en á miðju sumri fá þau dumbrauðan lit sem fangar athyglina. Hlynurinn hefur vaxið minna og ekki enn gert upp við sig hvort hann ætli að verða tré eða runni. Vorlauf hans er iðjafagurt og litríkt, blöðin rauðfjólublá til að byrja með en síðar græn. Örþunn laufblöðin berjast um, jafnvel í vægum vindi, og bíða þess tíma að skógurinn í kring fari að gefa skjól. Í hvert sinn sem mér verður litið á þessar fallegu plöntur sem standa hlið við hlið hugsa ég hlýlega til Önnu og Baldurs, þessara samhentu hjóna sem auðgað hafa bæði gróður og mannlíf.

Björn Björnsson.

Það er komið að kveðjustund. Vinur okkar Baldur Helgason, fv. formaður Skógræktarfélags Kópavogs, lést hinn 2. mars sl. í Sunnuhlíð. Baldur var mikill áhugamaður um skógrækt og formaður Skógræktarfélags Kópavogsins um 12 ára skeið. Hann sat líka í stjórn Skógræktarfélags Íslands og var ötull talsmaður skógræktar félaganna á þeim vettvangi. Fossá í Hvalfirði var Baldri hugleikin og sýndi hann það í verki. Að vinna að gróðursetningu með vinnuskóla Kópavogs var ómissandi þáttur í sumarstarfi fyrir Skógræktarfélagið. Þeir félagar, Baldur og Leó Guðlaugsson, voru miklir frumkvöðlar við uppbygginguna á skógræktinni á Fossá og ófáar voru ferðir þeirra til að hlú að og betrumbæta aðstöðu okkar á Fossá. Sjálfboðaliðastarf var þeim eins sjálfsagt og að mæta til vinnu sinnar í dagleg störf. Helgar, sumarfrísdaga og kvöldvinnu var sjálfsagt að inna af hendi ef það gat bætt starfið í Skógræktarfélagi Kópavogs. Það er mikilvægt fyrir félagasamtök eins og Skógræktarfélag Kópavogs að eiga slíka einstaklinga í sínu félagi. Baldur var ávallt vandvirkur við þau störf er hann tók að sér og gerði sömu kröfur til þeirra sem hann fékk til liðs við sig í störfum fyrir félagið. Við áttum gott samstarf um mörg verk sem vinna varð og vildi hann gjarna hafa mig með, sérstaklega ef ræða átti við Kópavogsbæ eða aðra sem semja þurfti við um mál eða verkefni.

Skógræktarfélag Kópavogs á Baldri margt að þakka. Hann átti sér þann draum að Fossárskógur yrði gerður að opnum skógi, en heilsu sinnar vegna gat hann ekki verið viðstaddur þá athöfn sumarið 2011.

Við í Skógræktarfélagi Kópavogs viljum með þakklæti minnast Baldurs Helgasonar og vottum Önnu, börnum þeirra og fjölskyldum samúð.

Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs.

Kveðja frá Skógræktarfélagi Íslands

Fallinn er frá á tíræðisaldri Baldur Helgason, einn af dyggustu skógræktarmönnum Skógræktarfélags Íslands. Hann var kosinn til trúnaðarstarfa í stjórn Skógræktarfélags Íslands árið 1986 og síðar sem gjaldkeri stjórnar allt til ársins 1996. Eftir að Baldur hætti sem stjórnarmaður gegndi hann trúnaðarstarfi sem skoðunarmaður reikninga félagsins fram yfir aldamótaárið 2000. Ekki lét Baldur þar við sitja, heldur lagði félaginu lið meðan starfsþrek entist og sá m.a. um samningagerð vegna Landgræðsluskóga. Í því starfi sem og öðru sem hann tók að sér fyrir félagið nutu eiginleikar Baldurs sín vel, nákvæmni, þrautseigja og góðir skipulagshæfileikar.

Það var lán félagsins að Baldur tók að sér þessa vinnu enda þurfti oft einstaka lagni til að ná því fram sem skógræktarhreyfingin taldi mikilvægast. Á þeim tíma sem Baldur gegndi gjaldkerastarfi stjórnar voru umsvif félagsins mikil og ófáar stundir sem hann lagði af mörkum. Hann naut trausts stjórnarinnar og allra þeirra sem unnu með honum, enda var hann bæði gætinn og varkár í fjármálum og efldist hagur félagsins verulega á þeim árum. Á Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 2004 veitti félagið Baldri sérstaka viðurkenningu þar sem honum var þakkað fyrir ómetanlegt starf í þágu skógræktar.

Skyldurækni Baldurs var ekki eingöngu bundin við Skógræktarfélag Íslands því ótalin eru störf hans í þágu Skógræktarfélags Kópavogs en þar var hann m.a. formaður í á annan áratug. Gegndi hann því starfi af einlægum áhuga á skógrækt og lagði m.a. grunn að því stórkostlega svæði á Fossá í Hvalfirði sem félagið á og rekur ásamt öðrum skógræktarfélögum.

Eitt dæmi má nefna til upprifjunar á eiginleikum Baldurs en það var þegar bókin Yrkja var seld um allt land til stofnunar Yrkjusjóði. Baldur hafði þá ásamt stjórnarmönnum undirbúið úthringingu í Kópavogi og var þar hugsað fyrir öllu. Kallað var eftir sjálfboðaliðum úr röðum félagsmanna til úthringinga og var öll umgjörð og skipulag þar að lútandi svo þaulhugsuð að á tveimur dögum var búið að hafa samband við alla íbúa Kópavogs. Nákvæmar leiðbeiningar fylgdu til þeirra sem hringdu og passað upp á að þeir ofgerðu sér ekki. Það ætti þá að vera hægt með góðri samvisku að vera hægt að leita til þeirra seinna ef á þyrfti að halda, sagði Baldur. Þannig hafði Baldur alltaf vaðið fyrir neðan sig í öllum sínum störfum.

Baldur ræddi oft um gildi og möguleika nytjaskógræktar fyrir framtíð landsins. Hann hafði óbilandi trú á því verkefni en áttaði sig einnig á þeim hættum sem gætu steðjað að m.a. skógareldum. Flutti hann oftar en einu sinni tillögur á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands þess efnis að bregðast yrði markvisst við slíkri vá.

Við fráfall Baldurs er genginn einn af öflugustu liðsmönnum hreyfingarinnar og verður hans lengi minnst í ranni skógræktarmanna.

Magnús Gunnarsson

formaður.

Brynjólfur Jónsson

framkvæmdastjóri.