Elín Sæmundsdóttir fæddist að Árnabotnum í Helgafellssveit 13. júlí 1919. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 13. mars 2013.

Ung fluttist Elín með foreldrum sínum að Hraunhálsi í sömu sveit og ólst hún þar upp. Foreldrar hennar voru Jóhanna Elín Bjarnadóttir f. 28. okt. 1878, d. 13. júní 1954 og Sæmundur Kristján Guðmundsson f. 4. júní 1874, d. 2. jan. 1945. Elín var yngst 10 systkina og nú er ein systir hennar á lífi, Þórdís, en hún er 99 ára. Elín giftist Kristberg Elíssyni, frá Vatnabúðum í Eyrarsveit f. 15. sept. 1912, d. 8. júní 1982, þann 28. okt. 1948. Þau hófu búskap sinn í Grundarfirði en fluttust til Njarðvíkur árið 1955 og bjuggu þar alla tíð síðan, Elín og Kristberg eignuðust þrjá syni en sá elsti lést í fæðingu þann 1. okt. 1949, næstur kom Kristberg Elís f. 14. des. 1955, giftur Jónínu Guðbjörgu Guðbjartsdóttur og eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn síðan er Jóhann Sævar f. 28. ágúst 1958 giftur Jóhönnu Árnadóttur og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. Einnig ólu þau upp stúlku, Petrínu Guðnýju Elíasdóttur f. 16. ágúst 1950, gift Ólafi Jónssyni og á Guðný eina dóttur og þrjú barnabörn. Elín tók snemma til hendinni á heimili foreldra sinna og þau ár sem hún bjó í Grundafirði þá hafði hún móður sína hjá sér ásamt því að vera með börn sem hún var beðin fyrir. Elín tók að sér færeyska kostgangara fyrir ýmis fyrirtæki í Njarðvík og starfaði siðan lengi við fiskvinnslu bæði hjá Brynjólfi hf., svo og hjá Þórði Jóhannessyni, síðustu 15 árin sem hún var á vinnumarkaðnum var hún hjá Ragnarsbakaríi. Síðustu árin dvaldi Elín á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík.

Útför Elínar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 21. mars 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Jæja, þá hefur mín ástkæra móðir fengið hvíldina. Þessi umhyggjusama og gjafmilda kona hafði ekki alltaf gengið í gleðigöngu á lífsleið sinni en ávallt stóð hún sem klettur án þess að vera að bera sorgir sínar á torg. Mamma var ávallt tilbúin að greiða götur annarra ef á þurfti að halda og var eins og það væri henni í blóð borið, alla vega þá hefur hún fengið góða gjöf frá foreldrum sínum í að hugsa vel um aðra.

Mamma varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum föður mínum á dansiballi á Skildi og ávallt síðan stigu þau dansinn saman, samheldni þeirra var aðdáunarverð. Það markaði hana móður mína að frumburður þeirra skyldi andast í fæðingu en það er eitthvað sem engin skilur nema sá sem lendir í sömu þrautum, á þessum tímum var ekki um annað að ræða en að halda áfram, engin áfallahjálp eða önnur andleg aðstoð var til staðar. Faðir minn var á þessum tíma sjómaður og það var eitthvað sem mamma var afskaplega ósátt við því sjórinn gaf og sjórinn tók og vildi hún að pabbi myndi hætta á sjó en það myndi ekki gerast nema að flytja frá Grundarfirði en þar hófu þau skötuhjú búskap sinn árið 1948. Með þeim var einnig hún amma mín en hún var hjá þeim til ársins 1954 að hún lést og þá var ákveðið að flytja úr Grundarfirði.

Árið 1955 fluttu þau til Njarðvíkur en flest systkin hennar höfðu farið suður svo og bróðir hans pabba. Margar minningar koma fram í huga mínum en ég ætla að varðveita þær með mér. Mamma var dugleg kona og bar heimili hennar þess vel vitni. Ferðalög voru henni mikil gleði og á hverju sumri var farið vestur í Grundarfjörð og síðan haldið áfram í það minnsta þriggja til fjögurra vikna ferðir. Á þessum tíma var ekki annað að hafa en tjald og fátt um fína drætti á tjaldsvæðum en það aftraði henni ekki að sjá um, eins og sagt er, börn og bú. Faðir minn hóf ávallt sín sumarfrí á föstudögum og þegar hann kom heim var búið að gera allt klárt og það sem ekki var komið í bílinn setti hann í hann og síðan fór hann í bað og að því loknu var haldið af stað. Eldamennska í þessum ferðalögum var engin hindrun þó að það væri bara einn prímus með einni „hellu“ Kjötsúpa og kjöt var haft og annað góðgæti. Það er hrein unun að hugsa til baka og ekki annað hægt en að dást að henni og dugnaði hennar við þessar aðstæður. Talandi um mat var ávallt fullt hús matar hjá henni og hún eldaði handa sér þó að ein væri. Pönnukökur og annað góðgæti var uppi við þegar komið var í heimsókn, það skyldi enginn fara frá henni svangur.

En nú er ganga hennar komin á enda og við tekur önnur ganga og ég hef trú á að núna sé hún umvafin hlýju stóra bróður míns og föður og hún amma er ekki langt undan. Hvíl í friði, kæra móðir, og þakka þér fyrir það líf og þá gleði sem þú gafst mér og börnum okkar Jóhönnu.

Þinn sonur,

Jóhann Sævar.

Aldrei datt mér í hug að það væri svona erfitt að kveðja eina manneskju eins og hana ömmu mína. Frá því að þú fórst í Víðihlíð þá vissi ég að þetta var endastöð fyrir þig og þú færir ekki aftur á Hjallaveginn þar sem þú bjóst. Með árunum sem liðu og öllum heimsóknum þá sá ég dagamun á þér og um leið var ég að búa mig undir að kveðja þig einn daginn.

Þann 13. mars kom sá dagur að þú yfirgafst okkur og hélst heim á leið til Kristbergs afa. Samt sem áður er ekki til sá undirbúningur að vera „tilbúinn“ að einhver skuli deyja þrátt fyrir mikil veikindi og háan aldur. Það eru svakaleg átök að horfa upp á sína nánustu vera veika og þá skiptir engu máli hvort það er vegna elli eða einhvers sjúkdóms. En með öllum þeim minningum sem ég á með þér ætla ég að geyma í hjarta mínu og varðveita eins vel og ég get. Ég fór í mína síðustu heimsókn til ömmu þann 9. mars með föður mínum og fyrir það er ég ævinlega þakklátur að hafa fengið að kveðja þig með kossi á vangann. Með miklum söknuði og sorg kveð ég þig, elsku amma mín, en um leið er ég sáttur að þú skulir vera farinn í svo mikla hvíld hjá afa.

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:

Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.

Eins eru skip, sem aldrei landi ná,

og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,

og von sem hefur vængi sína misst,

og varir, sem að aldrei geta kysst,

og elskendur, sem aldrei geta mæst

og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,

og lítil börn, sem aldrei verða menn.

(Davíð Stefánsson.)

Þitt barnabarn, tengdabarnabarn og langömmubarn

Sævar, María og Róbert Karl.

Komið er að leiðarlokum, elsku amma mín, og þó að ég kveðji þig með trega þá varst þú hvíldinni fegin, líkaminn orðinn þreyttur og lúinn en hugurinn nokkuð skýr miðað við aldur og fyrri störf.

Minningarnar eru margar og góðar, ég var svo heppin að eiga heima á tímabili örstutt frá ykkur afa í Njarðvíkinni og voru ófá skiptin sem ég hljóp yfir til ykkar í kaffi, já þó að ég væri aðeins 7 ára þá var mér boðið upp á kaffi með kringlu og undirskál með strásykri sem ég svo dýfði kringlunni í þegar hún var orðin vel blaut af kaffi. Ég var mjög mikil afastelpa en þegar afi féll frá urðum við amma nánari með hverju árinu sem leið og tengdumst miklum kærleiksböndum.

Aldrei leið langt á milli símtala nema undir það síðasta því þá hafðir þú ekki krafta eða getu til þess að hringja, þá hringdi ég bara í mömmu síma og hún lagði hann að eyranu á þér og við náðum að spjalla smá saman. Alltaf spurðir þú um fjölskylduna mína, hvort Kalli væri á sjónum, hvernig við hefðum það og baðst Guð að geyma okkur og varðveita. Þú varst mjög trúuð kona og talaði mikið um Guð og hans styrkleika. Sagðir mér að biðja ef mér liði illa og þá yrði hlustað, og það geri ég alltaf og á þér að þakka fyrir þá miklu trú sem ég hef á bæninni. Þér var mjög umhugað um allt þitt fólk, amma mín, og varst alltaf með áhyggjur af öllum og viðurkenndir þú að það væri bara eitthvað sem þú réðir ekkert við.

Ég minnist þess nú reglulega þegar ég var nýkomin með bílpróf og var á leiðinni frá Njarðvík til Grindavíkur í frekar leiðinlegu veðri. Þú varst mjög óróleg og varst greinilega búin að áætla hvað ferðin tæki langan tíma. Þegar ég var rétt ókomin heim sá ég lögregluna með bláu ljósin á eftir mér og skildi ég ekkert í því enda á löglegum hraða. Lögreglan bað mig vinsamlegast að hringja í Elínu ömmu og láta hana vita um leið og ég kæmi heim þar sem hún væri með miklar áhyggjur af mér.

Mér fannst þetta nú ekkert fyndið á þessum tíma enda Grindavík lítill bær, ég þekkti löggurnar og dauðskammaðist mín fyrir ömmu, en ekki hægt annað en að brosa að þessu í dag. Amma var mikil sjálfstæðiskona og fór ekkert í grafgötur með skoðanir sínar á hlutunum og oft voru vel valin orð látin falla og þá var best að halda fyrir lítil eyru.

Mér er mjög minnisstætt þegar Njarðvík og Keflavík voru sameinuð, þá varst þú alveg miður þín og lagðist í rúmið og ætla ég nú ekki af hafa eftir þér þau orð sem þú lést falla þá. Amma var gestrisin kona og alltaf mikill gestagangur hjá henni og borðið svignaði undan kræsingunum, svo ekki sé minnst á pönnukökurnar sem runnu ljúft niður. Já, það fór enginn svangur frá ömmu.

Ég þakka þér samfylgdina, elsku amma mín, Guð geymi þig og varðveiti. Þín er sárt saknað en góðar minningar ylja okkur. Ég læt hér fylgja ljóð sem ég samdi á níræðisafmælinu þínu. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ég ömmu á sem kenndi mér að trúa,

treysta á Guð og ganga á hans vegi.

Máttur hans og hendi að oss hlúa,

ég bið til hans bæði á nóttu sem degi.

(J.E.H.)

Jóhanna Elín Halldórsdóttir og fjölskylda.

Elskuleg amma mín er dáin, þetta er einhvað svo óraunverulegt.

Amma var sérstök kona, hjartahlý og umhyggjusöm. Alltaf var gaman að koma til hennar. Hún sá til þess að það væri alltaf til eitthvert góðgæti þegar við komum pönnukökur og súkkulaðibitakaka sem var mitt uppáhald.

Takk, amma, fyrir að vera þú, takk fyrir að ég fékk að umgangast þig og alla þá hlýju sem þú gafst mér. Hvíl í friði.

Kristberg Jóhannsson

Elsku amma.

Það er erfitt að sjá á eftir jafn einstakri konu og þér, okkar elskulega amma. Því eldri sem við verðum því augljósara verður það hversu einstök þú ert. Að geta sagt „Elín Sæmundsdóttir var amma mín“ fyllir hjartað af stolti.

Þú varst alltaf svo góð og hlý og ótrúlega örlát, alltaf á okkar bandi. Ef þú varst stolt af okkur þá vissum við af því og ef þú varst ósátt þá vissum við það líka, Elín Sæmundsdóttir liggur ekki á skoðunum sínum. Það var ekkert betra en kíkja til þín í kaffi og spjall og auðvitað hefðum við mátt gera meira af því eins og þú varst ekkert feimin við að benda okkur á.

Við erum svo heppin að hafa haft þig nálægt okkur öll þessi ár og sögurnar þínar eru ómetanlegar. Allt frá því hvernig lífið var í torfbænum þegar þú varst stelpa til þess hvað var að frétta í Leiðarljósi hverju sinni. Þegar þú sagðir sögur af því þegar þið afi fóruð með krakkana og köttinn í ferðalög var einstaklega skemmtilegt því þú skemmtir þér svo vel við að segja frá því. Það voru bestu sögurnar, að sjá ljómann í augunum þegar þú sagðir frá afa og gömlu tímunum. Hvernig þú talaðir um pabba okkar og bróður hans og systur var alltaf af svo mikilli einlægni, ást og virðingu. Það verður gaman að geta sagt langömmu- og afabörnunum okkar sögurnar þínar.

Þú hlakkaðir mikið til að hitta afa aftur og það er afskaplega falleg hugsun að vita að nú labbið þið tvö um sveitina ykkar saman á ný.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

„Ef Guð lofar mér að lifa“ er setning sem við fengum að heyra margoft í gegnum tíðina og Guð leyfði þér svo sannarlega að lifa með okkur vel og lengi. Honum erum við óendanlega þakklát fyrir.

Nú er sá tími kominn, elskulegasta amma, að við þurfum að bjóða góða nótt, við elskum þig.

P.s. Þú bannaðir allt tal um mat í minningargreinum en við værum ekki barnabörn Ellu Sæm ef við værum ekki óhlýðin. Bestu pönnukökur í heimi og við munum sakna þeirra mikið.

Svandís Elín, Kristbjörg

Elín, Brynja Dögg

og Guðbjartur Þór.

Elsku frænka. Nú ertu horfin augum okkar.

Ég flutti til ömmu og afa að Hraunhálsi í Helgafellssveit 2 ára gömul. Þar kynntist ég Ellu móðursystur minni, sem var mér alla tíð eins og besta systir, trygg og góð.

Öll uppvaxtarárin vorum við góðar vinkonur og þegar ég flutti til Reykjavíkur þá fór ég oft um helgar að heimsækja Ellu í Grundarfjörð en þangað fluttist hún með sínum manni og móður sinni. Seinna flutti hún til Njarðvíkur og hélt þá áfram okkar góði vinskapur.

Þessar fáu línur færa þér mínar bestu þakkir fyrir þína góðvild sem þú sýndir mér frá barnæsku minni, elsku frænka.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Sigríður Jóhanna.

Nú er Ella mín dáin, þetta var orðin löng ævi. Hún var fædd í litlum bæ í Árnabotni í Helgafellssveit 1919. Það hefur ekki fæðst barn þar síðan og mun ekki verða. Þar inni á milli fjallanna sést ekki sól meirihluta árs. En þar bjuggu foreldrar Ellu með stóran barnahóp í mörg ár. Það var oft gestkvæmt í Árnabotni. Því þegar fólk fór fyrir Hraunsfjörð stytti það sér stundum leið um Tröllaháls sem var skarð í fjallið milli Hraunsfjarðar og Kolgrafafjarðar og var þá komið niður í Kolgrafasel. Foreldrar Elínar Sæmundsdóttur, Sæmundur Guðmundsson og Elín Bjarnadóttir, fluttu úr Árnabotni eftir 1920 að Hraunhálsi í Helgafellssveit og hafa það verið mikil viðbrigði, því þá opnaðist útsýnið yfir opinn Breiðafjörð með allri sinni fegurð. Ella ólst upp í Hraunhálsi hjá foreldrum sínum og vann öll sveitastörf eins og þá var títt. Hún giftist Kristberg Elíssyni 28. október 1948, hann var frá Vatnabúðum í Eyrarsveit. Þau kynntust á balli á Skildi en hún sagði mér að hún hefði verið búin að sjá hann áður. Þau byrjuðu búskap í Grafarnesi og var Elín móðir hennar hjá þeim, þau fluttust til Njarðvíkur 1955. Stuttu eftir að Ella og Beggi giftu sig var Elín Bjarnadóttir stödd í Stykkishólmi, mætir þar á götu konu og hún spyr hana: Nú er Elín dóttir þín gift, hvernig finnst þér það? Þá segir Elín Bjarnadóttir:

Ágætlega er hún gift

eftir því sem best má vera.

Engum ráðum er hún svift

eða því sem hún vill gera.

Oft var gestkvæmt hjá Ellu og Begga í Njarðvík. Þau voru gestrisin og Ella bakaði pönnukökur. Og það dró ekkert úr gestum eftir að Beggi dó. Ella hafði mikið dálæti á frændfólki Begga og var því mjög vinsamleg. Ég þakka sumrin 1948 og 1949 í Grafarnesi, þá hljóp ég oft til mæðgnanna Elínanna og átti alltaf góðu að mæta. Elín Sæmundsdóttir var minnug og þó að aldurinn færðist yfir hana var gott að spyrja hana um löngu liðna atburði. Nú fækkar því fólki sem man það liðna því fólk nútímans leggur ekkert á minnið. Hugur Ellu var oft fyrir vestan, hjá því fólki sem hún þekkti þar. Nú er andi hennar horfinn í birtuna yfir Breiðafirði. Ég þakka henni vináttuna.

Ég votta sonum hennar, fósturdóttur og öllu hennar fólki samúð mína. Vertu blessuð, Ella mín.

Hólmfríður Gísladóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Elín amma.
Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og bið nú Guð þinn um að vernda þig og passa.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Þín,
Harpa.

Elsku langamma Elín.
Er ekki gott að vera komin til langafa? Vonandi líður ykkur vel. Við eigum eftir að sakna þín rosalega en vitum að þú ert að passa okkur uppi á himnum. Elskum þig mjög mikið og við sjáumst aftur eftir mörg, mörg ár. Knúsaðu alla frá okkur.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson.)

Þínir,
Elís Berg, Kristinn
Bergmann og Alexander Hlíðberg.