Unnur Arnórsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 18. júní 1918. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 23. febrúar 2013.

Útför Unnar Arnórsdóttur fór fram frá Dómkirkjunni 7. mars 2013.

Ég vil minnast elskulegrar Unnar, píanókennara og vinkonu, en okkar leiðir lágu saman fyrir um þrjátíu árum í Tónlistarskóla Garðabæjar. Ég, þá unglingsstúlka, varð þess aðnjótandi að kynnast töfraheimi tónlistar í meðförum kennara og listamanna sem miðluðu til nemenda sinna af einstakri alúð og listfengi. Einn þessara kennara var Unnur, falleg smávaxin kona, með hlýja og móðurlega nærveru og tindrandi glaðværð. Þó ég hafi ekki notið leiðsagnar Unnar í píanónáminu þá naut ég oft píanóleiks hennar í söngtímunum hjá Snæju. Það voru ófáar söngperlurnar í meðförum okkar sem ómuðu um skólann og aldrei þreyttust þær stöllur, Unnur og Snæja, að miðla af listfengi sínu og þekkingu. Unnur lagði mikla alúð í kennsluna og náði vel til nemenda sinna. Virðing hennar fyrir tónlist var mikil og mátti heyra ákveðinn lotningartón í rödd hennar er hún ræddi um gömlu meistarana og tónverk þeirra.

Með okkur Unni þróaðist falleg vinátta. Ég minnist margra góðra stunda á fallega heimilinu hennar og Bárðar í Hólmgarði. Meðan Unnur hafði heilsu til mætti hún á alla tónleika mína og hvatti mig með ráðum og dáð. Ætíð hafði hún meðferðis litla táknræna gjöf og kort með fallegri kveðju. Ég kveð Unni með virðingu og þökk og votta fjölskyldu og vinum hennar mína dýpstu samúð. Minningin lifir.

Ingibjörg Guðjónsdóttir.