Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Viðskiptavini Landsbankans var í gær neitað um að fá að kaupa gjaldeyri vegna þess að gjaldkerar í útibúi bankans í Hafnarfirði lögðu rangan skilning í orðið almanaksmánuður.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Viðskiptavini Landsbankans var í gær neitað um að fá að kaupa gjaldeyri vegna þess að gjaldkerar í útibúi bankans í Hafnarfirði lögðu rangan skilning í orðið almanaksmánuður.

Í lögum um gjaldeyrismál segir að einstaklingur geti að hámarki keypt gjaldeyri fyrir 350.000 krónur vegna ferðalaga til útlanda í hverjum almanaksmánuði.

Viðskiptavinurinn hafði keypt gjaldeyri fyrir tæplega 330.000 krónur 23. febrúar þegar hann var á leið til útlanda. Í gær, 20. mars, hugðist hann kaupa gjaldeyri fyrir álíka fjárhæð enda aftur á leið utan.

En þá kom babb í bátinn.

Gjaldkerinn sagði hann ekki mega kaupa gjaldeyri því einstaklingar gætu að hámarki keypt gjaldeyri fyrir 350.000 krónur vegna utanlandsferða í mánuði og að a.m.k. 30 dagar þyrftu að líða á milli slíkra kaupa. Viðskiptavinurinn benti þá á að hér væri átt við almanaksmánuð eins og stæði raunar á upplýsingaspjaldi um gjaldeyriskaup sem var sjáanlegt í gjaldkerastúkunni. Fyrri kaupin hefðu átt sér stað í febrúar og nú væri kominn nýr almanaksmánuður, þ.e. mars. Það dugði ekki til að sannfæra gjaldkerann. Annar starfsmaður var fenginn til að gefa álit sitt og hann staðfesti skilning gjaldkerans; að almanaksmánuður væru 30 dagar. Viðskiptavinurinn gat því aðeins fengið að kaupa 130 evrur, um 20.000 krónur. Þetta þótti honum bagalegt því hann er á leið til útlanda í dag, fimmtudag.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að starfsmenn hafi gert mistök.

,,Við viljum að sjálfsögðu að viðskiptavinir séu sáttir við okkar þjónustu og ég bið viðkomandi að snúa sér aftur til útibúsins og fá leyst úr þessu máli. Sé þessi frásögn rétt hefur okkur orðið á,“ sagði hann í skriflegu svari.