Hin alþjóðlega fjármálakreppa leiddi í ljós að eiginfjárkröfur banka voru alltof vægar. Bankar stóðu berskjaldaðir um leið og það gaf á bátinn á mörkuðum.
Hin alþjóðlega fjármálakreppa leiddi í ljós að eiginfjárkröfur banka voru alltof vægar. Bankar stóðu berskjaldaðir um leið og það gaf á bátinn á mörkuðum. Kröfur um hærra eigið fé, ekki síst það sem fellur undir eiginfjárþátt A, minnka ekki aðeins kerfisáhættu á falli banka heldur gerir kostnað hins opinbera minni við að forða þeim frá þroti – og sú stund mun alltaf renna upp.

Eftir fall fjármálakerfisins hafa endurreistu bankarnir á Íslandi verið skikkaðir til að viðhalda að lágmarki 16% eigið fé. Á árunum fyrir bankahrun var þetta hlutfall aðeins 8%. Væntingar um að dregið yrði úr þessum kröfum samfara minni óvissu í fjármálakerfinu munu ekki ganga eftir. FME hefur gert þá kröfu á Landsbankann að eigið fé hans verði framvegis að lágmarki 19,5%.

Þessi þróun kallar á aukinn vaxtamun. Svo verður að vera. Kröfur um aukið eigið fé til að lágmarka hættu á reglulegu fjármálaáfalli – með óheyrilegum kostnaði fyrir raunhagkerfið og skattgreiðendur – þurfa að vega þyngra en sjónarmið um að slíkt muni leiða til meiri fjármögnunarkostnaðar.

Þetta nýja landslag mun auka þrýsting á banka um að breyta viðskiptalíkani sínu. Fyrirtæki þurfa samtímis að bregðast við þeirri staðreynd að miðlun fjármagns í gegnum bankakerfið verður dýrari. Í dag eru íslensk fyrirtæki nánast einungis fjármögnuð í gegnum fjármálafyrirtæki – aðeins 10% fjármögnunar þeirra er á skuldabréfamarkaði. Þessi staða mun hins vegar að öllum líkindum taka stakkaskiptum á næstu árum.