Margrét Guðmundsdóttir fæddist á Ísafirði 18. júlí 1927. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 13. mars sl.

Foreldrar hennar voru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 3.2. 1893, d. 26.4. 1984, og Guðmundur Magnússon, f. 9.7. 1887, d. 21.6. 1967. Margrét giftist Stefáni Gunnlaugssyni, f. 16.12. 1925. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: Snjólaug Guðrún, f. 25.5. 1951, d. 21.4. 2004, var gift Dan Gunnari Hanssyni, f. 10.6. 1952, d. 20.8. 1999, og eru dætur þeirra Brynja Dan, f. 25.8. 1985, og Líney Dan, f. 12.11. 1987; Gunnlaugur Stefán, f. 17.5. 1952, kvæntur Sjöfn Jóhannesdóttur, f. 2.10. 1953, og sonur þeirra er Stefan Már, f. 25.5. 1973; Guðmundur Árni, f. 31.10. 1955, kvæntur Jónu Dóru Karlsdóttur, f. 1.1. 1956, og eru börn þeirra: Fannar Karl, f. 14.12. 1976, d. 16.2. 1985, Brynjar Freyr, f. 14.3. 1980, d. 16.2. 1985, Margrét Hildur, f. 12.11. 1981, Heimir Snær, f. 13.6. 1984, Fannar Freyr, f. 24.5. 1986, Brynjar Ásgeir, f. 22.6. 1992; Ásgeir Gunnar, f. 11.11. 1969, kvæntur Sigrúnu Björgu Ingvadóttur, f. 27.11. 1971. Börn þeirra eru: Arnar Freyr, f. 12.4. 2002, og Andri Steinn, f. 2.11. 2007; Sonur Stefáns og stjúpsonur Margrétar er Finnur Torfi, f. 20.3. 1947, og er kvæntur Steinunni Jóhannesdóttur, f. 7.4. 1952. Börn hans eru: Gróa Margrét, f. 7.1. 1966, Jens 2.7. 1970, Fróði f. 12.6. 1975, d. 30.9. 1994, Herdís Steinunn f. 22.9. 1992, og Halldóra Líney, f. 6.5. 1999.

Systkini Margrétar eru Guðmundur, f. 15.9. 1917, d. 4.11. 1968; Steinunn, f. 3.9. 1919, d. 28.1. 2005; Magnús, f. 11.10. 1921, d. 13.12. 1932; Árni Bárður, f. 3.8. 1925; Ólafur Andrés, f. 26.8. 1929. Margrét fluttist frá Ísafirði tveggja ára gömul til Reykjavíkur þar sem hún bjó lengst af með fjölskyldu sinni á Bræðraborgarstígnum, sótti Miðbæjarskólann og Verslunarskólann og útskrifaðist þaðan árið 1945. Dvaldi við nám í Svíþjóð 1946-47 og í Englandi 1948-49 og síðar þar á árunum 1982-87 í ensku og listasögu, og sótti tíma ensku og heimspeki við HÍ á árunum 1998-2000. Vann á skrifstofu Gísla Halldóssonar verkfræðings í eitt ár og á sumrin til 1950, þá tóku húsmóðurstörfin við í 24 ár, en hóf aftur störf utan heimilisins 1974, fyrst hjá Ístaki, síðan bæjarfógetanum í Hafnarfirði til 1990 og þá hjá Héraðsdómi Reykjaness til sjötugsaldurs. Margrét var afar virk í starfi Alþýðuflokksins um áratuga skeið, einkum í Hafnarfirði og í forystusveit í félagi alþýðufloksskvenna þar í bæ um langa tíð. Einnig tók hún virkan þátt í safnaðarstarfi Hafnarfjarðarkirkju. Margrét kom víða við í félagsstörfum, ekki síst þar sem velferð og jöfnun lífskjara var í fyrirrúmi. Hún var einnig mikill áhugamaður um listir og menningu.

Útför Margrétar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. mars 2013, kl. 13.

Ég hitti Möggu fyrst á Skúlaskeiðinu í Hafnarfirði þar sem ég kom til þess að sjá systkini mín Snjólaugu og Gunnlaug. Ég fæddist stuttu áður en Magga giftist föður mínum og bjó í Reykjavík. Ef hún var ósátt með þennan böggul, sem fylgdi eiginmanninum, lét hún það ekki í ljósi. Mér lærðist fljótt að í húsi hennar og pabba átti ég athvarf, sem ég gat leitað í. Þegar fjölskyldan flutti á Arnarhraunið og mér óx fiskur um hrygg fjölgaði ferðum mínum suðureftir.

Húsið á Arnarhrauni hafði margvíslegt aðdráttarafl. Tvennar dyr voru framan á húsinu, gestadyr til vinstri og hvunndagsdyr til hægri. Gestadyrnar voru yfirleitt lokaðar en hinar opnar. Um þær fóru bæði gestir og heimilismenn, einkum krakkar. Húsið mátti kalla opið hús því velkomnir voru þeir sem komu þar. Stundum bað þó Magga um að lokað væri á eftir sér, svo hún þyrfti ekki að hita upp allan Hafnarfjörð. Þarna var sjónvarpstæki, sem náði Kanasjónvarpinu. Þegar spurðist um heimsbyggðina að Bítlarnir ætluðu að koma í Kanasjónvarpið var það gilt tilefni til þess að fara suður í Fjörð og horfa á stórtíðindin. Umhverfi Arnarhraunsins var á þessum árum lítt byggt og hraunið með hólum og gjótum að miklu leyti ósnert. Þetta var óviðjafnanlegt leiksvæði. Þegar bílprófsaldur nálgaðist fór ég á Arnarhraun til þess að komast í rússajeppa sem pabbi hafði. Því fylgdust bræður mínir vel með.

Aðdráttarafl Arnarhraunsins var ekki síst Magga sjálf. Hún var brosmild og hlý og dugnaðarforkur. Henni þótti vænt um fólk, einkum fólkið sem henni tengdist fjölskylduböndum, sem hún skilgreindi vítt. Það náði m.a yfir mig og kærustu mína, konu og börn. Vel áttum við skap saman ég og stjúpmóðir mín. Hún sagði mér hiklaust til syndanna, ef þurfti og ég hlaut að taka því vel, því aldrei varð efast um velviljann að baki. Magga hélt þeim forna sið að halda veislur heima og bjóða öllum frændgarðinum. Var þar jafnan mikið fjölmenni, vel veitt og glatt á hjalla. Þetta efldi dýrmæt tengsl á tímum þegar samfélagshættir toguðu af afli til sundrungar. Veisluhefðin hélst lengi eftir að Magga flutti af Arnarhrauni þótt í smærri sniðum væri.

Magga tók ekki beinan þátt í stjórnmálum, en var skilvirk bak við tjöldin. Þegar ég var nýfluttur í Hafnarfjörð tók ég þátt í prófkjöri Alþýðuflokksins, samkvæmt hefð í fjölskyldunni, og náði öðru sæti mér til mikillar undrunar því ég þekkti þá fáa í bænum. Skýringin var sú að húsfreyjan á Arnarhrauni hafði tekið símatörn dagana fyrir prófkjörið.

Þegar árin færðust yfir beindist hugur Möggu einkum að barnabörnunum. Mikið ævintýri í æsku Fróða sonar míns var dvöl hans part úr sumri hjá Möggu ömmu í Epsom, suður af London, þar sem hún hélt hann eins og prins.

Ég fór ekki alls fyrir löngu í Ingólfsfjörð á Ströndum, þar sem Norður-Íshafið mætir fjöllóttri, vogskorinni strönd og sumur eru fögur en stutt. Þarna liggja rætur Möggu. Þar var gott að búa, en aðeins fyrir atgervisfólk.

Finnur Torfi Stefánsson.

Margrét var traust, einstaklega ræktarsöm og mikil fjölskyldukona, félagslynd og vinamörg. Hún kunni svo vel að láta fólki líða vel í návist sinni. Minnisstæð eru fjölskyldu- og vinaboðin á heimili þeirra Stefáns á Arnarhrauninu. Hún naut sín vel í hlutverki gestgjafans, að undirbúa og halda veislur. Alltaf nóg af góðgjörðum, en ekki síður lagði Margrét sig fram að gestir ættu saman ánægjulegar stundir. Það var gott að heimsækja hana, sannkölluð matmóðir og óþreytandi að bjóða eitthvað að borða sem erfitt var að hafna, orðin „nei takk“ heyrði hún helst ekki.

Stundum þurfum við ekki nema eitt lítið atvik til að gera lífið og tilveruna örlítið fallegri. Það kunni Margrét svo vel, að lífga upp á hversdaginn. Þannig gladdi hún afgreiðslufólkið á bensínstöðinni þar sem hún verslaði og sundlaugarverðina í sundlauginni þar sem hún synti daglega, með því að mæta stundum með köku og gefa. Þannig tjáði hún þeim þakklæti sitt fyrir vináttu og góða þjónustu.

Margrét var einnig hugrökk, þorði og framkvæmdi það sem hana langaði til að gera, samt alltaf kurteis og bar hag annarra fyrir brjósti.

Fjölskyldan var Margréti efst í huga. Henni þótti svo vænt um barnabörnin, dugleg að rækta sambandið við þau og mikilvægum dögum í lífi fjölskyldu gleymdi hún ekki. Alltaf vildi hún vera þar sem fólk kom saman, síðasta sunnudag var ætlun hennar að mæta í fermingu og veislu hjá elsta langömmubarninu og hlakkaði hún mikið til.

Mér er minnisstætt þegar hún fyrir fjórum árum 82 ára kom um hávetur austur í Hof í Vopnafirði til að vera við skírn langömmubarns. Fyrir fimm árum horfði ég á hana í Heydölum spila fótbolta við lítinn dreng og hljóp hún um eins og unglingur. Margrét hafði gaman af ferðalögum og þau Stefán ferðuðust víða um heim og frásagnargleði hennar naut sín vel þegar hún sagði ferðasögur.

Margrét var krati og mjög pólitísk og hafði traustar og ákveðnar skoðanir. Þegar kosningar nálguðust lét hún ekki sitt eftir liggja í flokksstarfinu. Það var mikil reisn yfir Margréti, hún var falleg og glæsileg kona. Hún átti sínar gjöfulu og góðu stundir, en reyndi líka sárar sorgir og erfiðleika. Sonarsynirnir, þeir Fannar Freyr og Brynjar Karl létust ungir í slysi og Fróði, sem var henni sem sonarsonur, lést ungur eftir erfið veikindi. Þá var gott að eiga Margréti að og hún stóð sem klettur, umvafði og lét sér annt um alla. Mikill var missir hennar þegar Snjólaug dóttir hennar og besta vinkona lést langt um aldur fram. Í löngum og erfiðum veikindum hennar dáðist ég að Margréti, þar sem hún stóð þétt við hlið dóttur sinnar og dætra hennar, Brynju og Líneyjar, og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að létta byrði. Af æðruleysi tók hún sorginni og alltaf var það Margréti mikill styrkur að leita Guðs og huggunar hans í bæninni. Hún var kirkjurækin og mikil trúkona og þakklát fyrir allar kærleiksgjafir Guðs.

Ég þakka trausta samfylgd með tengdamóður minni og hlýhug hennar í garð fjölskyldunnar. Góður Guð helgi og blessi minningu hennar.

Sjöfn Jóhannesdóttir.

Ástkær tengdamamma mín er látin. Eftir 37 ára samleið er margs að minnast. Margrét var að sumu leyti einstök kona. Hún kom víða við á langri ævi. Var mjög pólitísk og lét sig hin ýmsu mál varða. Hún var góður málsvari lítilmagnans. Hún smitaði marga með áhuga sínum og hvatti vini, vandamenn og jafnvel ókunnuga til að láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni til jöfnunar. Margrét var óþreytandi í prófkjörum Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, í bæjarstjórnar- og þingkosningum hvort heldur sem það var að bera út blöð, færa bæjarbúum rósir, baka, bera fram, setjast við símann eða halda barátturæður á fundum. Hún gekk í allt. En hún átti líka önnur áhugamál, hún var t.d. unnandi klassískrar tónlistar og var sérstakur aðdáandi Tríós Reykjavíkur.

Tengdamamma mín var falleg kona og eftirtektarverð. Hún hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum sjálf var hún jafnan glæsileg til fara. Um leið var hún hagsýn og fór vel með.

En umfram allt var það fólkið hennar, börnin, barnabörn, barnabarnabörn og tengdabörn sem stóðu hjarta hennar næst. Ein fárra sem sagði svo oft; „mér þykir svo vænt um þig“, „ég er svo stolt af þér“. Nokkuð sem við hin höfum vonandi lært af henni og munum bera áfram. Hún var afar stolt af sonum sínum og dóttur. En öll hafa börnin hennar átt og eiga velgengni að fagna í störfum sínum, fyrir land og þjóð. Margrét minntist oft á það að hún ætti heimsins bestu börn, barnabörn og tengdabörn. Taldi sig ríka konu og það var hún svo sannarlega þótt ómældir erfiðleikar og mótlæti lituðu síðari hluta ævi hennar. Margrét þurfti að sjá á eftir einkadóttur sinni, Snjólaugu, aðeins 52 ára, hún missti ömmustrákana sína Fannar Karl og Brynjar Frey í slysi, síðar missti hún svo Fróða ömmustrák sem lést 19 ára gamall. Við þessi áföll bognaði mín kona, en brotnaði ekki. Reis upp jafnvel enn sterkari en fyrr. Hún mildaðist við mótlætið. Fyrir það þakkaði hún Guði sínum og trú sinni á Hann. Hún var þess viss að fólkið sitt fengi hún að hitta aftur að lokum.

Margrét hefur átt við heilsubrest að stríða undanfarin ár. Þá var miður að við hjónin vorum víðsfjarri heimahögum vegna vinnu. Því var það afar dýrmætt fyrir hana og okkur að eiga að Heimi, Fannar og Brynjar sonarsynina og nöfnuna Margréti Hildi. Öll hafa þau reynst ömmu Möggu vel og hafa með ánægju sinnt henni af alúð og einstakri væntumþykju árum saman. Fyrir það var Margrét afar þakklát. Sagði reyndar stundum um „drengina sína“ að svona stráka þyrftu allar ömmur að eiga. Barnabörnin voru augasteinarnir hennar. Hún óskaði þess heitt að þau gengju menntaveginn og hvatti þau óspart.

Fyrir hönd fjölskyldu minnar þakka ég af alhug systurdætrum Margrétar, Ingu og Guðrúnu fyrir alúð, umhyggju og elsku sem þær hafa sýnt frænku sinni undangengin ár.

Hafi yndislega tengdamóðir mín hjartans þökk fyrir aldeilis litríka og oft bráðskemmtilega samleið, kærleikann, vináttuna og traustið.

Stefáni tengdaföður mínum bið ég huggunar á erfiðum tímum. Blessunaróskir til ástvinanna allra.

Far í friði.

Jóna Dóra Karlsdóttir.

Kær vinkona er fallin frá.

Hún var hávaxin, grönn, alltaf ung í anda og klædd samkvæmt nýjustu tísku. Hún Margrét Guðmundsdóttir var líka vel gefin og hafði brennandi áhuga á stjórnmálum og ég er sannfærð um að hún hefði orðið góður stjórnmálamaður ef hún hefði fæðst örlítið síðar á öldinni.

Í gamni og alvöru má segja að hún hafi komið fjórum mönnum inn á þing. Stefáni, eiginmanni sínum, sonunum Gunnlaugi og Guðmundi Árna og stjúpsyninum Finni Torfa Stefánssyni. Hún var alþýðuflokkskona í húð og hár og Hafnarfjörður var hennar bær. Í eina skiptið sem okkur varð sundurorða var þegar við Finnur Torfi ákváðum að flytja frá Hafnarfirði. Henni fannst það glapræði og gat ekki orða bundist, en erfði það sem betur fer ekki lengi við okkur. Hún Magga var ekki skaplaus kona, en hjartahlý og traust og mátti ekkert aumt sjá.

Hún dekraði við barnabörnin sín og árin sem þau Stefán bjuggu í Bretlandi bauð hún Fróða, syni okkar Finns, í heimsókn eitt sumarið. Hann var níu ára og hafði ekki fyrr farið út fyrir landsteinana. Magga bar hann á höndum sér og sýndi honum allt sem gat hugsanlega vakið áhuga hans. Dvölin varð honum ógleymanlegt ævintýri.

Við Magga skiptumst alltaf á jólagjöfum, en í ár ákvað ég, ásamt hljómsveitinni minni, að heimsækja hana og Stefán á Hrafnistu rétt fyrir jól og halda þeim til heiðurs svolitla jólatónleika. Þetta var ógleymanleg stund. Tónlistarsalurinn var troðfullur af íbúum Hrafnistu og gestum þeirra, en á fremsta bekk, fyrir miðju, sat Magga í sínu fínasta pússi og í rauðu Dior-skónum sínum og henni á hægri hönd sat Stefán. Hún kunni vel að meta þessa jólagjöf og það eina sem skyggði á daginn var að hún hafði ekki fundið rauðu Dior-töskuna í stíl við skóna.

Síðasta samtal okkar var tveim dögum áður en hún dó. Hún hringdi til mín til að spyrjast fyrir um Helgu, systur mína, sem slasaðist í nóvember sl. Magga hafði svo miklar áhyggjur af henni og þegar ég var búin að fræða hana um að Helga væri mikið að hressast sló hún á létta strengi. Við kvöddumst svo með virktum og hún bað fyrir sérstaklega góða kveðju til Helgu.

Ég kveð þig nú í síðasta sinn, elsku vinkona, og þakka þér fyrir öll góðu árin. Blessuð sé minningin um Margréti Guðmundsdóttur.

Edda Þórarinsdóttir.

Elsku amma Magga, nafna mín.

Makalaust hvað við höfum átt flókið en jafnframt skemmtilegt líf saman. Hvað við brölluðum margt. Það sem þér datt í hug að trúa mér fyrir og segja mér frá.

Ég minnist þess þegar þú varst að að segja mér frá Magnúsi bróður þínum sem lést ungur og var þér og öllum harmdauði, og sögunum úr æsku þinni.

Ég man, þegar við slepptum ekki hvor annarri út fyrir hússins dyr fyrr en eftir að minnsta kosti eitt sérríglas. Amma, þér þótti svo gaman að taka eitt og eitt sérríglas. Og það var gaman að skála við þig. Þú varst nefnilega svo lifandi og skemmtileg.

Ég man þegar ég fékk að sitja tímunum saman við snyrtiborðið þitt. Fékk að nota allt snyrtidótið þitt og öll fötin þín sem fylltu fataskápana þína. Ekkert var bannað. Bara gaman.

Allar Siggu sögurnar, þær fylgja mér um ókomna tíð. Hvað ég gat skemmt mér yfir þeim frá unga aldri. Sjálf segi ég mínum börnum Siggu sögur, sögurnar þínar. Og þau skemmta sér jafnvel yfir þeim og ég gerði þegar þú sagðir mér þær.

En elsku amma mín, við vorum ekki alltaf sammála. Kannski höfum við verið of líkar. En það breytti ekki því að við elskuðum hvor aðra, enda ekki annað hægt. Þú varst alveg ótrúleg kona, amma mín, og ég er svo stolt af því að bera nafnið þitt.

Takk fyrir að hafa verið amma mín, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Takk fyrir allar stórskemmtilegu stundirnar okkar. Þær gleymast ekki svo glatt.

Ég kveð þig að sinni en ber í brjósti mér allt það góða sem þú hefur gefið mér.

Ég bið að heilsa.

Þín

Margrét Hildur.

Amma var einstök kona, góð við alla og vildi öllum gott. Hún sýndi mér alltaf hlýju og öryggi og var mjög gestrisin. Tók alltaf vel á móti mér og vildi bjóða upp á eitthvað gott.

Amma vildi alltaf vera fín og sæt. Hún var alltaf að hugsa um aðra og sagði oft: „Farðu varlega.“ Hún var mjög stolt af barnabörnum sínum og var mikið fyrir að baka fyrir aðra og bjóða fólki í mat, sérstaklega barnabörnum. Amma var dugleg kona, hún fór mikið í sund og út að ganga, sérstaklega var hún dugleg við að baka súkkulaðikökur.

Stundum gat amma verið óheppin með suma hluti en var góð að bjarga málunum og hjálpa öðrum. Hún var ekki mikið að fara út á land og helst vildi hún bara vera heima.

Nú er amma gömul og dáin og farin á góðan stað hjá Guði en við fjölskylda hennar eigum góðar minningar um hana sem við munum aldrei gleyma.

Gunnlaugur Örn Stefánsson.

Hún var 75 ára þegar hún bað manninn á Strandgötunni sem var að laga ljósastaurinn um að fá að koma með honum upp í lyftunni og veifaði til okkar síðan úr 8 metra hæð. Hún keyrði fjölskylduna í rútu á Þingvelli í sjötugsafmælið sitt. Hversu oft fór hún með súkkulaðiköku á bensínstöðina þar sem hún verslaði eða í Suðurbæjarlaugina, bara svona til að þakka fyrir góða þjónustu. Þetta lýsir ömmu okkar dálítið, hún var ekki vön að láta lítið fyrir sér fara, heldur lagði hún sig fram við að skilja eftir sig spor, láta að sér kveða og lifa lífinu. Fólk tók eftir henni og hún tók eftir fólki.

Núna áttum við okkur á því hve öll hádegishléin okkar í Öldutúnsskóla voru dýrmæt, þá var hlaupið út um leið og bjallan hringdi og beint til ömmu sem var tilbúin með heitan mat og búin að kveikja á Nágrönnum. Hún klikkaði heldur aldrei á því að eiga ís í eftirrétt. Eitt er víst að maður gekk aldrei svangur út frá ömmu, hún passaði upp á það. Og oftar en ekki vildi hún senda okkur til baka með konfekt fyrir kennarann. Svo voru það bílferðirnar með ömmu, frá Hvammabrautinni og niður í miðbæ sem hún vildi alltaf breyta í flugferðir, þar sem hún lék flugstjórann, oft vildi hún hafa smá ókyrrð í lofti.

Og ekki urðu heimsóknirnar leiðinlegri hin seinni ár. Við gátum talað við hana um allt saman, hún þekkti næstum alla í Hafnarfirðinum en allir þekktu hana. Og við fundum svo vel hvað hún hafði mikinn áhuga á því sem við vorum að gera.

Þó svo amma hafi verið farin að gleyma ýmsu þá mundi hún alltaf að spyrja um Hörð Frey, hvort hann væri ekki frískur og hvernig hann hefði það, aldrei þurfti að hjálpa ömmu að klára þær setningar. Mikið þótti pabbanum í bræðrahópnum vænt um spurningarnar hennar ömmu. Mikið rosalega gefur það okkur mikið að vita hvað amma var stolt af okkur.

Svona var hún amma okkar góð, hress og skemmtileg við okkur barnabörnin sín. Hvort sem það voru ferðir í leikhús, til læknis, Siggusögur, matur á Aroma eða hvað, alltaf var hún til í að rugla í okkur og við í henni. Það er rétt hægt að ímynda sér hversu gaman var að vera í kringum hana. Fyrir vikið eigum við helling af góðum minningum um ömmu okkar.

Elsku amma Magga; við vitum að þú hlakkaðir til að hitta fólkið þitt aftur. Nú ertu orðin fullfrísk og aftur til í slaginn. Núna vitum við líka að ís er ekki fitandi. Við elskum þig. Takk fyrir allt.

Heimir Snær, Fannar Freyr og Brynjar Ásgeir.

Þegar ég minnist mágkonu minnar, Margrétar, er efst í huga einlægur hlýleiki, sem hún alltaf sýndi mér, foreldrum mínum og systur minni, Sigurlaugu. Þá gleymist ekki ástúð Margrétar og umhyggja við bróður minn, Stefán, þótt til slita á hjúskap þeirra hafi komið. Breytti það engu um vilja þeirra til að styðja hvort annað sem best í lífsbaráttunni og sýndu þau það í verki.

Margrét var prýdd traustum mannkostum. Hjálpfýsi og réttlæti mótuðu hennar lífsviðhorf ásamt trúhneigð og trausti á forsjá Guðs. Hún var myndarleg húsmóðir, gestrisin og góðviljuð, ljúf í viðmóti og gædd ríkri fórnarlund. – Eftir að Margrét kynntist bróður mínum gerðist hún baráttufús jafnaðarmaður.

Margrét átti við erfið veikindi að stríða hin síðari ár og þurfti oft að dveljast á sjúkrahúsum og var meðal þeirra sjúklinga sem síðast fengu að njóta hjúkrunar á St. Jósefsspítala. Aldrei heyrði ég hana kvarta út af veikindum sínum. Síðast dvaldist hún á Hrafnistu í Hafnarfirði samtímis bróður mínum og kom þar vel í ljós, hversu ástríkt samband var á milli þeirra.

Um leið og ég með þakklátum huga kveð mína kæru mágkonu gætu synir Margrétar gert að sínu eftirfarandi erindi úr kvæðinu „Til móður skáldsins“, sem ömmubróðir minn, Jóhann skáld Sigurjónsson, tileinkaði móður sinni:

Ég veit, að það besta, sem í mér er,

í arfleifð ég fékk frá þér.

Ég veit, að þú gafst mér þá góðu lund,

sem getur brosað um vorfagra stund

og strengina mína, sem stundum titra.

er stráin af náttköldum dagperlum glitra.

stemmdi þín móðurmund.

Megi björt minningin um Margréti vera styrkur og ljós í lífi bróður míns, sona hans og annarra vandamanna.

Guð blessi minningu Margrétar.

Árni Gunnlaugsson.

Elsku móðursystir okkar Margrét Guðmundsdóttir er látin.

Magga „systir“ var okkur mjög kær. Þau systkinin Mummi, Steina, Addi, Magga og Óli voru mjög nátengd og notuðu alltaf systir eða bróðir þegar þau nefndu nafn hvert annars. Ólumst við systkinabörnin upp við það. Þess vegna tölum við alltaf um Möggu systur. Alla tíð var mjög náið samband á milli móður okkar Steinu og Möggu.

Þegar við vorum krakkar var farið á hverjum sunnudegi til afa og ömmu á Bræðraborgarstíginn. Sátu þær systur og prjónuðu og spjölluðu meðan eiginmennirnir lögðu sig í hjónarúmið. Afi og amma sáu um krakkastóðið. Afi var sendur með okkur niður að höfn og í verbúðina sína. Þar fengum við bestu sippu- og snúsnúböndin. Á meðan bakaði amma pönnukökur í gríð og erg.

Öll systkinin settust að í Hafnarfirði nema Mummi og var mikill samgangur og samheldni á milli þeirra og er systkinabarnahópurinn orðinn fjölmennur. Við vorum ungar þegar við fórum að passa hjá Möggu og Stefáni kvöld og kvöld og vorum stundum í vist hjá þeim.

Vegna starfa Stefáns bjuggu þau Magga í Englandi í nokkur ár. Fórum við með mömmu í heimsókn til þeirra og áttum þar mjög skemmtilega viku sem við rifjuðum oft upp með Möggu. Að sjálfsögðu voru allar verslanir í London og nærliggjandi bæjum þræddar og vel gert við okkur í mat og drykk. Mikið talað og mikið hlegið.

Magga var mikil húsmóðir og afburða flink í veisluhöldum sem kom sér oft vel. Voru þær ófáar veislurnar sem haldnar voru á Arnarhrauninu og nutum við stórfjölskyldan góðs af. Magga fór víða um lönd, kynntist ólíkum þjóðum, hitti fyrirmenni og fleira fólk og var alls staðar á heimavelli, glæsileg og vel máli farin. Gustaði af henni hvar sem hún fór. Hún var gjöful og rausnarleg við allt og alla.

Magga á góð börn sem hafa hlúð vel að henni, en lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hana og varð fjölskyldan fyrir stórum áföllum, en alltaf stóð hún keik. Hún var mjög trúuð kona og sótti styrk sinn í trúna.

Hin síðari ár jukust samskipti okkar systra og Möggu mikið. Sú regla komst á að við heimsóttum hana á hverjum mánudegi eftir vinnu frá því að hún bjó í Staðarhvamminum og héldum við þeim sið fram á síðasta dag. Þessar stundir veittu okkur öllum mikla gleði og ánægju. Við fengum okkur sérrítár saman og borðuðum konfekt, ræddum pólitíkina, skoðuðum kjólana hennar, fórum jafnvel saman og keyptum kjól ef mikið stóð til.

Við vorum svo lánsamar að heimsækja hana daginn áður en hún dó. Hvorug okkar hafði komist til hennar á mánudeginum og fórum því daginn eftir. Undanfarnar vikur hafði hún verið óvenju hress og kát. Um leið og við drukkum sérríið okkar fórum við í gegnum fataskápinn með henni og ræddum í hvaða kjól hún ætlaði að fara í fermingu langömmubarnsins hennar Aþenu á sunnudeginum. Valdi hún að sjálfsögðu þann sem henni þótti „lekkerastur“, eins og hún komst svo oft að orði.

Þannig leið okkar síðasta stund saman.

Við kveðjum elsku Möggu „systur“ með miklu þakklæti og söknuði.

Blessuð veri minning Margrétar Guðmundsdóttur.

Ingibjörg og Guðrún.

Það er gott að eiga góðar minningar þegar maður kveður nákominn ættingja. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að njóta samfylgdar við Möggu, föðursystur okkar, alla tíð. Þótt nú sé komið að kaflaskilum fylgja minningarnar okkur áfram.

Við höfum alltaf þekkt Möggu, hún var hluti af æsku okkar og uppvexti og heimili þeirra Stefáns var okkur alltaf opið, langt fram á fullorðinsár. Það var alltaf stutt á milli heimila okkar, bæði þegar við áttum heima á Sunnuveginum og ekki síður eftir að við fluttum á Arnarhraunið. Þá voru ekki nema nokkur hús á milli. Guðný og Guðmundur Árni fylgdust að í skóla, allt til stúdentsprófs og þau voru ófá skiptin sem Guðný staldraði við hjá Möggu frænku sinni á heimleið úr skóla.

Stóran hluta þess tíma sem Guðmundur Rúnar bjó í London ásamt fjölskyldu sinni, bjuggu Margrét og Stefán í Epsom, skammt fyrir sunnan London. Það var gott að heimsækja þau og eiga að og Guðmundur Rúnar bjó á heimili þeirra um skeið, í sérlega góðu yfirlæti.

Fyrir öll þessi hlýju og góðu samskipti erum við þakklát.

Það ríkti alltaf gleði í samskiptum systkinanna og stríðnin aldrei langt undan. Aldrei þó rætin eða meiðandi – bara hæfileg. Það leyndi sér aldrei að þau voru alin upp við mikla ástúð og umhyggju, ekki síst umhyggju hvert fyrir öðru. Alla okkar barnæsku var velferð Möggu ofarlega í huga föður okkar, ekki af því að það væri einhver sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af henni frekar en öðrum systkinum, heldur af því að hún var litla systir. Við ólumst upp við að Magga var litla systir pabba okkar.

Við leiðarlok erum við þakklát fyrir allar góðu samverustundirnar með Möggu frænku. Við erum þakklát fyrir allar fallegu og hlýju minningarnar um skemmtilega og góða frænku, litlu systur pabba okkar.

Um leið vottum við ættingjum og ástvinum öllum dýpstu samúð, í þeirri bjargföstu trú að dýrmætar minningar ylji um ókomna tíð.

Guðný Árnadóttir og Guðmundur Rúnar Árnason.

Ég vil með nokkrum orðum minnast vinkonu minnar, Margrétar Guðmundsdóttur, sem lést 14. mars sl.

Magga frænka, eins og hún var kölluð af mér og mínum, var elskuð og dáð af öllum sem þekktu hana og nutu elskusemi hennar og umhyggju.

Ég held að Magga hafi átt góða ævi þó að ýmsir hnökrar hafi verið á hennar leið.

Fyrir meira en 20 árum varð fjölskyldan fyrir því að missa tvo unga drengi í eldsvoða, það var hræðilegur raunveruleiki og mikill harmur. Magga saknaði sonarsona sinna mikið og sagðist aldrei komast yfir þetta mótlæti.

Þungu sporin hennar Möggu voru fleiri, einkadóttir hennar Snjólaug veiktist af þeim sjúkdómi sem dró hana til dauða langt um aldur fram. Dótturmissirinn var henni þungbær, þær mæðgur höfðu alltaf verið mjög samrýndar. Vonandi hafa þær nú sameinast á ströndinni hinumegin.

Magga var mjög flott kona, hún kunni sig í veislum, sjálf var hún oft með heimboð og var mikill veitandi í eðli sínu. Þegar ég heimsótti hana var hún ómöguleg ef ég þáði ekki annaðhvort sérrístaup eða konfektmola. Alveg fram í andlátið reyndi hún að bjóða gestum eitthvert góðgæti.

Magga var alltaf fín og flott í tauinu, hún átti fullan skáp af fötum, samt sagði hún oft í gríni; „ég á ekkert til að fara í“ og „ég verð að fara að endurnýja garderobinn“.

Ég minnist þess þegar þær systur, Magga og Steina, komu norður að Eyri í Ingólfsfirði, en þær voru ættaðar þaðan í móðurætt. Þær gistu hjá okkur ásamt tveim öðrum konum.

Steina hafði fengið sér nýja blússu fyrir ferðina, Magga hætti ekki að suða í systur sinni að fá blússuna lánaða fyrir kvöldverðinn. Við matarborðið sagði Steina okkur frá og gat varla talað fyrir hlátri, hvernig Magga með fortölum hafði af henni blússuna, þó að hún væri sjálf með fulla tösku af fötum.

Þetta voru miklir dýrðardagar á Eyri, veislan barst í eldhúsið þar sem spáð var í bolla og þaðan út í blessaða blíðuna, við sátum í grasinu og það var spjallað og hlegið. Síðan stóð Steina upp og ávarpaði okkur. Á eftir sagði Magga „svona er Steina systir, hún stendur upp og fer að tala eins og þjóðhöfðingi að ávarpa þjóð sína“.

Þær systur voru mjög nánar þær umgengust hvor aðra af ást og virðingu. Þegar Steina lést eftir nokkur veikindi sagði Magga: „Mér finnst ég hafa misst svo mikið“.

Magga var mjög stolt af afkomendum sínum, hún talaði oft um fólkið sitt og sýndi mér myndir og með hennar orðum; „ó þetta eru svo mklir sætalingar“.

Við Magga áttum margar góðar stundir saman sem er gott að minnast. Hún heilsaði mér alltaf með sömu orðunum „ert þetta þú, Svana mín, mikið er gaman að sjá þig“. Ég heimsótti hana reglulega, ég vildi að hún vissi að mér þótti líka alltaf gaman að sjá hana.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég og fjölskylda mín öllum ættingjum hennar. Guð geymi Möggu frænku.

Í minning mætrar konu

margt um huga fer

Eitt líf með gleði og vonum

úr heimi farið er.

Ég bið að hana taki

og geymi í faðmi sér

sá er yfir vakir

og heyrir allt og sér.

(SG.)

Svanhildur Guðmundsdóttir.

Ég minnist atviks í Sundhöll Hafnarfjarðar fyrir nokkrum árum er mér finnst einkennandi fyrir Margréti Guðmundsdóttur, sem gift var náfrænda mínum Stefáni Gunnlaugssyni, fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og alþingismanni m.m. Ég hitti hana í Sundhöllinni og var hissa að sjá hana þar því hún var ekki vön að sækja þá laug. En Margrét var mikil sundkona sem synti nær hvern dag. Ég nærsýna konan, gleraugnalaus, komst ekki hjá að bera samt kennsl á hana, útgeislun hennar og nærvera var slík. „Er þetta ekki Margrét?“ kalla ég. „Jú, jú,“ svarar hún, „Suðurbæjarlaugin er lokuð vegna viðgerða og þess vegna er ég hér.“ Við spjölluðum saman góða stund og síðan segir hún: „Líney mín, gerðu eitt fyrir mig, kauptu þér skó svipaða og þessa“ og hún dró annan skóinn sinn af sér og sýndi mér „svo þú rennir ekki og dettir á bakkanum og farðu svo varlega mín kæra“. Þetta litla atvik sýnir frábæra umhyggju Margrétar fyrir öllu og öllum og þarna fyrir mér en hún lét ekki smáatriðin fara framhjá sér. Margréti tókst á sinn sérstaka hátt að gera lífið bjartara og betra með sinni hlýlegu og vingjarnlegu framkomu, sem ég oft naut góðs af.

Við mannanna börn erum brothætt og lítil þegar við missum ástvini okkar og erfitt að lifa það af nema til komi æðri máttur. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Margréti en hún stóð uppi vitur, sterk og hlý til hins síðasta. Mér er sagt að hún hafi verið glöð og hress lokakvöldið á Hrafnistu og orðið þeirrar náðar aðnjótandi að fá að fara í svefni um nóttina.

Um undra-geim í himnaveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Þ. Gröndal.)

Við Reynir vottum fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Líney Friðfinnsdóttir.

Það var glaður hópur sem útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands árið 1945. Við bekkjarsysturnar stofnuðum saumaklúbb á skólaárunum og með okkur tókst mikill vinskapur sem hefur haldist alla tíð síðan. Til að byrja með hittumst við á æskuheimilum hver annarrar og til Möggu var gott að koma og það var augljóst að henni þótti afar vænt um fjölskyldu sína. Margar bekkjarsysturnar fóru í húsmæðraskóla til Svíþjóðar veturinn 1946-1947 og var Magga þar á meðal. Stuttu eftir að hún kom heim giftist hún Stefáni bekkjarbróður okkar og eignuðust þau fjögur börn. Þau áttu fallegt heimili og buðu okkur bekkjarsystkinunum oft í skemmtileg boð ásamt mökum okkar. Magga var glæsileg og falleg kona, yndisleg móðir og hún fylgdi börnunum vel eftir. Hún var einkar skemmtileg og naut sín vel í vinahópi. Hún var áhugasöm um mörg málefni og sótti námskeið og fyrirlestra meðal annars í Háskóla Íslands. Hún var trúuð og er mér mjög minnisstætt þegar við fórum saman á fyrirlestur í Hafnarfjarðarkirkju og áttum saman góða stund á eftir. Magga þurfti að takast á við miklar sorgir en horfði þó alltaf bjartsýn fram á veginn.

Við vinkonurnar í saumaklúbbnum höfum haldið hópinn öll þessi ár og verið duglegar að hittast heima hjá hver annarri eða farið saman á listviðburði og borðað síðan saman á eftir. Það hefur verið ómetanlegt að eiga þessar vinkonur öll þessi ár, geta talað við þær um æskuárin og málefni líðandi stundar og við höfum tekið þátt í gleði og sorgum hver hjá annarri. Ég kveð nú yndislega vinkonu og sendi fjölskyldunni allri mína innilegustu samúðarkveðju.

Guð blessi þig, Magga mín.

Þín vinkona

Sigríður Þórðardóttir.

Þegar ég flutti fyrst í Hafnarfjörð fyrir rétt um fimmtíu árum síðan, kynntist ég fljótt Alþýðuflokksfólkinu í bænum. Margrét Guðmundsdóttir var ein af þeim konum í flokknum, sem ég tók fyrst eftir. Hún bauð af sér svo góðan þokka að erfitt var annað en að hrífast með áhuga hennar og krafti í flokksstarfinu. Ekki skemmdi það fyrir að synir hennar tveir, þá kornungir, stunduðu æfingar af fullum krafti í hinum félagsskapnum mínum, FH. Með mér og fjölskyldu Margrétar tókust strax órjúfanleg vinabönd, sem standa enn þann dag í dag. Margrét var sífellt að hvetja til dáða í starfinu og hún lá alls ekki á skoðunum sínum. Margt ráðið gaf hún okkur yngra fólkinu, alltaf til hagsbóta væri þeim fylgt. Höfðingsbragur var alltaf á heimili hennar og mér er minnisstætt er þau hjónin buðu heim til sín á Arnarhraunið stórum hópi gesta frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar, sem komið höfðu í heimsókn til Alþýðuflokksfélaganna. Síðar fór stór hópur krata úr Hafnarfirði til Cuxhaven. Þar var að sjálfsögðu Margrét með og naut ferðarinnar í hvívetna enda móttökur einstakar. Þegar við Guðmundur Árni, sonur hennar, vorum báðir komnir í bæjarmálapólitíkina 1986, fengu við bréf frá vestfirskum ættfræðingi sem sýndi okkur fram á að við værum náskyldir í gegnum föður minn og Margréti móður Guðmundar af gagnheilum vestfirskum stofni og þótti okkur það ekki verra.

Við hjónin kveðjum Margréti með söknuð í huga og með þökk fyrir samfylgdina. Allri fjölskyldu Margrétar sendum við innilegar samúðarkveðjur, en minningin um framúrskarandi konu mun lifa um langa framtíð.

Ingvar Viktorsson.

„Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.“ Fjallræða Jesú hefst á uppörvandi og róttækum sæluboðum. Hann segir þá sæla er syrgja vegna komandi huggunar, sæla sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, sæla miskunnsama, sæla hjartahreina, því að þeir munu sjá Guð. Margrét Guðmundsdóttir sótti leiðarljós í boðskap frelsarans. Eftir að hún fluttist ung að árum í Hafnarfjörðinn skipaði hún sér í sveit alþýðu- og jafnaðarmanna og vann að því að félagsleg velferðarsjónarmið mótuðu mannlíf og menningu. Hún lét sig varða Hafnarfjarðarkirkju og tengdist henni í sorg og gleði. Margrét var verslunarskólagengin og hafði erlendis numið tungumál og listasögu. Hún var glæsileg að sjá, listræn og smekkvís og fann í trú sinni vegvísinn til hins góða, fagra og fullkomna er lífi bæri að stefna til. Hún kom vel fyrir sig orði styrkri og hljómþýðri röddu og var vönduð í verkum sínum. Börn hennar, Snjólaug, Gunnlaugur, Guðmundur Árni og Ásgeir svo og Finnur Torfi stjúpsonur, nutu umhyggju hennar og hugsjóna í uppvexti og létu síðar vel að sér kveða í þjóðfélaginu sem málsvarar félagshyggju, fagurlista og kirkju. Margrét studdi Stefán eiginmann sinn vel sem bæjarstjóra í Hafnarfirði og einnig í utanríkisþjónustu erlendis. Hún fylgdist vel með og lét sig varða byggingu safnaðarheimilis Hafnarfjarðarkirkju og tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem því tengist enda unnið að þessum byggingum í góðu samstarfi kirkju og bæjar er Guðmundur Árni var bæjarstjóri Hafnfirðinga. Margrét og fjölskylda hennar tóku þátt í vígslu kapellu heimilisins 18. febrúar 1995. Þau Stefán gáfu söfnuði kirkjunnar skírnarfontinn er þá var helgaður. Skál hans er úr gegnheilu silfri og silfurskildir greyptir á fontinn með nöfnum Fannars Karls og Bynjars Freys, sona Jónu Dóru Karlsdóttur og Guðmundar Árna er tíu árum fyrr létust barnungir af slysförum. Kapellan er sem stafn í skipi og himinbirtan skín úr austri inn í hana sem morgun- og páskaljómi. Margrét sótti styrk í fórnandi elsku frelsarans og himinsýn trúarinnar og miðlaði ástvinum af sýn sinni og trú. Það gerði hún líka er Snjólaug féll frá. Margrét hafði miklu að miðla og gaf mikið af sjálfri sér. Hún hafði tapað heilsu og þreki síðustu árin en lét sem minnst á því bera. Enn sótti hún kirkju sína og líka lágreista Krýsuvíkurkirkju. Þótt hún fyndi fyrir andþrengslum er hún var á leið í síðustu messuna þar, vildi hún endilega halda áfram, og það lifnaði mjög yfir henni í kirkjunni. Henni þótti sárt að Krýsuvíkurkirkja skyldi brenna en gladdist við góð tíðindi af endursmíði hennar. Margrét hafði reynt skapandi mátt fagnaðarerindisins er endurreisir, líka jarðneskt líf úr dauða í upprisuljóma frelsarans og það lifði í hjarta henni. Það gladdi hana að börn hennar og afkomendur virtu erindi hans og þjónuðu því og sóttu þar hvatningu til réttlætisbaráttu og líknar- og miskunnarverka. Við þökkum að hafa átt Margréti að hollvini og horfum til þess í trú að hún hafi nú séð Guð í mynd frelsarans upprisna og biðjum hann að lýsa ástvinum hennar.

Þórhildur Ólafs

og Gunnþór Ingason.

Ég kynntist Margréti þegar ég var í fyrsta bekk í barnaskóla. Við Guðmundur Árni, sonur hennar, urðum fljótlega vinir og þar hófst vinskapur sem síðan hefur aldrei slitnað. Á þessum árum fór Guðmundur að venja komur sínar á Sunnuveginn og ég á Arnarhraunið. Á Arnarhraunið var gaman að koma og við strákarnir vorum alltaf auðfúsugestir. Heimilið var myndarlegt og yfir því ríkti ákveðinn „alþjóðabragur“. Stefán hafði stundað nám í Englandi og vegna starfa sinna fóru þau Stefán og Margrét töluvert til útlanda, stundum á fjarlægar slóðir og bar heimilið þess merki. Á Arnarhrauninu var það Margrét sem réði ríkjum. Það var gaman að heimsækja Margréti á Arnarhraunið, því þó að Guðmundur væri ekki heima var okkur strákunum boðið inn að spjalla yfir kökum og mjólkurglasi. Margrét hafði nefnilega þann hæfileika að geta sett sig í okkar spor og spjallað um heima og geima eins og hún væri ein af okkur. Þannig var hún, henni þótti vænt um vini barnanna sinna.

Á þessum árum var Hafnarfjörður mun minni bær en nú. Það þekktu eiginlega allir alla. Langt aftur í ættir var mikill vinskapur á milli föðurfjölskyldu Guðmundar Árna og móðurfjölskyldu minnar. Móðir mín, Kristín og Margrét þekktust þess vegna ágætlega og sá kunningsskapur styrktist bara við að við strákarnir urðum vinir. Sá kunningsskapur hélt síðan áfram að styrkjast löngu eftir að við strákarnir vorum löngu fluttir að heiman. Ekki voru þær sammála í pólitík, en það létu þær aldrei trufla sig. Þær einfaldlega ræddu aldrei slík mál. Voru bara sammála um að vera ósammála. Þegar komið var að leiðarlokum hjá móður minni, kraftarnir á þrotum, vinirnir margir horfnir yfir móðuna miklu og því heimsóknum farið að fækka, var það Margrét sem kom reglulega í heimsókn. Þannig var Margrét, hún passaði upp á vini sína. Það vil ég þakka.

Það er oft stutt á milli gleði og sorgar. Gömul tíðindi og ný. Barnabarnabarn Margrétar fermdist í þessari viku. Margrét hlakkaði til fermingarinnar, að hitta fjölskylduna, vinina, gleðjast með barnabarnabarninu. Þannig var Margét, hún hugsaði fyrst og síðast um að halda vel utan um sína fjölskyldu.

Bárður Sigurgeirsson.

Ég átti því láni að fagna að kynnast Margréti er ég hóf störf hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði á vordögum árið 1990.

Við samstarfsfélagarnir gerðum margt skemmtilegt saman og þurfti engar sérstakar nefndir eða stjóra til að skipuleggja þá viðburði. Þeir spruttu fram einn af öðrum og Margrét lét ekki sitt eftir liggja. Á gullfallegu menningarheimili hennar og Stefáns á Arnarhrauninu voru mörg skemmtileg boðin. Margrét var höfðingi heim að sækja, hún hafði yndi af gestakomum, var snilldarkokkur og naut þess að veita. Gestrisni hennar voru engin takmörk sett.

Skemmtiferð sem við fórum í nokkrar af embættinu ásamt Margréti og Steinu systur hennar norður á Strandir er ógleymanleg. Þær systur áttu ættir að rekja í Ingólfsfjörð og þar áttum við dásamlega daga hjá Svönu og Óla á ættaróðali þeirra systra. Móttökur þeirra og Guðrúnar og Óskars gerðu ferðina ógleymanlega. Á leiðinni norður var ekki stoppað í sjoppum, nei við áðum á fallegum stöðum. Margrét sá um veitingarnar, breiddi út dúk í laut og síðan voru kræsingarnar reiddar fram, ljúffengar og glæsilegar að hætti Margrétar. Það var alltaf skemmtilegt að rifja þessa ferð upp, því hún var ekki án ævintýra, sem við gátum endalaust hlegið að.

Margrét var dugleg að sækja menningarviðburði og hafði yndi af ferðalögum á meðan heilsan leyfði. En því miður hafa síðustu ár verið henni þung í skauti, vegna heilsubrests. Fráfalli barnabarna og síðar einkadótturinnar Snjólaugar fylgdi sorg sem nísti og tók sinn toll.

Margrét var mikill jafnaðarmaður og kratarósin var hennar uppáhald. Margrét var sannkallaður vinur vina sinna og gjafmildi hennar og umhyggja verður seint þökkuð. Hún var alltaf að hugsa um aðra. Margrét passaði upp á alla afmælisdaga, valdi gjafir af kostgæfni, var mætt á mínútunni í boðin, fallega klædd og glæsileg, því hún var auðvitað hefðar- og heimsdama.

Þegar ég eignaðist mína fjölskyldu umvafði hún okkur Þorstein og dætur okkar, Katrínu Sigríði og Jórunni Maríu. Engin barnaafmæli voru án Margrétar frænku í Hafnarfirði. Hún hafði einlægan áhuga á öllu sem þær systur tóku sér fyrir hendur og fylgdist vel með viðfangsefnum þeirra.

Laugardaginn 9. mars áttum við Margrét yndislega samverustund. Hún hlakkaði til sumarsins, þá gæti hún setið á svölunum og notið fallega útsýnisins. Hún lyfti hnjánum að höku og sagði mér að hún fyndi hvergi til. Við rifjuðum upp ýmislegt skemmtilegt, gengum um ganginn, skipulögðum næstu heimsókn og hún fylgdi mér til dyra og við kvöddumst hinsta sinn. Ég var glöð í sinni eins og ávallt eftir heimsóknir til minnar kæru vinkonu.

Við fjölskyldan þökkum fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar og elsku og umhyggju í okkar garð. Minningarnar um Margréti eru dýrmætar perlur sem geymast en gleymast ekki. Það kemur enginn í Margrétar stað og það voru forréttindi að eiga samleið með henni. Blessuð sé minning Margrétar Guðmundsdóttur.

Halla Bachmann Ólafsdóttir og fjölskylda.

Margrét Guðmundsdóttir kom ung stúlka úr sjálfstæðisfjölskyldu vestan af Ísafirði og giftist inn í eina rótgrónustu kratafjölskyldu í Hafnarfirði. Það segir meira um hana en flest annað að fljótt varð hún eindregnari og ákveðnari jafnaðarmaður en þeir flestir.

Ég sá hana fyrst á opnum fundi við ríkisstjórnarmyndun 1991 þegar við vorum mörg að binda vonir við framhald vinstri stjórnar. Þangað kom hún og flutti innblásna ræðu og bar kveðju sona sinna og eiginmanns. Félagar úr Hafnarfirði muna dugnað hennar í flokksstarfi. Hún var alltaf að benda félögunum á hverja þyrfti að tala við, jafnt þá úr kjósendahópnum sem væru að efast um málstaðinn og hina, sem von var í fyrir næstu kosningar. Hún var ættmóðir – burðarás í einni pólitískustu fjölskyldu seinni tíma. Stefán maður hennar og Guðmundur Árni voru báðir bæjarstjórar í Hafnarfirði, synirnir Guðmundur og Gunnlaugur og stjúpsonurinn Finnur Torfi allir þingmenn og Snjólaug heitin dóttir hennar lykilmanneskja í Kvennalistanum. Hún varði sitt fólk af einurð og lagði allt í sölurnar í baráttu þegar það átti í hlut. Pólitísk sannfæring hennar og stuðningur við jafnaðarstefnuna var einlægur allt til æviloka.

Fyrir hönd Samfylkingarinnar, Jafnaðarmannaflokks Íslands, færi ég Margréti okkar bestu þakkir fyrir allt hennar starf í þágu flokks og hreyfingar. Eftirlifandi ættingjum votta ég mína dýpstu samúð.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Það vakti athygli mína þegar ég fyrst hitti Margréti Guðmundsdóttur hvað hún var brosmild, jákvæð en samt íbyggin og íhugul. Það leyndi sér ekki eitt andartak í fari þessarar fíngerðu, fáguðu og rólyndu konu að þar fór góð manneskja og greind. Síðar átti ég eftir að kynnast gamansemi hennar, skynsemi og einstökum hæfileika til að nýta og samhæfa alla þessa eiginleika sér í hag og öðrum til huggunar og styrks, einkum þegar lífið fór óblíðustu höndum um fjölskylduna.

Margrét Guðmundsdóttir var sjálfstæð kona og sterk, ein þeirra kvenna sinnar kynslóðar sem ekki létu bugast þótt hún mætti andstreymi í lífinu, sem hún sannarlega gerði. Það var eins og þessari yfirlætislausu konu yxi ásmegin við hvern þann brimskafl sem á henni braut, en eftir stóð hún sem klettur. Ég held að óhætt sé að segja að hæfileiki Margrétar til að mæta lífinu í sinni dekkstu og miskunnarlausustu mynd hafi gleggst komið í ljós þegar litlu sonarsynir hennar, þeir Fannar Karl og Brynjar Freyr, synir Guðmundar Árna og Jónu Dóru Karlsdóttur létust í eldsvoða í febrúar 1985, aðeins fjögurra og níu ára gamlir. Þá voru greipar spenntar í heitum bænum og krefjandi spurningum. Að komast heill heilsu frá viðlíka voðaatburði jaðrar við ofurmennsku. En Margrét vissi að miskunn Guðs er handan mannlegra raka og gilda og því deildi hún með öðrum. Þar leiddi hún og huggaði eins og kraftar leyfðu. Það veit hins vegar enginn hvar og hvort hún fékk útrás fyrir sársauka sinn og sorg í það skiptið.

Enn átti Margrét eftir að takast á við sorg og missi, því einkadóttirin Snjólaug, sú frábæra kona, greindist með illkynja krabbamein í höfði sem dró hana smátt og smátt út af leiksviði lífsins, frá ungum dætrum og góðum starfsframa, aðeins 53 ára gamla. Þar missti Margrét ekki aðeins dóttur sína heldur einnig sinn besta vin. Enn reis hún upp tvíefld og sagði að langt líf og góð heilsa væri það tvennt í heimi hér sem ekki væri sjálfgefið; væri ekki valkvætt nema að sáralitlu leyti.

Margrét átti um árabil við hjartasjúkdóm að stríða en það var sama hvað hún var þráspurð um líðan sína; það hafði það enginn betra en hún, jafnvel þótt hún lenti í hjartastoppi fyrirvaralaust. Hennar var ekki háttur að bera tilfinningar sínar eða hagi á torg.

Margrét vann um árabil hjá Héraðsdómi Reykjaness við framúrskarandi orðstír og minnist ég af því tilefni orða Ólafar heitinnar Pétursdóttur dómstjóra þar sem hún lét í mín eyru þau orð falla, að að öðru óbreyttu starfsfólki dómsins ólöstuðu, þá væri Margrét Guðmundsdóttir sá starfsmaður sem hún treysti hvað best; hefði frumkvæði, væri dugleg og vissi nákvæmlega skil á sínum verkþáttum.

Það er trú mín og sannfæring að nú séu þær mæðgur, Margrét og Snjólaug í faðma fallnar með Fannar Karl og Brynjar Frey mitt á milli sín.

Algóður Guð blessi minningu þeirra allra, hann blessi syni Margrétar og tengdadætur, Stefán og barnabörnin öll og barnabarnabörnin.

Önundur S. Björnsson, Breiðabólstað í Fljótshlíð.