Valdníðsla „Ég hef fengið meira en nóg af valdníðslu af hálfu FME. Þegar ekki einu sinni er beðist afsökunar eða boðnar fram bætur þegar valdi er misbeitt, þá er ég tilneyddur til að höfða skaðabótamál,“ segir Ingólfur Guðmundsson.
Valdníðsla „Ég hef fengið meira en nóg af valdníðslu af hálfu FME. Þegar ekki einu sinni er beðist afsökunar eða boðnar fram bætur þegar valdi er misbeitt, þá er ég tilneyddur til að höfða skaðabótamál,“ segir Ingólfur Guðmundsson. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, segir sínar farir ekki sléttar í samskiptum við FME, allt frá árinu 2010 • FME vék honum úr starfi haustið 2010 og taldi hann vanhæfan, vegna fyrri starfa sem...

• Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, segir sínar farir ekki sléttar í samskiptum við FME, allt frá árinu 2010 • FME vék honum úr starfi haustið 2010 og taldi hann vanhæfan, vegna fyrri starfa sem stjórnarformaður Íslenska lífeyrissjóðsins • Héraðsdómur dæmdi Ingólfi í vil • Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði að FME hefði brotið á Ingólfi og m.a. ekki gætt að jafnræðisreglunni • Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni FME

Viðtal

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ingólfur Guðmundsson hefur átt í nokkurs konar varnarbaráttu við Fjármálaeftirlitið í hartnær þrjú ár og telur sig hafa rétt hlut sinn að nokkru leyti fyrir dómi og umboðsmanni Alþingis.

Ingólfur féllst á að útskýra sína hlið fyrir lesendum Morgunblaðsins, og hún fer hér á eftir, ásamt völdum tilvitnunum í úrskurð umboðsmanns Alþingis og í ákveðna kafla í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, frá því 5. janúar 2012. Ingólfur undirbýr nú, ásamt lögmanni sínum, Jónasi Fr. Jónssyni, skaðabótamál á hendur FME.

FME vék Ingólfi einhliða úr starfi

Forsaga málsins er sú að Fjármálaeftirlitið ákvað að víkja Ingólfi Guðmundssyni úr starfi sem framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga haustið 2010. Hann taldi þá ákvörðun ólögmæta enda var ákvörðunin felld úr gildi með fullnaðardómi Héraðsdóms Reykjavíkur í janúar 2012. Hæstiréttur hafnaði beiðni FME um áfrýjunarleyfi.

Í apríl og maí 2011 fjallaði Fjármálaeftirlitið um mál Ingólfs á vefsíðu sinni með því sem Ingólfur taldi meiðandi hætti fyrir æru hans. Í kjölfar kvörtunar Ingólfs hefur umboðsmaður Alþingis gert alvarlegar athugasemdir við umfjöllun FME.

Umfjöllun FME ólögmæt

Ingólfur segir ljóst af áliti umboðsmanns að umfjöllun Fjármálaeftirlitsins hafi verið ólögmæt, meiðandi fyrir mannorð hans og skaðað atvinnumöguleika hans. Með henni hafi FME brotið gegn jafnræðisreglu, þagnarskyldu, góðum stjórnsýsluháttum og eigin verklagsreglum, auk þess sem umboðsmaður geri alvarlegar athugasemdir við efni gegnsæisstefnu FME.

Ingólfur kveðst hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni og miska vegna ólögmætra aðgerða Fjármálaeftirlitsins og það, ásamt því að hann vilji gjarnan endurheimta mannorð sitt, séu meginástæður þess að hann ætlar í skaðabótamál gegn FME.

„Ég starfaði í 20 ár í Landsbankanum og hætti þar störfum haustið 2009. Ég var svo ráðinn sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, að undangengnu hefðbundnu ráðningarferli, sem var í höndum Capacent og þar hóf ég störf í febrúar 2010.

Sú ráðning var að sjálfsögðu tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins þegar í stað. Reyndar hafði ég verið endurkjörinn í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins skömmu áður og sömuleiðis voru FME send gögn um þá kosningu. Það voru engar athugasemdir gerðar af hálfu FME við kjörið í stjórn lífeyrissjóðsins né í upphafi við ráðningu mína.

Svo var það í byrjun maí 2010, sem ég fæ bréf frá FME, með ákveðnum ávirðingum sem komu mér í opna skjöldu. Í fyrsta lagi snérust þær um það að ég hafði verið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins, sem ásamt 4 öðrum lífeyrissjóðum, var með rekstrarsamning við Landsbankann. Í ljós hafði komið að bankinn hafði sent inn fyrir þá skýrslur, sem ekki voru réttar, vegna einhverra mistaka í Excel-skjali.

Málið hafði farið til sérstaks saksóknara en rannsókn hans beindist aldrei að stjórnum þessara fimm lífeyrissjóða, heldur rekstraraðilanum sjálfum, þ.e. Landsbankanum. Þetta fann Fjármálaeftirlitið mér til foráttu, einum af öllum stjórnarmönnum þessara fimm sjóða – en aðrir stjórnarmenn hafa áfram sinnt ábyrgðarstörfum fyrir lífeyrissjóði.

Í öðru lagi var því haldið fram að breyting á fjárfestingastefnu einnar sjóðsdeildar Íslenska lífeyrissjóðsins, árið 2007, hafi ekki verið gerð samkvæmt lögum.

Sú fullyrðing kom mér í opna skjöldu, þar sem við höfðum breytt stefnunni, alveg með sama hætti og Frjálsi lífeyrissjóðurinn, og þessi breyting Íslenska lífeyrissjóðsins hafði verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins.

Í þriðja lagi vildi FME í bréfi sínu meina að ég hefði svarað spurningum á eyðublaði þeirra rangt. Þetta var fremur undarlegt og stóðst vitaskuld ekki. Síðan líður og bíður og ég óska eftir því að fá aðgang að upplýsingum um það á hverju þessar ávirðingar FME byggðust, því ég hafði skilið eftir öll gögn um sjóðinn, þegar ég hætti í bankanum. Ég bað um það í þrígang að fá aðgang að gögnum málsins frá FME, en því var ávallt synjað. Þetta var ólögmætt eins og síðar var staðfest.“

FME beitti stjórnarmenn þrýstingi

Ingólfur segist vita til þess að ákveðnir starfsmenn FME hafi hitt stjórnarmenn frá Lífeyrissjóði verkfræðinga sumarið 2010, þar sem þeir hafi verið beittir miklum þrýstingi af hálfu FME um að segja honum upp störfum.

„Þetta hafa þeir staðfest fyrir dómi. Hefðu þeir látið undan þrýstingi og sagt mér upp, þá hefði ég aldrei getað farið í mál við Fjármálaeftirlitið. Svona þvingunaraðgerðir stjórnvalda stangast gróflega á við réttindi manna og réttláta málsmeðferð. Ég er stjórnarmönnum sjóðsins mjög þakklátur og einnig öðrum sem hafa stutt mig í þessum slag og vil ég þá sérstaklega nefna Ólaf Pál Gunnarsson, lögmann í Landsbankanum.“

Fordæmalaus ákvörðun

Ingólfur segir að hann hafi undrast þau vinnubrögð FME, að reyna að vísa ábyrgðinni af röngum upplýsingum frá rekstraraðila lífeyrissjóðanna, þ.e. Landsbankanum, yfir á stjórnarmenn sjóðanna.

„Eftir þennan öldugang allan sumarið 2010 fæ ég niðurstöðu 1. september 2010 frá FME, þar sem mér er einhliða og skilyrðislaust gert að víkja úr starfi. Þetta er fordæmalaus ákvörðun og ég veit ekki til þess að stjórnvald hafi látið reka mann sem er ekki einu sinni undir grun um nokkurt refsivert athæfi.“

Í kjölfar þessa brottreksturs, segist Ingólfur hafa lagst í grúsk, gagnasöfnun og leit, til þess að átta sig á því hvernig hann með sem áhrifaríkustum hætti, gæti komið sínum andmælum að. „Ég fæ svo niðurstöðu frá umboðsmanni Alþingis, þar sem hann staðfestir að FME neitaði mér um gögn á röngum lagagrundvelli. Dómur í málinu staðfesti síðan að FME braut gegn andmælareglu stjórnsýslulaga með því að neita mér um gögnin. Þetta var auðvitað ótrúlegt mannréttindabrot, því ef maður hefur ekki aðgang að gögnum, hvernig á maður þá að geta varið sig?“ spyr Ingólfur.

Aðalkrafa FME frávísun

Ingólfur segir að eftir að hann stefndi FME í nóvember 2010, hafi stofnunin fengið langan frest til að skila greinargerð, og loksins þegar hún barst var aðalkrafa Fjármálaeftirlitsins að málinu yrði vísað frá, þar sem Ingólfur væri hættur störfum! (upphrópunarmerki blaðamanns)

„Ég átti ekki einu sinni að fá að leggja mál mitt fyrir dóm. Í Danmörku og Noregi, ef eitthvað í þessa veru kemur upp á, þá er það sérstök áfrýjunarnefnd sem tekur ákvörðunina, og réttarvenjan er sú, að fjármálaeftirlit viðkomandi lands hefur einn mánuð til þess að leggja málið fyrir dómara. Þessari frávísunarkröfu FME var hafnað.“

Ingólfur segir að það hafi verið mjög skaðlegt fyrir sig þegar FME, níu mánuðum efir að stofnunin bolaði honum úr starfi, hafi gefið út fréttatilkynningu um málið, þann 25. maí 2011, án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við hann.

„Þá kom strax frétt á Vísi, þar sem ég var brennimerktur. Það sem FME var að gera með þessari fréttatilkynningu, var að bendla mig við rannsóknir Sérstaks saksóknara, án nokkurs tilefnis. Það hafði líka verið reynt með frétt á vef stofnunarinnar þann 12. apríl 2011. Staðreynd málsins er á hinn bóginn sú, að ég var aldrei til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara og þeir hjá FME vissu það mætavel.

Í mínum huga var hér klárlega um hefndaraðgerðir að ræða af hálfu FME, vegna þess að ég hafði notað stjórnarskrárvarinn rétt minn til að leggja brottvikningu FME fyrir dómstóla. Jafnframt held ég að tilgangurinn hafi verið að búa til fjölmiðlaþrýsting eftir að frávísunarkröfu þeirra var hafnað.

Það sem mér þótti sérstaklega ámælisvert í fréttatilkynningu FME var að þeir voru með ávirðingar þar, sem þeir vissu að voru rangar. Þeir höfðu fengið upplýsingar úr fjármálaráðuneytinu og frá Sérstökum saksóknara, sem sýndu fram á það að túlkun þeirra varðandi breytingar á fjárfestingarstefnunni frá 2007 var röng.

Með birtingunni var jafnframt brotin á mér jafnræðisregla því á sama tíma var birt mun efnisminni frétt um fráhvarf annars framkvæmdastjóra, sem þó var undir sakamálarannsókn. Þetta staðfestir umboðsmaður Alþingis í áliti sínu..

Þarna sá ég svart á hvítu, að stjórnvaldið beitti fantabrögðum, gegn betri vitund og það var aðalástæða þess að ég kvartaði til umboðsmanns Alþingis.“

FME biðst ekki afsökunar

Ingólfur segir að FME hafi aldrei haft samband við hann og aldrei hafi nokkuð í þeirra rangfærslum verið leiðrétt.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í máli Ingólfs þann 5. janúar 2012 þar sem Ingólfur fékk viðurkenningu á því að FME hafði borið hann röngum sökum, jafnframt því sem í dómnum er staðfest að brotið hafi verið á Ingólfi hvað varðar andmælarétt. (Sjá tilvitnanir í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur hér í opnunni – innskot blaðamanns).

Ingólfur segir að það sé ekki síst athyglisvert að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að FME hafi ekki verið með réttar upplýsingar í höndum, þegar ákvörðun um einhliða brottvikningu hans var tekin. „Dómurinn segir að við ákvörðun FME hafi ekki verið horft til upplýsinga í leiðréttum skýrslum um fjárfestingar lífeyrissjóðsins. Hið rétta í þessu máli er að það kom fram villa í eftirlitskerfi Landsbankans, sem varðaði alla fimm lífeyrissjóðina sem bankinn var með í eignastýringu og enginn af stjórnarmönnum allra sjóðanna hafði hugmynd um, fyrr en eftir hrunið.“

Hæstiréttur synjaði um áfrýjun

Ingólfur segir að FME hafi viljað áfrýja dómi Héraðsdóms til Hæstaréttar, en Hæstiréttur synjaði beiðni um áfrýjun í júní síðastliðnum. Þar með hafi legið fyrir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var endanlegur.

„Svo kom álit umboðsmanns Alþingis, þann 18. febrúar sl., þar sem ítrekað er að FME hafi brotið á mér réttarreglur og augljóst að framganga þeirra var mjög ámælisverð. Ég fékk bréf frá FME 20. febrúar sl., sem var afar snubbótt, svo að ekki sé meira sagt. Þeir staðfesta brotið og tilkynna mér að þeir hafi fjarlægt fréttina um mig af heimasíðu FME, en þeir biðja mig ekki afsökunar á einu eða neinu. Það er aldrei gert. Fréttin var þá búin að vera á vef FME í tæp tvö ár en stofnunin sá ekki sóma sinn í að láta fjölmiðla vita að hún hefði verið fjarlægð eða af hvaða tilefni það var gert. Þetta bætir á engan hátt þann skaða sem fréttin olli mér.“

Óttuðust hermdaraðgerðir FME

Ingólfur kveðst hafa kallað til 15 vitni, þegar málflutningur var fyrir héraðsdómi. Tvö möguleg vitni, ungir menn sem starfi í fjármálageiranum, hafi beðist undan því að bera vitni, hreinlega vegna þess að þeir hafi óttast hermdaraðgerðir af hálfu FME gegn þeim fyrirtækjum sem þeir vinna hjá og þeim sjálfum, ef þeir bæru vitni.

- Hver er þá staðan hjá þér núna Ingólfur? Hvað ætlar þú að gera?

„Ég er í þeirri stöðu, að hafa verið brennimerktur og einhliða rekinn úr starfi af FME. Ég hef orðið fyrir miklum fjárhagslegum skaða og málið hefur tekið mikið á alla fjölskylduna. Þegar maður er kominn í slíka stöðu, og ítrekað verið ranglega bendlaður við lögbrot og sakamálarannsóknir, þá er það einfaldlega útilokað að útskýra það fyrir fólki, hvað gerst hefur. Ég hef fengið meira en nóg af valdníðslu af hálfu FME. Þegar ekki einu sinni er beðist afsökunar eða boðnar fram bætur þegar valdi er misbeitt, þá er ég tilneyddur til að höfða skaðabótamál. Þó að fjártjónið fáist kannski bætt, þá verður skaðinn á mannorðinu og þjáningar fjölskyldunnar seint bættar.

Ég tel mig mjög heppinn að hafa fengið Jónas Fr. Jónsson sem lögmann minn, Við undirbúum nú skaðabótamál gegn Fjármálaeftirlitinu. Það er kannski ekki skynsamlegt að segja mikið meira að svo stöddu um þessa ótrúlegu samskiptasögu við þetta mikilvæga embætti, en við spyrjum að leikslokum.“

HÉRAÐSDÓMUR REYKJAVÍKUR

Ákvörðun FME felld úr gildi

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var kveðinn upp dómur þann 5. janúar í fyrra, þar sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að víkja Ingólfi Guðmundssyni úr starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga var felld úr gildi og FME dæmt til þess að greiða Ingólfi 1,3 milljónir króna í málskostnað. Það var Ásmundur Helgason héraðsdómari sem kvað upp dóminn.

Dómurinn er viðamikill í sniðum, 54 síður, og ekki tök á að gera honum efnislega skil í stuttri blaðagrein. Í inngangi segir m.a.:

„Mál þetta, sem var dómtekið 11. nóvember s1., er höfðað 26. nóvember 2010 af Ingólfi Guðmundssyni....gegn Fjármálaeftirlitinu....

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um hæfi stefnanda, sem tilkynnt var honum 3. september 2010, með svohljóðandi ákvörðunarorðum: „Starfsferill Ingólfs Guðmundssonar, sem stjórnarformanns Íslenska lífeyrissjóðsins á árunum 2007 og 2008, er með þeim hætti að ekki er tryggt að hann geti gegnt stöðu sinni sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Samkvæmt því uppfyllir Ingólfur Guðmundsson ekki hæfisskilyrði... um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. ...fer Fjármálaeftirlitið fram á að stjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga sjái til þess að Ingólfur Guðmundsson gegni ekki stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins. Verði ekki orðið við þeirri kröfu innan tveggja vikna..., mun Fjármálaeftirlitið víkja honum einhliða frá störfum.“ Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar....

Með úrskurði, sem kveðinn var upp 16. maí sl., var frávísunarkröfu stefnda hafnað auk þess sem tekið var fram að ákvörðun um málskostnað biði lokaniðurstöðu málsins.“

Dómsorð fimm línur

Eftir að málið hefur verið reifað fram og til baka á 54 blaðsíðum koma dómsorðin og þau eru aðeins fimm línur: „Felld er úr gildi ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 31. ágúst 2010, sem tilkynnt var stefnanda, Ingólfi Guðmundssyni, 3. september 2010 og laut að því að stefnandi uppfyllti ekki hæfisskilyrði 6. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skuldatryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Stefndi greiði stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað.

Ásmundur Helgason.“

UMBOÐSMAÐUR ALÞINGIS

Ekki vönduð stjórnsýsla

Umboðsmaður Alþingis segir m.a. í áliti sínu að orðalag fréttar Fjármálaeftirlitsins sem birtist á heimsíðu FME þann 12. apríl 2011 sem svar við fréttaflutningi Fréttablaðsins um brottvikningu Ingólfshafi verið með þeim hætti að það tengdibeiðni Ingólfs um aðgang að gögnum við „rannsókn mála“

hjá sérstökum saksóknara. Slíkar tengingar hafi hvorki verið málefnalegar né nauðsynlegar eða gera grein fyrir forsendum synjunar Fjármálaeftirlitsins á þeirri beiðni Ingólfs sem fjallað hafði verið um í áliti umboðsmanns Alþingis. „Framsetningin var ónákvæm og gaf hvorki nægjanlega skýra né glögga mynd af því máli sem um var fjallað. Auk þess var hún til þess fallin að vekja ákveðnar hugmyndir um tengsl Ingólfs við rannsókn sakamála án þess að varpað væri réttu ljósi á raunverulega stöðu hans vegna þeirra. Framsetning fréttarinnar var því ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis,“ sgir orðrétt í álitinu.

Afdrifarík áhrif

Hér fara á eftir nokkrar tilvitnanir í mismunandi kafla í áliti umboðsmanns Alþingis í máli Ingólfs Guðmundssonar frá 18. febrúar sl.:

„Um er ræða einstakling sem hafði um árabil starfað á fjármálamarkaði og m.a. sinnt stjórnunarstörfum þar. Afstaða Fjármálaeftirlitsins í þessu máli hans var því til þess fallin að hafa veruleg áhrif á atvinnuhagi hans og aflahæfi. Ingólfur hafði nýtt sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að bera ákvörðun Fjármálaeftirlitsins undir dómstóla og krefjast ógildingar hennar í opinberum réttarhöldum. Tilkynning Fjármálaeftirlitsins um efni ákvörðunar þess í máli Ingólfs var fyrst birt eftir að um níu mánuðir voru liðnir frá því að hún var tekin og birt honum. Áðurnefnt dómsmál hafði þá verið fyrir dómstólum í um sex mánuði. Í ljósi þessara atvika í máli Ingólfs þurfti sérstaklega, áður en tekin var ákvörðun um birtingu á grundvelli 9. gr. a laga nr. 87/1998, að leggja mat á það hvort birting tilkynningar svo löngu eftir að ákvörðun um hæfi Ingólfs var tekin væri þess eðlis að hún gæti valdið hlutaðeigandi aðila tjóni sem ekki væri í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir, eins og það er orðað í lok lagagreinarinnar. Ég minni á að Fjármálaeftirlitið hefur í skýringum sínum fyrst og fremst vísað til hagsmuna fjármálamarkaðarins af því að fá upplýsingar um efni ákvörðunarinnar og þá m.a. vegna þess dómsmáls sem Ingólfur hafði höfðað.

Með vísan til framangreinds, og einkum með tilliti til þess tíma sem liðið hafði frá því að ákvörðun um hæfi Ingólfs var tekin og þess hversu afdrifarík áhrif hún og opinber umfjöllun um hana gat haft á atvinnuhagi Ingólfs, er það niðurstaða mín að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að birta umrædda tilkynningu um mál hans 25. maí 2011 hafi ekki samrýmst áðurgreindum lokaorðum 1. mgr. 9. gr. a laga nr. 87/1998.“

Ekki í samræmi við jafnræðisreglu

„Ég tel rétt að árétta mikilvægi þess að gætt sé samræmis við úrlausn mála sem þessara þar sem slík opinber birting getur varðað mikilsverða hagsmuni hlutaðeigandi aðila. Í lögum nr. 87/1998 er auk þess sérstaklega mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli birta þá stefnu sem það fylgir við ákvörðun um að birta slíkar niðurstöður. Sá áskilnaður er settur til að reyna að tryggja að öll eðlislík mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti og að starfsemi eftirlitsins sé samræmd, eins og nánar er rakið í athugasemdum að baki 9. gr. a laga nr. 87/1998. Í samræmi við það sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að gera þann mun sem áður er lýst á efni þeirra tilkynninga sem það birti 25. apríl 2011 um niðurstöðu sína um hæfi tveggja stjórnenda hafi ekki verið í samræmi þær kröfur sem leiða af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Brot á þagnarskyldu

„Ég hef hér að framan jafnframt gert grein fyrir því að í ljósi þessa verði að túlka heimildina í 9. gr. a í lögum nr. 87/1998 með þeim hætti að tekið sé eðlilegt tillit til þeirra þagnarskyldureglna sem gilda samkvæmt öðrum ákvæðum laganna og öðrum reglum bæði skráðum og óskráðum. Ég tel að svo afdráttarlaus regla um birtingu á nafni hlutaðeigandi aðila, eins og fram kemur í 2. og 3. mgr. 3. gr. gagnsæisreglnanna, fái ekki samrýmst þeim reglum sem gilda um meðferð á þagnarskyldum upplýsingum hjá stjórnvaldi eins og Fjármálaeftirlitinu. Núverandi orðalag 9. gr. a í lögum nr. 87/1998 er ekki svo afdráttarlaust að það geti vikið umræddum þagnarskyldureglum til hliðar. Ég minni þar á þær grundvallarreglur sem fram koma í 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, og nauðsyn sérstakrar lagaheimildar ef takmarka á þau réttindi. Þá þurfa stjórnvöld einnig að gæta að reglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar í störfum sínum. Tilmæli mín til stjórnar Fjármálaeftirlitsins eru því að 3. gr. gagnsæisstefnu stofnunarinnar verði tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst í áliti þessu og að gættum þeim sérstöku og almennu reglum sem gilda um meðferð þagnarskyldra upplýsinga hjá stjórnvöldum.“

„Afstaða Fjármálaeftirlitsins í þessu máli hans var því til þess fallin að hafa veruleg áhrif á atvinnuhagi hans og aflahæfi.“

„Með vísan til framangreinds, og einkum með tilliti til þess tíma sem liðið hafði frá því að ákvörðun um hæfi Ingólfs var tekin og þess hversu afdrifarík áhrif hún og opinber umfjöllun um hana gat haft á atvinnuhagi Ingólfs“.

HEIMASÍÐA FME

Fjarlægðu tilkynninguna

Bréfið sem Ingólfur fékk frá Fjármálaeftirlitinu þann 20. febrúar sl. var svohljóðandi:

„Efni: Tilkynning fjarlægð af vef Fjármálaeftirlitsins.

Í tilefni af áliti Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6518/2011 upplýsir Fjármálaeftirlitið að eftirfarandi tilkynning hefur verið fjarlægð af vef Fjármálaeftirlitisins, www.fme.is.

Ákvörðun um hæfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga til að gegna starfinu, dags. 25. maí 2011.

Virðingarfyllst,

Fjármálaeftirlitið“.