Evrópa í Mýrdalnum Í Málinu fmd. 14. mars var sneitt að þeim sem tala um Ísland og Evrópu eins og annað sé í Súdan en hitt í Grímsnesinu. Þetta hefur Björn S. Stefánsson skilið svo, e.t.v.

Evrópa í Mýrdalnum

Í Málinu fmd. 14. mars var sneitt að þeim sem tala um Ísland og Evrópu eins og annað sé í Súdan en hitt í Grímsnesinu. Þetta hefur Björn S. Stefánsson skilið svo, e.t.v. vegna þess hve knappt dæmið var, að ætlunin væri „að fá menn af orðalaginu hér á landi og í Evrópu“. Svo var ekki, enda er þetta orðið venja. Ætlunin var að benda á það hve útbreidd hún er orðin. Ekki bætir úr skák að „Evrópa“ þessi er á reiki í máli manna. Hún á ýmist við meginlandið, ESB, öll Evrópulönd nema Ísland, nokkur Evrópulönd önnur en Ísland, eða Norður- og Vestur-Evrópu að Norðurlöndum og afganginum afskornum. Þau skemmtilegu, staðbundnu dæmi sem Björn nefnir eru kunnugleg og því má bæta við að til skamms tíma töluðu farmenn um að „sigla á Evrópu“. En staða Íslands í álfunni varðar margt fleira en landlegu, og þótt sérstaðan sé okkur hjartans mál megum við ekki fara að halda að landið tilheyri ekki álfu. En Málið er að jafnaði 3 línur. Það setur ítarlegum úttektum nokkur takmörk.

Málsvari.