Strætó Rafvagn af gerðinni BYD frá Kína sem umboðsaðili hér á landi telur að geti verið 10-12 milljónum kr. ódýrari í rekstri en hver díselvagn í dag. BYD á Íslandi telur sparnaðinn fyrir Strætó geta verið yfir milljarði kr. á ári.
Strætó Rafvagn af gerðinni BYD frá Kína sem umboðsaðili hér á landi telur að geti verið 10-12 milljónum kr. ódýrari í rekstri en hver díselvagn í dag. BYD á Íslandi telur sparnaðinn fyrir Strætó geta verið yfir milljarði kr. á ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Ákveðið hefur verið að fara í nýtt útboð hjá Strætó bs. á nýjum strætisvögnum. Auglýsinga um útboðið er að vænta um komandi helgi. Fyrra útboð var stöðvað í nóvember sl.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Ákveðið hefur verið að fara í nýtt útboð hjá Strætó bs. á nýjum strætisvögnum. Auglýsinga um útboðið er að vænta um komandi helgi. Fyrra útboð var stöðvað í nóvember sl. eftir að kærunefnd útboðsmála bárust kærur frá tveimur bjóðendum; Kynnisferðum og VDL Bus & Coach BV. Innkaupaskrifstofa Reykjavíkur hafði þá tilkynnt þeim skömmu áður að umsóknir þeirra um þátttöku í útboðinu hefðu ekki fullnægt skilyrðum valnefndar. Einnig lagði Klettur – sala og þjónusta ehf. fram kæru, umboðsaðili Scania á Íslandi.

Komst kærunefndin að því að miðað við fyrirliggjandi gögn væru verulegar líkur á að brotið hefði verið gegn ákvæðum laga um opinber innkaup og innkaupaferlið því stöðvað þar til kærunefndin kæmist að endanlegri niðurstöðu. Nefndin skilaði síðan úrskurðum frá sér í byrjun mars, þar sem kærunum er hins vegar vísað frá á þeim grundvelli að útboðið félli ekki undir tiltekið ákvæði ESB-tilskipunar sem nær til stofnana á borð við Strætó.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að þrátt fyrir frávísun kærunefndarinnar hafi verið ákveðin réttaróvissa uppi og því verið ákveðið að draga fyrra útboð alfarið til baka og auglýsa nýtt útboðsferli.

Meðal þeirra aðila sem tóku þátt í fyrra útboði var BYD á Íslandi, umboðsaðili fyrir rafvagna frá kínverska fyrirtækinu BYD. Rúnar Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri BYD á Íslandi, óttast að með nýju útboði sé verið að þrengja möguleika fyrirtækisins á að taka þátt aftur.

Rafvagnar hagkvæmastir?

„Við munum taka þátt aftur ef við getum. Ég hef rætt við VSÓ, sem sér um útboðsgagnagerðina, og framkvæmdastjóra Strætó og skilst á þeim að mögulega verði þrengt að okkur, sem erum þeir einu sem bjóða upp á svona umhverfisvæna bíla. Við vonum að ekki sé verið að breyta þessu til að koma hinum bjóðendunum inn og okkur út,“ segir Rúnar en samkvæmt útreikningum hans gæti Strætó sparað sér yfir hálfan milljarð á ári við að taka rafvagna í notkun, miðað við rekstur á núverandi vögnum. Sparnaður geti farið yfir milljarð ef varahlutir, viðgerðir á drifbúnaði og aukinn akstur á hvern vagn er tekið með í reikninginn.

Rúnar segir góða reynslu vera af þessum vögnum BYD í Hollandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Einnig sé verið að prófa þá í Finnlandi í akstri í miklu frosti. Yfir 350 vagnar hafa verið í notkun síðustu tvö ár en BYD fékk fyrr á þessu ári formlegt leyfi frá ESB til að selja þessa vagna í Evrópu með uppsetningu verksmiðju í Búlgaríu.

Að sögn Rúnars fara vagnarnir frá BYD um 250 km í innanbæjarakstri á einni hleðslu og ná allt að 450 km í utanbæjarakstri. Miðast þær tölur við loftkælingu, sem ekki væri þörf á hér á landi heldur kæmu þeir með innbyggðri kyndingu frá olíumiðstöðvum. Vagnarnir þurfa ekki sérstaka hleðslustöð, aðeins þriggja fasa rafmagn og bendir Rúnar á að raftengingar séu nú þegar á plani fyrir vagna Strætó.

Rúnar segir rafvagnana ekki síður hagkvæma af umhverfisástæðum, útblástursmengun myndi minnka um 99,9%. Bendir hann á að Ísland hafi samkvæmt Kyoto-bókuninni skuldbundið sig til að draga úr losun koltvísýrings um 16% fyrir árið 2020. Ríki og borg hafi einnig markað sér stefnu um hvernig má draga úr mengun og rafvagnar falli vel inn í þá mynd. Vagnar Strætó í dag valdi allt að 6% af allri mengun sem kemur frá þungatækjum í landinu.

Reynir Jónsson segist ekki ætla að tjá sig um tiltekna kosti eins og rafvagna, eða hvort verið sé að þrengja útboðsferlið fyrir einstaka bjóðendur. Eftir auglýsingu á nýju útboði geti allir aðilar nálgast gögn og aðrar upplýsingar.

Ekki þrengt að neinum í nýju útboðsferli

Einar Örn Benediktsson, stjórnarformaður Strætó bs., segir öllum velkomið að taka þátt í nýju útboði á endurnýjun strætisvagna, bæði þeim sem tóku þátt síðast og öðrum áhugasömum aðilum sem sjá þarna tækifæri. Ekki verði þrengt að neinum bjóðendum í útboðsferlinu.

„Í ljósi niðurstöðu kærunefndar útboðsmála, þar sem kærurnar voru ekki teknar til greina, er ákveðin réttaróvissa ríkjandi. Þess vegna fól stjórnin framkvæmdastjóra að draga útboðið til baka, meta þörfina á nýjum vögnum til að mæta brýnustu nauðsyn og fara út í nýtt útboð. Við þurfum að endurnýja og stækka flotann og fá nýrri og hagkvæmari vagna,“ segir Einar Örn.

Gamall floti
» Mikil þörf er talin á endurnýjun strætisvagna hjá Strætó bs.
» Alls eru 86 vagnar í eigu Strætó, þar af eru um 65 í daglegum akstri. Verktakar aka öðrum eins fjölda.
» Að meðaltali eru vagnar Strætó átta til níu ára gamlir en varavagnar allt að 14 ára.
» Akstur allra vagna hér á landi er um níu milljónir km á ári. Búið er að aka elstu vögnum Strætó um 1,8 milljónir km.