Kveðja Nokkrir íbúar í Gazaborg mótmæltu í gær heimsókn Obama til Ísraels og Vesturbakkans með því að kveikja í mynd af forsetanum.
Kveðja Nokkrir íbúar í Gazaborg mótmæltu í gær heimsókn Obama til Ísraels og Vesturbakkans með því að kveikja í mynd af forsetanum. — AFP
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Fyrsta ferð Baracks Obama Bandaríkjaforseta til Ísraels og Palestínu eftir að hann tók fyrst við forsetaembættinu 2009 hófst í gær og var honum vel tekið í Tel Aviv.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Fyrsta ferð Baracks Obama Bandaríkjaforseta til Ísraels og Palestínu eftir að hann tók fyrst við forsetaembættinu 2009 hófst í gær og var honum vel tekið í Tel Aviv. „Þakka þér fyrir að verja rétt Ísraels til að verja með öllum ráðum rétt sinn til að vera til,“ sagði Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sem tók á móti Obama á Ben Gurion-flugvelli.

Forsetinn, sem hittir Mahmoud Abbas Palestínuforseta á Vesturbakkanum í dag, lét ekki sitt eftir liggja og sagði að bandalag Ísraela og Bandaríkjamanna væri „eilíft“. Þar með er ekki sagt að hlýtt sé á milli þessara tveggja ráðamanna, vitað er að samskiptin hafa frá upphafi valdaskeiðs Obama verið afar stirð. Hefur Bandaríkjaforseti sakað Netanyahu um að grafa undan friðarumleitunum við Palestínumenn með því m.a. að leyfa auknar húsbyggingar gyðinga á hernumdum svæðum Palestínumanna. Einnig eru þeir ósammála um viðbrögð vegna kjarnorkuáætlunar Írana. Netanyahu segir hættuna á að þeim takist að smíða kjarnorkuvopn vera yfirvofandi en Obama álítur að enn sé tími til stefnu. Þvinga megi valdhafana í Teheran til að breyta um stefnu með því að þrengja smám saman að þeim í alþjóðaviðskiptum.

Einnig er talið líklegt að sameiginlegar tölvuárásir Bandaríkjamanna og Ísraela hafi valdið miklu tjóni á tækjabúnaði í kjarnorkurannsóknastöðvum Írana.