Einlægur John Grant á útgáfutónleikum í Hörpu laugardaginn 16. mars.
Einlægur John Grant á útgáfutónleikum í Hörpu laugardaginn 16. mars. — Ljósmynd/Mummi Lú
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Önnur sólóplata bandaríska tónlistarmannsins John Grant; hann semur öll lög og texta. Biggi Veira stjórnaði upptökum. Sena gefur út. 2013.

Það er alltaf áhugavert bæði og virðingarvert þegar tónlistarfólk leitar fanga á nýjum gresjum í stað þess að róa á vísan. Það er nákvæmlega það sem John Grant gerir á Pale Green Ghosts . Í stað þess að snara fram hljóðrænu framhaldi af Queen Of Denmark , sem var hikstalaust með helstu skífum ársins 2010, vendir hann kvæði sínu í kross og ber á borð plötu fulla af refjalausri raftónlist. Einhverjir sem mærðu hann af öllum mætti fyrir fyrri plötuna munu eflaust fitja upp á nefið, en Grant er greinilega ekki í neinu stuði til að endurtaka sig. Til þess liggur honum of mikið á hjarta – til þess er sköpunarkrafturinn of knýjandi.

Strax í upphafi plötunnar er auðheyrt hver leiðin liggur er dökkir raftónar titillagsins skella taktfast á hlustum áheyrenda. Meira af svo góðu fæst í laginu „Black Belt“, flottu lagi með dynjandi house-takti. Í framhaldinu koma kassagítarlög í bland en mestanpartinn er platan hörkuflott rafmúsík, fantavel samin og ekki síður útsett.

Í stuttu máli sagt er hljóðheimurinn hér svo frábrugðinn því sem við mætti búast í framhaldi af Queen Of Denmark að ekki er annað hægt en að dást að hugrekki Grants. Þá bera textar plötunnar hugrekki hans ekki síður vitni. Grant horfist í augu við tilfinningar sínar, gerir þær upp með oddi og egg og hopar hvergi af hólmi. Einlægni hans er ótrúleg og það þarf býsna kalt hjarta til að finna ekki til með þeim sem hér syngur. Segja má að þar sé loks kominn sameiginlegur flötur við fyrri skífuna. Öllum sem hlýtt hafa á Grant hingað til ætti að vera í fersku minni textar Grants þar sem sársauki og tilfinningahiti búa í hverju orði. Grant er einkar flinkur textasmiður og hvaða ljóðskáld sem er væri fullsæmt af því að gefa út bók með textum hans. Þá er himnesk rödd hans söm við sig – það er leitun að eftirminnilegri karlmannsrödd úr dægurtónlist samtímans. Einu gildir hvort hann syngur á lágstemmdum nótum ellegar hækkar röddina áreynslulaust upp, maður hrífst undantekningarlaust með og trúir þar að auki hverju orði.

Grant hefur látið hafa eftir sér að sig hafi lengi langað að semja og flytja raftónlist, og það var mikið gæfuspor að fá Birgi Þórarinsson – betur þekktur sem Biggi Veira í Gus Gus – til að halda um stjórntaumana við upptökustjórn og hljóðblöndun. Hver annar hefði getað látið galdurinn ganga jafnvel upp og raun ber vitni? Meira að segja í laginu „Sensitive New Age Guy“, sem minnir á tölvupopp úr smiðju Vince Clarke, gengur það fullkomlega upp. Hver hefði trúað því fyrirfram?

Allt í allt er Pale Green Ghosts frábær plata. Þá er vert að hrósa fyrir sérlega vel heppnað albúmið en útlit og vinnsla þar er fyrsta flokks. Þá er skemmtilegt hvernig kápumyndin gefur fyrirheit um innihaldið. Portrett af listamanninum sitjandi inni á Kaffi Mokka, lágstemmdir brúntónar ráðandi og mótífið þannig að helst minnir á endurreisnarmálverk; en skærgræna hálsbindið gefur til kynna að hér verði ekki málað í eintómum jarðlitum þegar hlustunin hefst. Það gengur eftir og það verður sannarlega gaman að sjá hverju John Grant spreytir sig á næst eftir tvær svo vandaðar plötur.

Jón Agnar Ólason