Möguleikar „Allar hugmyndir um útrás virðast stranda á því að eftirspurnin innanlands er meiri en hægt er að anna og gott fólk liggur ekki á lausu til að stækka starfsmannahópinn,“ segir Sævar Örn Sævarsson.
Möguleikar „Allar hugmyndir um útrás virðast stranda á því að eftirspurnin innanlands er meiri en hægt er að anna og gott fólk liggur ekki á lausu til að stækka starfsmannahópinn,“ segir Sævar Örn Sævarsson. — Morgunblaðið/Rósa Braga
• Með hverju árinu verður umfangsmeira verkefni að gera framúrskarandi vef • Góð verkefnastaða hjá vefstofum og skortur hjá geiranum á fólki með rétta menntun og reynslu • Vefstofan Sapalón opnar vinnustöð í Berlín sem gæti orðið stökkpallur út í fleiri verkefni erlendis

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Reksturinn er í örum vexti hjá vefstofunni Skapalóni. Í upphafi árs 2012 voru starfsmen 14 talsins en eru í dag orðnir 24 og virðist lítið lát ætla að verða á stækkun fyrirtækisins.

Sævar Örn Sævarsson, framkvæmdastjóri Skapalóns, segir stækkunina einkum drifna áfram af verkefnum innanlands og svo að ný tækni er að skapa þörf á markaðinum fyrir nýjar lausnir, t.d. fyrir snjallsíma. „Íslensk fyrirtæki eru farin að leggja mjög ríka áherslu á góðan sýnileika á vefnum og reyna að halda í við þróunina sem er að eiga sér stað í notkun farsíma og spjaldtölva. Fram til þessa hefur það verið talin góð þumalputtaregla að endurnýja vefsíður fyrirtækja á 3-4 ára fresti en í íslensku atvinnulífi er stefnan í dag sú að líta á vefinn sem eitthvað sem er í stöðugri þróun. Mikið af vinnu okkar í dag felst í því að halda við, bæta við virkni og nýjum liðum á vefsíður okkar föstu viðskiptavina.“

Verkefnin eru ekki öll fyrir innlenda kaupendur. Meðal stærstu viðskiptavina Skapalóns er alþjóðlegt stórfyrirtæki og hefur vefstofan tekið að sér verkefni fyrir aðila bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Sævar segir þó að ekki hafi gefist tækifæri til að nýta veika krónu til að sækja af hörku á erlenda markaði. Veik króna þýðir vissulega að íslensk vefsíðugerð verður mun samkeppnishæfari á alþjóðamarkaði en eftirspurnin innanlands hafi verið svo mikil að ekki hafi gefist ráðrúm til að huga að útrás. „Við vorum nýlega að opna litla starfsstöð í Berlín og kann vel að vera að sú starfsemi verði víkkuð út þegar fram í sækir. Stækkunin til Berlínar var þó fyrst og fremst komin til vegna þess að skortur er á reyndum og vel menntuðum vefforriturum og gripum við tækifærið þegar við vissum af flinkum Íslendingi í Berlínarborg sem hafði áhuga á að starfa með okkur.“

Enginn tími til að sigra heiminn

Íslensk vefsíðugerð gæti hæglega átt erindi við erlenda markaði og segir Sævar að vinnubrögð íslenskra vefstofa gefi erlendu keppinautunum ekkert eftir. „En allar hugmyndir um útrás virðast stranda á því að eftirspurnin innanlands er meiri en hægt er að anna og gott fólk liggur ekki á lausu til að stækka starfsmannahópinn. Sagan er sú sama hjá flestum íslensku vefstofunum að þar hafa allir yfirdrifið nóg að gera og enginn tími aflögu til að sigra heiminn.“

Íslenski vefstofuheimurinn er stærri en margan grunar. Sævar Örn slumpar á að í þessum geira séu um 2-4 fyrirtæki sem kalla mætti stór, frá 6-10 sem kalla mætti meðalstór og svo er hópur einyrkja og lítilla fyrirtækja sem fást við vefsíðugerð. „Undir þennan hatt falla viðmótshönnuðir, framendaforritarar, sérforritarar, ásamt ráðgjöfum og sérfræðingum í efnisvinnslu. Þegar allt er talið skiptir fólkið sem fæst við vefsíðugerð hér á landi einhverjum hundruðum.“

Fyrir 10 árum þóttu vefsíður dýrar og ekki á færi allra fyrirtækja að láta hanna fyrir sig síðu. Þróunin hefur verið ör og er nú svo komið að margir geta klambrað saman brúklegum vef upp á eigin spýtur en fyrsta flokks vefir hafa ekki endilega orðið ódýrari. „Raunin er að það er orðið mun umfangsmeira verkefni í dag en fyrir t.d. fimm árum að búa til framúrskarandi vef. Til verksins þarf mun fleiri tæki og víðtækari þekkingu og ef vefurinn á virkilega að vera af bestu sort þarf að fara dýpra ofan í alla liði en áður,“ útskýrir Sævar. „Við sjáum t.d. miklar breytingar bara í einföldum þáttum eins og textagerð og efnisfrágangi því samhliða því að viðmót vefsíðna tekur stöðugum framförum er áherslan að aukast á mjög vandaða textasmíð og orðið æ algengara að vefsíðutextar eru sérskrifaðir fyrir þennan miðil með eiginleika og notendur netsins í huga.“

ÁHUGINN Á FORRITUN OG VEFSÍÐUGERÐ FER VAXANDI

Ekki bara fyrir algjöra nörda

Sævar segir jákvæð teikn á lofti um að mannekluvandi vef- og hugbúnaðargeirans fari að lagast. Hann segir íslensku háskólana hafa verið að vinna gott starf við að byggja upp og efla nám í tölvunarfræðum og unga námsfólkið sé orðið áhugasamara um forritun og vefsíðugerð. „Ásóknin í námið er góð og vitundarvakning sem átt hefur sér stað um hvað menntun af þessu tagi býður upp á skemmtilegan starfsvettvang og góðar tekjur.“

Að vera góður í vefsíðugerð kallar ekki endileg á að vera algjör erkitýpa af tölvunörd. „Ýmis tæki standa okkur til boða sem gera vinnuna einfaldari og auðveldari og þarf enginn að hræðast það ferli að læra á þessi tól og aðferðir og byggja svo upp góða reynslu þar ofan á. Fjölbreyttir verkþættir í vefsíðugerð kalla á ólíka menntun og hæfileika og kallar starfið t.d. oft á að hafa mjög gott auga fyrir uppsetningu efnis og litanotkun. Forritun vefsíðuviðmóta krefst í raun aðeins einfaldrar stærðfræðiþekkingar og það er ekki fyrr en komið er í dýpstu grunneiningar að kalla þarf til mestu tölvunördana – þá sem dreymir kóða á nóttunni.“