Í návígi Það er ekki daglegt brauð að fólk sjái stærsta dýr jarðarinnar. Myndin er tekin úr hvalaskoðunarbátnum Ömmu Siggu á Skjálfanda.
Í návígi Það er ekki daglegt brauð að fólk sjái stærsta dýr jarðarinnar. Myndin er tekin úr hvalaskoðunarbátnum Ömmu Siggu á Skjálfanda. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Búsvæði hvala við Ísland hafa breyst á síðustu árum og nokkrar tegundir hafa flutt sig norður á bóginn.

Fréttaskýring

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Búsvæði hvala við Ísland hafa breyst á síðustu árum og nokkrar tegundir hafa flutt sig norður á bóginn. Stærsta dýr jarðarinnar er í þessum flokki, en steypireyður var algeng vestur af Snæfellsnesi fyrir aldamótin síðustu, en hefur síðustu ár gert sig heimakomna í Skjálfanda. Talningar Hafrannsóknastofnunar og skráningar um borð í hvalaskoðunarskipum benda til að útbreiðsla steypireyðar hafi hliðrast til norðurs frá aldamótum.

Að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings á Hafrannsóknastofnun,var steypireyður árviss gestur yfir hásumarið í Kolluál við Snæfellsnes fram undir síðustu aldamót. Hvalaskoðunarfyrirtæki voru byggð upp á Snæfellsnesi til að fara með fólk í ferðir til að berja þessi stórhveli augum.

„Á síðustu árum hefur steypireyður flutt sig norðar á bóginn og hún fór að skjóta upp kollinum í Skjálfanda fyrir um áratug samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar og fréttum frá hvalaskoðunarfyrirtækjum á Húsavík,“ segir Gísli. „Við sjáum á ljósmyndum að þetta eru sömu einstaklingarnir, að hluta til að minnsta kosti, og áður voru vestur af Snæfellsnesi. Ekki er flókið að þekkja einstaklingana á baksmynstri og litasamsetningu steypireyðar, en hvað varðar til dæmis hnúfubak er best að þekkja einstök dýr á sporðinum.“

Steypireyði fjölgar hægt

Talið er að stofnstærð steypireyðar sé nú 1000-2000 dýr á svæðinu frá austurströnd Grænlands, um lögsögu Íslands til Jan Mayen. Hæg fjölgun hefur verið í stofninum, en þó ekkert í líkingu við mikla fjölgun hnúfubaks á þessu svæði. Steypireyður er enn það sjaldgæf á þessu stóra hafsvæði að tiltölulega fá dýr skila sér inn í stóru hvalatalningarnar, sem gerðar eru á nokkurra ára fresti. Því er mikilvægt að fá upplýsingar frá ferðaþjónustufyrirtækjum og öðrum, að sögn Gísla.

Hann nefnir líka að útbreiðsla langreyðar hefur einnig breyst á síðustu árum. Í kringum síðustu aldamót hafi útbreiðslan mest verið bundin við landgrunnsbrúnirnar milli Íslands og Grænlands. Núna sé langreyði að finna í öllu Irmingerhafi milli Íslands og Grænlands og á svæðinu hafi orðið veruleg fjölgun. Síðustu ár hefur hlýnað í djúphafinu vestur af Íslandi, sem væntanlega hefur leitt til meiri átu þar.

Étur eingöngu ljósátu

Úr mögum þeirra langreyða sem veiðst hafa vestur af landinu og hvalasérfræðingar hafa rannsakað virðist fæðan vera yfir 90% áta, en það er þekkt frá öðrum svæðum að langreyður étur einnig loðnu og ýmsan annan fisk. Þessu er öfugt farið með steypireyði, sem virðist eingöngu éta ljósátu, sem gæti bent til þess að meira sé af ljósátu í Skjálfanda en áður. Gísli segir að meiri upplýsingar vanti um útbreiðslu og magn ljósátu, en það standi vonandi til bóta með auknum rannsóknum.

Ekki er ólíklegt að breytingar á búsvæðum hrefnu, steypireyðar, langreyðar og hnúfubaks endurspegli breytingar á fæðuframboði sem aftur gætu tengst hækkun á hitastigi sjávar við landið. Gísli fjallaði um þessa búferlaflutninga á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar í gær.

Breytingarnar á fæðu hrefnu, sem er algengasti skíðishvalurinn við Ísland, virðast í stórum dráttum endurspegla samsvarandi breytingar í framboði helstu fæðutegunda. Þannig er nú mun minni loðna úti fyrir Norðurlandi að sumarlagi en áður var og hrun virðist hafa orðið í sandsílisstofninum í kringum 2005. Þá virðist aukin stofnstærð síldar og ýsu koma fram sem aukin hlutdeild þessara tegunda í fæðu hrefnunnar. Þessar breytingar á útbreiðslu og fæðusamsetningu hrefnu gætu endurspeglað viðbrögð tegundarinnar við breyttu umhverfi sjávar sem hugsanlega er afleiðing hnattrænnar hlýnunar af manna völdum þótt ekki sé enn hægt að útiloka náttúrulegar sveiflur.

Hátt í 200 tonn að þyngd
» Fullvaxin getur steypireyður orðið yfir 33 metrar að lengd og 190 tonn að þyngd á Suðurhveli, en dýrin eru 10-20% minni á Norðurhveli.
» Meðgöngutími steypireyða er rúmlega ellefu mánuðir. Við fæðingu eru kálfarnir 7-8 metrar að lengd og um tvö tonn að þyngd.
» Talið er að dýrin geti orðið hátt í hundrað ára gömul og hefur tegundin verið alfriðuð frá árinu 1966.
» Steypireyður er sú hvalategund sem varð verst fyrir barðinu á ofveiði í kringum aldamótin 1900.