Aleqa Hammond
Aleqa Hammond
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Ný samsteypustjórn þriggja flokka undir forystu Siumut-leiðtogans Alequ Hammond tekur við á Grænlandi á morgun en Siumut vann stórsigur í kosningunum nýverið og fékk 14 þingsæti af 31 alls.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Ný samsteypustjórn þriggja flokka undir forystu Siumut-leiðtogans Alequ Hammond tekur við á Grænlandi á morgun en Siumut vann stórsigur í kosningunum nýverið og fékk 14 þingsæti af 31 alls. Auk Siumut eiga Partii Inuit, sem er nýr flokkur og hægriflokkurinn Atassut ráðherra í stjórninni sem er með alls 18 sæti á bak við sig.

Nýja stjórnin er álitin mun þjóðernissinnaðri en nokkur fyrri stjórn í landinu eftir að það hlaut sjálfstæði í eigin málum 1979, að sögn Jyllandsposten . Hammond vill t.d. ekki að erlend námufyrirtæki fái afslátt af sköttum fyrstu árin sem þau starfa í landinu.

Partii Inuit vill slíta þegar tengslin við Danmörku og langtímamarkmið hans og Siumut, sem er jafnaðarmannaflokkur, er að eingöngu verði töluð grænlenska í ræðustól þingsins, Inatsiartut. En Atassut er sá flokkur sem hefur verið hlynntastur Dönum og efast menn um að hann muni samþykkja svo harkalegar skorður. Drjúgur hluti þjóðarinnar er dönskumælandi og sumir stjórnmálamenn tala nær enga grænlensku.