Hymnalaya Þórdís Björt Sigþórsdóttir, Gísli Hrafn Magnússon, Kristofer Rodriguez Svönuson og Einar Kristinn Þorsteinsson.
Hymnalaya Þórdís Björt Sigþórsdóttir, Gísli Hrafn Magnússon, Kristofer Rodriguez Svönuson og Einar Kristinn Þorsteinsson.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta verða fyrstu opinberu tónleikarnir okkar og til þess gerðir að fylgja eftir frumburði okkar,“ segir Gísli Hrafn Magnússon, gítarleikari hljómsveitarinnar Hymnalaya sem heldur útgáfutónleika á kaffi Rósenberg annað kvöld, fimmtudag, kl. 21. Hljómsveitina skipa, auk Gísla Hrafns, þau Kristofer Rodriguez Svönuson á trommur og slagverk, Þórdís Björt Sigþórsdóttir á fiðlu og Einar Kristinn Þorsteinsson söngvari og gítarleikari.

„Við fjögur höfum þekkst í nokkurn tíma og spilað saman í hinum ýmsu hljómsveitum. Á síðasta ári stofnuðum við síðan Hymnalaya og ákváðum strax að vinna eigin lög og taka upp á plötu áður en við færum að spila opinberlega,“ segir Gísli Hrafn, en frumburður hljómsveitarinnar nefnist Hymns . Bendir hann á að nokkur fjöldi annarra hljóðfæraleikara spili með hljómsveitinni á plötunni og muni því koma fram á tónleikunum annað kvöld sem gestaleikarar. Þannig kemur brasssveit fram með hljómsveitinni sem og strengjasveit auk tveggja slagverksleikara.

„Platan inniheldur tólf frumsamin lög sem öll eru innblásin af sálmum, allt frá norrænum sálmum til þrælasálma þeldökkra. Öll lögin eru sungin á ensku,“ segir Gísli Hrafn og tekur fram að Einar semji flestalla texta plötunnar en tónlistina semji hljómsveitarmeðlimir í sameiningu. „Það má segja að við séum að vinna með ákveðna stemningu á plötunni, þar sem sálmahljómurinn blandast saman við ethnic, organic og indie stíl,“ segir Gísli Hrafn og tekur fram að tónlistin sé öll í rólegri kantinum.

Bullorð sem felur í sér orðaleik

„Grunnurinn að lögunum var tekinn upp í Sundlauginni, en við sáum síðan sjálf um að taka upp aðrar tökur með Hálfdáni Helga sem er fáranlega hæfileikaríkur. Alex Sommer hljóðblandaði plötuna og Birgir Jón Birgisson hljóðjafnaði hana,“ segir Gísli Hrafn. Að hans sögn kemur platan einvörðungu út í stafrænu formi, en hægt er að hala hana niður frítt á vefnum: hymnalayamusic.com auk þess sem hægt er að nálgast hana á: gogoyoko.com/store/album/Hymns1.

Ekki er hægt að sleppa Gísla Hrafni án þess að forvitnast um merkingu hljómsveitarnafnsins. „Hymnalaya er bullorð sem þýðir í raun ekki neitt, en í því felst hins vegar ákveðinn orðaleikur þar sem orðið „Hymn“ eða sálmur er í forgrunni auk þess sem orðið minnir á Himalaya,“ segir Gísli Hrafn.