Eftirsóttur Veiðimaður togast á við smálax sem hann setti í í Ytri-Rangá í fyrrasumar. Margir velta kvíðnir fyrir sér hvernig veiðin verði í sumar.
Eftirsóttur Veiðimaður togast á við smálax sem hann setti í í Ytri-Rangá í fyrrasumar. Margir velta kvíðnir fyrir sér hvernig veiðin verði í sumar. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Sérfræðingar Veiðimálastofnunar voru varkárir á ársfundi stofnunarinnar í gær og gáfu ekki út neina spá um laxveiðina í sumar eins og þeir eru vanir.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Sérfræðingar Veiðimálastofnunar voru varkárir á ársfundi stofnunarinnar í gær og gáfu ekki út neina spá um laxveiðina í sumar eins og þeir eru vanir. Og lái þeim hver sem vill; þetta eru óvissutímar eftir sannkallað hrun í fyrrasumar. Samkvæmt tölum Guðna Guðbergssonar fiskifræðings veiddust í fyrrasumar 15.764 laxar úr náttúrulegum laxastofnum og 8.194 laxar úr hafbeitaránum svokölluðu sem byggja á sleppingum gönguseiða. Þá veiddust 5.339 laxar í net. „Sumarið 2012 var minnsta veiði úr náttúrulegum laxastofnum sem við höfum séð,“ sagði Guðni. Þeir Sigurður Már Einarsson greindu síðan frá rannsóknum og hugmyndum um orsakir hrunsins og stöðu mála, annars vegar í ánum þar sem seiðastofnar hafa þótt góðir og hins vegar í hafinu. „Aðalskýringin er í hafinu,“ sagði Guðni.

Minnsti vöxtur Norðurárlaxa

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur sagði hafið vera í lykilhlutverki í lífsferli laxins, þar stækkuðu seiði og þyngdust, úr 20 til 30 grömmum í 2,5 til 3 kíló á einu ári, ef allt væri eðlilegt. Í hafinu dvelur lax í uppsjó sem er átta til tíu stiga heitur.

„Laxinn nemur mjög fljótt þær breytingar sem verða í umhverfinu,“ sagði Sigurður Már og greindi síðan frá rannsóknum á vexti laxaseiða í sjó. „Tengsl eru milli vaxtar í hafi og endurheimtna á laxinum. Eftir því sem vöxturinn batnar í hafi koma fleiri til baka í árnar.“

En hvað segja þessar mælingar um laxana sem gengu í árnar í fyrrasumar? Sigurður Már sýndi gögn um veidda laxa í Norðurá og Hofsá á nokkurra ára tímabili. „Ef við horfum á árið 2012 sjáum við minnsta vöxt sem nokkurn tímann hefur sést í Norðurá, og sama á við um Hofsá,“ sagði hann. Laxarnir sneru litlir og afar rýrir úr hafi.

„Við höfum dregið þá ályktun af þessum gögnum að átt hafi sér stað einhverjir miklir atburðir í sjó þegar þessi gönguseiði gengu til sjávar 2011. Þau hafa lent í fæðuskorti.“

Lægra seltumagn sjávar

Sigurður Már velti þá fyrir sér hvort eitthvað í umhverfinu gæti skýrt þetta og nefndi mikla hlýnun sem hefði orðið í sjónum á undanförnum árum. Síðan vekti það óneitanlega athygli að seltumagn sjávar hefði minnkað verulega fyrir Vesturlandi árið 2011.

„Hlýr sjór og hátt seltumagn er yfirleitt ávísun á góða framleiðni í sjó en margt virðist benda til þess að 2011 hafi ekki verið nógu góð blöndun í sjónum. Það gæti verið skýring á því af hverju við upplifðum svona hressilega niðursveiflu síðasta sumar, það hafi ekki verið nægileg framleiðni af fæðu.“

Sigurður Már bætti við að sjá mætti samsvörun milli seltu sjávar og vaxtar seiða, og síðan endurheimtna laxa úr sjó. Þá hefði makríll streymt hingað síðustu ár og útbreiðsla fisktegunda breyst talsvert. Allar þessar breytingar gerðu það erfitt að spá um þróun mála hjá einni tegund. En er þá ljóst af hverju laxastofninn hrundi í fyrra?

Fæðuskortur í sjónum

„Við sjáum tengsl milli vaxtar seiða í sjó og laxagangna og okkur finnst langlíklegast að það sé fæðuskortur í sjónum sem hafi valdið þessu ástandi. Við höfum aldrei séð svona ástand áður, og hvað laxinn var rýr. Sums staðar var hann ekki nema um tvö kíló að meðaltali.

Lágseltufrávik við Vesturland hefur sennilega haft neikvæð áhrif á blöndum næringarefna og grunnframleiðslu í sjónum.

Svo er það makríllinn, sem er x-faktor í þessu. Þetta mikla magn makríls getur hugsanlega haft neikvæð áhrif á magn annarra uppsjávarfiska í fæðusamkeppni.“

Að lokum velti Sigurður Már komandi veiðisumri aðeins fyrir sér.

„Ég ætla ekki að spá um veiðina en við teljum seiðaárganga hafa verið eðlilega 2012,“ sagði hann. „Sjávarumhverfið, hvað varðar salt og hitastig, var hagstæðara við Vesturland sumarið 2012 en árið áður, en það eru annars miklar breytingar í sjávarumhverfinu með hlýnun sjávar og þar höfum við ekki heildstæð gögn til að bera saman.

Síðan vil ég nefna að hugsanlega er mikil fæðusamkeppni í uppsjónum vegna tilkomu makríls, en það hefur lítið verið rannsakað.“

NORSKUR SÉRFRÆÐINGUR FJALLAÐI UM UPPSJÁVARFISKA

Telur íslenska laxastofna jafna sig þegar makríllinn hverfur

Sjávarlíffræðingur við norsku hafrannsóknastofnunina, Jens Christian Holst, var gestur ársfundar Veiðimálastofnunar í gær og flutti fróðlegt erindi um stöðu vistkerfis og stofna uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi. Beindi hann þar sjónum að síld, makríl og kolmunna. Sagði hann þessa uppsjávarstofna hafa verið of stóra síðustu ár, og sýndi í myndum niðurstöður rannsókna, hvernig magn átu hefur af þeim sökum minkað verulega á hefðbundinni fæðuslóð, ekki síst makríls og síldar.

„Við þurfum að skoða marga þætti ef við viljum átta okkur á því sem er að gerast hér í hafinu. Sumar upplýsingar liggja fyrir en leita þarf að öðrum. Ákveðin hringrás á sér stað í vistkerfum hafsins og sama má segja um laxastofnana,“ sagði Holst. Hann sagðist telja að niðursveifla myndi vera næstu ár í eins árs laxi hér og í nágrannalöndunum en stórlaxinn yrði þá meira áberandi.

„Þegar fækkar hins vegar í stofnum uppsjávarfiskanna munum við aftur sjá stærri smálaxagöngur.

Ástæðan fyrir því hversu mikið er af makríl í hafinu við Ísland í dag er einfaldlega sú að átumagnið á hefðbundnum slóðum hans er svo lítið. Makrílstofninn er afar stór í augnablikinu og hann þarf að minnka verulega, með einhverjum hætti, og þá mun hann líka hörfa aftur frá Íslandi. Það kæmi mér ekki á óvart að íslenski laxastofninn myndi ná sér aftur á strik þegar það gerist.“

Holst hvatti til frekari samvinnu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, hvað varðar rannsóknir á laxi, það myndi skila góðum og forvitnilegum niðurstöðum.

Laxarnir minni en áður
» Aðalskýringarinnar á hruni laxastofna er að leita í hafinu.
» Laxar sneru horaðir, stuttir og fáliðaðir úr hafi í fyrra.
» Beint samhengi er milli vaxtar í hafi og sterkari laxagangna í árnar.
» Athygli vekur að seltumagn sjávar féll sumarið 2011 og kann það að hafa haft áhrif á fæðuframboðið.
» Fiskifræðingar telja eðlilega seiðaárganga hafa gengið til sjávar í fyrra.