Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Eftir Ómar Jónsson: "Verðtryggingarhrammurinn hefur gert þúsundir Íslendinga gjaldþrota með margvíslegum afleiðingum ..."

Í því efnahagsumhverfi sem ríkir hér á landi getur svo farið að víðtækt hrun skelli á vegna stökkbreyttra gengislána.

Þegar verðtrygging, stökkbreytt lán og háir vextir fara ekki saman við almenna greiðslugetu fer svo fyrir rest að greiðsluþol einstaklinga og fyrirtækja brestur.

Við slíkar aðstæður verður verðfall á þessum lánunum og þar með á sparifé/eignum sem á bak við þau standa.

Til að fyrirbyggja slíkt þarf að niðurfæra lánin/leiðrétta í raunhæf mörk og setja síðan þak á verðtrygginguna og hóflega vexti.

Skoða þarf sérstaklega vissa lánahópa í þessu sambandi, t.d. þá sem keyptu íbúðarhúsnæði 2004-2008.

Einnig þarf að huga að stökkbreyttum námslánum sem hækkað hafa gríðarlega og þau því orðin þungur baggi hjá mörgum ungum fjölskyldum. Afnema síðan verðtrygginguna í núverandi mynd með skynsamlegum aðgerðum og ná tökum á verðbólgunni.

Það gengur ekki að horfa einungis til stórfyrirtækja og þeirra sem fengu ofurfurlán án trygginga, þar sem hundruð milljarða eða meira hafa verið afskrifuð. Verði þessi niðurfærsla/leiðrétting ekki framkvæmd innan tíðar hjá hinum almenna lántakanda, munu þúsundir einstaklinga og fjöldi meðalstórra fyrirtækja fara í greiðsluþrot. Hverju tapa fjármálastofnanir, lífeyrissjóðirnir og sparifjáreigendur þá?

Séreignasparnaður einstaklinga/skuldara sem haldið hefur uppi afborgunum þessara lána undanfarin ár er uppurinn og einnig hjá heilu fjölskyldunum þeim tengdum.

Sparnaður sem fólk ætlaði að nota síðar, t.d. við starfslok, en sparnaðurinn farið í botnlausa hít verðtryggingar.

Það hlýtur að vera fjármálastofnunum og sparifjáreigendum í hag að fá útlán í almenna greiðslugetu/skil og að ásættanleg trygging/verðmæti sé almennt á bak við skuldir. Ef lánastofnanir og stjórnvöld ætla að horfa fram hjá þessum vanda getur illa farið og það kallað á stóran skell víða í þjóðfélaginu.

Þessi nauðsynlega leiðrétting/jöfnuður kallar einungis á heldur minni hagnað hjá þeim sem hagnast hafa hvað mest á stökkbreyttum lánum og mjög háum vöxtum þar að auki.

Eitt er umhugsunarvert, fáir virðast vita með vissu með hvaða hætti verðtryggingin virkar. Þess utan virðist vera mismunandi uppfærsla og afborganir af svipuðum verðtryggðum lánum á milli lánastofnana.

Ef spurt er um ástæður er fátt um svör. Mér er ekki kunnugt um að í öðru lýðræðisríki sé til staðar opin verðtrygging og að auki nánast okurvextir. Ekkert hagkerfi getur staðið undir slíku fyrirkomulagi til lengdar, einstaklingar né fyrirtæki.

Ljóst er að verðtryggingin er verðbólguhvetjandi og það sama á við um háa stýrivexti þótt sumir vilji ekki taka undir að svo sé.

Endurskoða þarf efnahagsumhverfið og byggja hér upp hagvöxt af meiri ábyrgð og stöðugleika, ekki á ævintýramennsku, loftbóluhugmyndum og græðgi eins og ríkti hér fyrir hrun/oftar.

Við þekkjum afleiðingarnar.

Til staðar er mikill vandi vegna erlendra peningaviðskipta, jöklabréfa/lána sem taka þarf á af raunsæi og kjarki. Við verðum að treysta því að stjórnmálamenn og þeir sem koma að þessum verkþáttum standi undir mikilvægum ákvarðanatökum í því sambandi. Jafnframt verður ekki undan því komist að ganga rösklega til verka á ýmsum öðrum sviðum, endurskoða regluverk og afnema vankanta sem víða eru í skatta- og viðskiptaumhverfinu.

Kerfið má ekki vera svo hagsmunafjötrað að það sé ekki í stakk búið til að taka t.d. á kennitöluflakki sem sagt er að blómstri hér öllum löndum framar og kosti þjóðfélagið tugi milljarða á ári hverju þ.e. sem svarar öllum rekstri heilugæslunnar í landinu eða meira.

Með framangreindu átaki myndi skapast meiri tiltrú og kjarkur í þjóðfélaginu og hagkerfið færi að dafna á ný í stað kyrrstöðu hjá okkar annars kraftmiklu og skapandi þjóð sem gæti orðið ein sú efnaðasta í Evrópu innan tíðar ef rétt er að verki staðið.

Hér eru fjölmörg tækifæri til lands og sjávar og þau þarf að nýta af skynsemi og með fyrirhyggju til framtíðar.

Vonandi þurfa lántakendur ekki að fara í hópum með verðtryggð og stökkbreytt lán fyrir dómstóla til að fá leiðréttingu þar á samanber viss gengislán. Marga undrar reyndar slök eftirfylgni stjórnvalda varðandi leiðréttingu lánastofnana á dæmdum gengislánum.

Að mati sérfróðra manna eru mörg verðtryggð lán ólögleg þ.e. í því formi sem þau hafa verið útfærð/framsett a.m.k. eftir lagabreytingu 2001.

Verðtryggingarhrammurinn hefur gert þúsundir Íslendinga gjaldþrota/eignalausa með margvíslegum afleiðingum sem vert er að huga betur að. Á sama tíma hafa margir hagnast á þessum hremmningum fólks og fyrirtækja- og loftbólutölur hrannast upp á talnablöðum, tölur sem engin greiðslugeta, framleiðni né eignir standa á bak við í mörgum tilfellum.

Er eitthvert vit í slíkum talnaleik sem setur stóran hluta þjóðarinnar í þrot á á nokkurra ára fresti?

Það þarf kraft, þor og samstöðu í pólitíkina til að taka á framangreindum vanda og hann er ekki auðleystur, en nauðsynlegt allra vegna. Þeir frambjóðendur sem ekki eru tilbúnir til þess eiga lítið erindi við kjósendur sem eru í framangreindum vanda og fleiri.

Höfundur er fulltrúi og talsmaður sjálfstæða framfarahópsins fyrir betra þjóðfélag til borgar og sveita.