Hugarflug Eygló Harðardóttir á sýningu sinni í Listasafni ASÍ. „Þegar ég tala um upplifanir og minningar á það líka við rýmið sem ég er að vinna í,“ segir hún meðal annars um verk sín.
Hugarflug Eygló Harðardóttir á sýningu sinni í Listasafni ASÍ. „Þegar ég tala um upplifanir og minningar á það líka við rýmið sem ég er að vinna í,“ segir hún meðal annars um verk sín. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Tvær sýningar voru opnaðar í Listasafni ASÍ laugardaginn sl., annars vegar sýning Eyglóar Harðardóttur, Arkitektúr hugans - útleið og hins vegar sýning Unndórs Egils Jónssonar, Permanence is but a word of degree .

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tvær sýningar voru opnaðar í Listasafni ASÍ laugardaginn sl., annars vegar sýning Eyglóar Harðardóttur, Arkitektúr hugans - útleið og hins vegar sýning Unndórs Egils Jónssonar, Permanence is but a word of degree .

Eygló sýnir teikningar og málverk á pappír, skúlptúra unna út frá minningum og upplifunum, eins og hún lýsir því. „Til dæmis er ég með eitt stórt verk í Gryfjunni, verk sem ég er búin að vinna núna í þrjú ár. Þetta eru sjö hangandi málverk á grind og má eiginlega segja að ýmislegt seytli í gegnum þau. Þetta er ekki línuleg frásögn sem endar í einhverju einu, heldur byggist á skynjun. Maður tekur inn það sem maður upplifir eða er að vinna að á einhverjum öðrum sviðum og ég nota það sem efnivið. Handverkið skiptir miklu máli í þessu en frásögnin er samt algjörlega óhlutbundin þannig að þetta eru ekki fígúratívar myndir,“ segir Eygló um verk sín.

Ekki þerapía

„Í Arinstofunni er ég með málverk og teikningar líka sem eru beinlínis innblásin frá ferðalagi um Indland og það má kannski líta á þau meira eins og kortlagningu einhvers konar eða grunnmyndir af einhverjum byggingum eða leiðum,“ bætir Eygló við og segir liti skipta miklu máli í sýningunni. Hún hafi málað Gryfjuna sítrónugula, Arinstofuna að hluta svarta og litavalið tengist rýminu beinlínis.

„Þegar ég tala um upplifanir og minningar á það líka við rýmið sem ég er að vinna í. Til dæmis er Gryfjan suðurgluggi og kallar einhvern veginn á þennan sterka lit en Arinstofan kallar á eitthvað annað, eins og þennan matta, svarta lit,“ útskýrir Eygló.

„Þetta er ekki einhver þerapía eða eitthvað svoleiðis heldur á miklu fínlegra sviði. Þetta litla sem maður tekur oft ekki eftir, litlar hugsanir sem koma og maður lætur fara framhjá sér af því maður er að einbeita sér að einhverju ákveðnu og það kannski leyfir mér að ná fínlegum áhrifavöldum,“ segir hún um verkin. Hún sé einnig að leika sér með efni, ákveðin skemmtun sé fólgin í því að fara inn í þennan efnisheim. Efni og hugur mætist og vinnan ánægjuleg þó hún sé tímafrek.

Unndór sýnir vatnslitamyndir, myndbandsverk, veggmálverk og lítinn skúlptúr í Ásmundarsal, efra rými safnsins. Hann segist vinna út frá náttúrunni og sífelldum breytingum hennar og umhverfisins.

Taska fyrir plöntu

„Allt sem verður til hverfur einhvern tíma og deyr og breytist. Ég er t.d. með stórt veggmálverk af borgarísjaka sem ég mála beint á vegginn og hann lifir bara hérna, á þessari sýningu því eftir hana verður málað yfir hann,“ segir Unndór. Þetta verk undirstriki að ekkert sé varanlegt. „Samt er ég ekkert endilega að ýta undir neikvæða merkingu þess. Það þarf að mála yfir ísjakann og setja upp nýja sýningu hér í ASÍ.“

– Varð eitthvað þess valdandi að þú fórst út í þessar hugleiðingar?

„Ég hef undanfarið í myndlistinni verið að vinna mikið með náttúruvernd og náttúruna, verið að velta fyrir mér hvert náttúruverndin sé að stefna. Til dæmis er ég með annað verk hérna sem er plöntutaska, taska fyrir plöntu. Þá er ég búinn að búa til tösku utan um plöntu sem vex upp á Kili, hún passar akkúrat utan um hana, er sérsniðin og fylgir lagi plöntunnar. En plantan er veðurbarin, hefur farið í gegnum alls konar breytingar vegna veðurofsa sem hún lifir við og er svolítið kræklótt og afskræmd. Ég hef fylgt alveg eftir þessu formi og búið til svona tösku sem er krómspreiuð að utan en flauelsklædd að innan,“ segir Unndór. „Þessi taska verndar plöntuna en um leið og plantan hefur fengið verndina er hún föst, hefur ekki frelsi til þess að vaxa við þær aðstæður sem taskan býður upp á.“ Unndór segir þessa togstreitu þróunar eða breytinga og verndar gegnumgangandi þema í verkum sínum.

Hluti af Sequences

Þann 5. apríl nk. verður opið í safninu til kl. 19 og þann dag munu Eygló og Unndór bæta verkum við sýningar sínar, Eygló myndbandsverki og Unndór hljóðverki og verða þau hluti af Sequences sjónlistahátíðinni. Daginn eftir fremur Eygló gjörning í Höggmyndagarðinum að Nýlendugötu 17, varpar myndbandsverkinu á tjald en Ríkharður H. Friðriksson tónskáld flytur hljóðverk samið fyrir verkið. Sýning Eyglóar, Ljósdraugar , var opnuð í september í fyrra í garðinum og stendur enn yfir.

Frekari upplýsingar um Eygló og Unndór og listsköpun þeirra má finna á vefsíðunum eyglohardar.com og unndoregilsson.com.