Guðlaugur Hjörleifsson
Guðlaugur Hjörleifsson
Kjartan Kjartansson Jón Pétur Jónsson „Við erum ennþá að taka við pappírum og munum reyna að fá svör frá öllum. Það tekur smátíma. Einhverjir íbúar eða ættingjar þeirra hafa verið erlendis til dæmis.

Kjartan Kjartansson

Jón Pétur Jónsson

„Við erum ennþá að taka við pappírum og munum reyna að fá svör frá öllum. Það tekur smátíma. Einhverjir íbúar eða ættingjar þeirra hafa verið erlendis til dæmis. Ég vonast til að það náist að klára það á mánudag,“ segir Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Eirar.

Miðað var við að íbúar sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðum heimilisins gæfu svar í gær við tilboði stjórnar Eirar um að gefa út skuldabréf til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þeim.

Skuldabréfið er verðtryggt til 25 ára með 3,5% vöxtum. Samkvæmt núverandi samningum á Eir að endurgreiða búseturétt með einni greiðslu hálfu ári eftir að íbúð er skilað.

Tryggja betri endurheimtur

Allir íbúarnir verða að gefa tilboðinu grænt ljós til að það teljist samþykkt. Verði því hafnað blasa hins vegar nauðasamningar við. Samþykki 60% íbúa sem ráða yfir 60% heildarupphæðarinnar þarf til að nauðasamningar fari í gegn að sögn framkvæmdastjórans.

Að dómi Stefáns Árna Auðólfssonar, lögmanns íbúa Eirar, fylgir minnst áhætta nauðasamningum, fari svo að tilboðið um skuldabréfið verði ekki samþykkt. Þeir tryggi betri endurheimtur fyrir íbúana en gjaldþrot.

TELJA TILBOÐ EIRAR SKÁSTA KOSTINN Í STÖÐUNNI

Geti búið áfram áhyggjulaus

„Þetta er eina leiðin til að við fáum okkar eignir til baka. Þó að það taki einhvern tíma þá skila þær sér með vöxtum og verðtryggingu þannig að í stöðunni eins og hún er núna er það skásti kosturinn. Við erum náttúrlega komin í þessa stöðu fyrir hreinan aulaskap þeirra sem stjórnuðu hér,“ segir Guðlaugur Hjörleifsson, íbúi í öryggisíbúð Eirar í Eirhömrum. Hans tilfinning er að íbúarnir séu á því að tilboð Eirar sé vænlegasta lausnin. „Tilboðið felur það í sér að við sem erum með búseturétt getum búið hérna áfram áhyggjulaus á meðan við erum ennþá hérna megin grafar.“ Guðlaugur segist ekki vita til að fólk sé áhyggjufullt að því gefnu að tilboðið verði samþykkt. Ómögulegt sé að segja til um hvernig fari verði því hafnað.