Guðmundur Tómas Magnússon, „Tumi“, fæddist í Hrafnsstaðakoti í Svarfaðardal 13. febrúar 1935. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 12. mars 2013.

Foreldrar hans voru Magnús Jónsson bóndi í Hrafnsstaðakoti, f. 10. mars 1892, d. 9. desember 1978, og Laufey Þorleifsdóttir húsfreyja, f. 19. júní 1902, d. 29. janúar 1979. Bróðir Guðmundar Tómasar var Baldvin Magnússon, bóndi, f. 9. febrúar 1928, d. 1. ágúst 2000, og eftirlifandi systir er Jónína Magnúsdóttir, húsfreyja, f. 9. október 1929.

Guðmundur Tómas giftist hinn 22. apríl 1965, Ölfu Eyrúnu Ragnarsdóttur, f. 4. desember 1943. Foreldrar Ölfu voru Aðils Ragnar Erlendsson f. 25. nóvember 1906, d. 7. mars 1991, og Jónína Tómasína Elíasdóttir, f. 31. október 1915, d. 12. mars 2002. Börn þeirra eru 1) Jón Tómas, f. 3. júní 1965, rafmagnsverkfræðingur og doktor í kjarnorkuverkfræði, maki Linghao Yi verkfræðingur, 2) Magnús Ragnar, f. 3. júní 1967, lyfjafræðingur og MBA, maki Kristjana Kristinsdóttir lyfjafræðingur, börn þeirra eru Guðmundur Tómas og Jón Baldvin. Fyrri maki Magnúsar er Vera Guðmundsdóttir líffræðingur, börn þeirra eru Eva og Tinna. 3) Halldór Elías, f. 3. mars 1973, guðfræðingur og djákni, maki Jenný Brynjarsdóttir, doktor í tölfræði, börn þeirra eru Anna Laufey og Tómas Ingi og 4) Guðrún Laufey, sagnfræðingur, f. 26. nóvember 1975, maki Þórir Benediktsson, lyfjafræðingur, börn þeirra eru Benedikt og Bjartur.

Guðmundur Tómas var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1955, cand. med. frá Háskóla Íslands 1963 og hlaut sérfræðingsleyfi í barnageðlækningum 1977. Guðmundur Tómas var héraðslæknir á Kleppjárnsreykjum 1965-1966, bjó og starfaði á Akureyri á árunum 1966 til 1971 og flutti þá til Reykjavíkur. Hann starfaði lengst af sem sérfræðingur á Kópavogshæli en einnig starfaði hann um tíma sem skólalæknir, sem sérfræðingur við meðferðarheimili einhverfra barna og á barna- og unglingageðdeild á Dalbraut í Reykjavík.

Útför Guðmundar Tómasar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. mars 2013, kl. 15.

Þú stóðst upp umvafinn þínum nánustu þar sem barnabörnin fóru fremst í flokki, brostir til viðstaddra og hneigðir þig. Þetta var fyrir réttu ári þegar við fögnuðum saman 77. afmælisdegi þínum á veitingastað í bænum og viðstaddir klöppuðu. Börnin völdu óskalag og þú naust þín vel með þau nærri þér. Þannig minnist ég Guðmundar (Mumma) tengdaföður míns sem ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst. Það skein í gegn hversu mikla gleði barnabörnin færðu þér og þær eru ófáar stundirnar sem þú skemmtir þér með þeim eins og máttur stóð til. Þykist ég vita að Benni á eftir að sakna þess að spila við Mumma afa sem kippti sér ekki upp við það þó að sá stutti beygði eilítið reglurnar jafnóðum og leikurinn fór fram. Þín verður saknað í hittingum okkar á Strikinu en við vitum af þér þar sem þú fylgist sposkur á svip með kjánaskapnum í frændsystkinunum.

Í dag kveð ég góða sál. Hvíl í friði, elsku Guðmundur.

Þórir Benediktsson.