Í smíðum Samskonar skip og samið var um.
Í smíðum Samskonar skip og samið var um.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Samningurinn er sögulegur að því leyti að hann er upphafið að nýjum kafla í íslenskri iðnaðarsögu. Með þessu er í reynd verið að byrja þjónustuiðnaðinn við olíusvæðin norðan Íslands.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Samningurinn er sögulegur að því leyti að hann er upphafið að nýjum kafla í íslenskri iðnaðarsögu. Með þessu er í reynd verið að byrja þjónustuiðnaðinn við olíusvæðin norðan Íslands. Það kallar á mikla þjónustu, mikla útgerð – og miklu meiri en menn gera sér grein fyrir,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í símaviðtali í tilefni af undirritun samnings milli íslenska olíuþjónustufyrirtækisins Fáfnis Offshore við Havyard group um smíði fyrsta sérútbúna íslenska skipsins til að þjónusta olíuleit. Greint var frá samningnum á fundi sem Össur sótti í norska skipasmíðabænum Fosnavåg. Skipið kostar 7,3 milljarða og er sagt það dýrasta í Íslandssögunni. Ekki náðist í Steingrím Erlingsson, forstjóra Fáfnis. Stefnt er að afhendingu skipsins í júlí 2014. Við þetta tilefni flutti Össur ræðu um auðlindanýtingu og siglingar á norðurslóðum. „Ég undirstrikaði að í siglingunum fælust mikil tækifæri. Þau felast ekki síst í því að Kínverjar hafa sagt það opinberlega að þeir telji að strax innan sjö ára, eða 2020, verði miðleiðin yfir norðurpólinn opin fjóra mánuði á ári. Sú leið skiptir okkur mestu af þeim þremur leiðum sem rætt er um; norðvesturleiðina, norðausturleiðina og miðleiðina. Miðleiðin skiptir öllu máli fyrir okkur því að ef hún er farin er Ísland rökrétt endastöð.“

Flutningar fyrir hundruð milljarða dala

„Kínverjar segja að árið 2020 séu áform um að flytja 10% af viðskiptum þeirra við Evrópu um miðleiðina og það er ígildi 700 milljarða bandaríkjadala á ári. Fyrir viku var yfirmaður kínversku heimskautastofnunarinnar í Shanghai á fundi hjá mér í ráðuneytinu, Huigen Yang. Hann sagði mér þetta,“ segir Össur. Fyrsti olíuborpallurinn komi e.t.v. árið 2017.