Það virðist sem svo að Eimskipsmenn séu að blása nýju lífi í kauprétti til sinna manna og með möguleika á að þeir fái lán til kaupanna frá félaginu.

Það virðist sem svo að Eimskipsmenn séu að blása nýju lífi í kauprétti til sinna manna og með möguleika á að þeir fái lán til kaupanna frá félaginu. En rétt fyrir skráningu fyrirtækisins á markað fyrir ekki margt löngu urðu aðalstjórnendur fyrirtækisins að fórna kaupréttarsamningum sem blasti við að þeir myndu hagnast vel á vegna óánægjuradda í samfélaginu.

Í upphafi næsta mánaðar mun Eimskip halda aðalfund. Meðal tillagna fyrir fundinn er að gera skuli ráðningarsamning við forstjóra fyrirtækisins, en það er ekki óeðlilegt að semja skuli aftur við manninn eftir kaupréttarmissinn, og verður heimilt að semja um „afkomutengdar greiðslur og/eða hlutabréfatengd réttindi“. Útherji er hlynntur afkomutengdum greiðslum. Lagt er til að félagsstjórn verði heimilt að veita starfsmönnum lán til hlutabréfakaupa í tengslum við fjármögnun á kaupum þeirra á hlutum í félaginu.

Þrátt fyrir að Eimskip sé með fulla vasa fjár þykir Útherja að fjármunum hluthafa fyrirtækisins væri betur varið með öðrum hætti en að lána þá til starfsmanna eða eiga eigin bréf til að þjónusta kauprétti. Fyrirtækið á eigin bréf fyrir 1,7 milljarða króna.

Almennt eru kaupréttarsamningar ekki nógu góður mælikvarði á frammistöðu stjórnenda. Það er margt annað sem hefur áhrif á hlutabréfaverð en undirliggjandi rekstur. Vegna gjaldeyrishafta og allt að sársaukafullum skorti á fjárfestingarkostum rýkur allt upp í Kauphöllinni um þessar mundir. Því eru kaupréttir enn óskynsamlegri en ella og segja ekkert til um hæfni stjórnenda í viðskiptum. Betra væri að miða við bónusgreiðslur með fyrirfram skilgreindum markmiðum.