Sterkur Damier Erik Pitts lék vel með KFÍ í lokakafla Dominosdeildarinnar. Hér sækir hann að vörn Stjörnunnar.
Sterkur Damier Erik Pitts lék vel með KFÍ í lokakafla Dominosdeildarinnar. Hér sækir hann að vörn Stjörnunnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Körfubolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Sitt sýnist hverjum um þá breytingu sem samþykkt var á þingi Körfuknattleikssambands Íslands um síðustu helgi að frá og með næstu leiktíð verði fjórir leikmenn með íslenskan ríkisborgararétt að vera inni á leikvellinum í einu í hvoru liði í leikjum í 1. deild karla og úrvalsdeild kvenna og karla, Dominosdeildinni. Af þessu leiðir að aðeins einn útlendingur má vera á leikvellinum í hvoru liði hverju sinni. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur hvert lið mátt tefla fram tveimur leikmönnum á sama tíma, sem ekki hafa íslenskt ríkisfang.

Friðrik Ragnarsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, segir samþykkt KKÍ-þingsins vera framfaraskref. Það muni gefa fleiri ungum íslenskum körfuknattleiksmönnum tækifæri til að spreyta sig. Sævar Óskarsson, formaður körfuknattleiksdeildar KFÍ, á Ísafirði er á öndverðum meiði. Hann segir að breytingin geri fámennum félögum á landsbyggðinni erfiðara fyrir að halda úti kappliðum sem geti keppt við félögin á Suður- og Suðvesturlandi.

Gríðarlegur aðstöðumunur

„Þessi breyting leggst afleitlega í okkur hér fyrir vestan,“ sagði Sævar við Morgunblaðið í gær.

„Ef menn hafa einhvern vilja til að skilja hversu gríðarlegur aðstöðumunur er á milli félaga þá get ég nefnt sem dæmi KFÍ annarsvegar og Fjölni í Reykjavík hinsvegar. Það liggur við að iðkendafjöldinn í sumum félögum sé jafnmikill og íbúafjöldinn hér fyrir vestan. Þetta yndislega gamla kerfi sem við höfum haft frá því í gamla daga í gegnum ungmennafélagshreyfinguna, þá komast stóru félögin upp með að gera það sem þeim dettur í hug að gera. Þau virðast ekki hafa neinn skilning á því að fámenn félög úti á landi ala upp mikið færri iðkendur en stóru félögin fyrir sunnan. Síðan fara margir okkar uppöldu leikmenn suður til háskólanáms upp úr tvítugu og ganga í mörgum tilfellum inn í þessi stóru félög sem eru að setja okkur stólinn fyrir dyrnar við að halda uppi lifandi starfi í körfubolta. Við áttum okkur ekkert á því hvað fólkinu gengur til,“ segir Sævar.

KFÍ náði á dögunum að verja sæti sitt í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð. Sævar segir að nýjar reglur muni þyngja róður körfuknattleiksdeildar KFÍ. „Reglurnar þýða að kostnaður við innlenda leikmenn hækkar, það er alveg ljóst. Það þarf átta þokkalega spilandi leikmenn hið minnsta í eitt körfuboltalið. Þegar horft er yfir sviðið hér á landi og skoða hvaða þokkalega spilandi íslenskir leikmenn standa á sviðinu þá er alveg ljóst hvað verður sent út á land,“ segir Sævar.

„Við sem rekum körfuknattleiksdeildir úti á landi glímum við hömlur sem lið á Suðurlandi eru að setja á okkur og við skiljum ekkert í. Af hverju þurfa lið sem eru með öfluga og frábæra íslenska leikmenn að tryggja það að hömlur séu á okkur þannig að við getum ekki veitt okkur bjargir,“segir Sævar og bendir á þá „óskaplegu“ stöðu sem kom upp hjá KFÍ fyrir fáeinum árum þegar félagið var með fimm útlendinga á sama tíma. „Það var alls ekki óskastaða okkur, enginn skal halda það, en þetta gaf okkur svigrúm til að brúa bil yfir í næsta keppnistímabil. Nú er búið að taka fyrir að það sé mögulegt.“

Fögnum þessum breytingum

„Við í Njarðvík fögnum þessum breytingum og teljum þær verða til góða og að þar með fái fleiri íslenskir körfuknattleiksmenn að láta ljós sitt skína,“ segir Friðrik Ragnarsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur þar sem mikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað síðustu árin.

„Ég tel að tími hafi verið kominn til að gera þessa breytingu og hún verði til bóta fyrir íslenskan körfuknattleik. Ég er sannfærður um að með þessum breytingum munum við eignast fleiri góða íslenska leikmenn, íþróttinni í heild til hagsbóta,“ segir Friðrik sem telur breytingarnar ekki eiga að standa körfuknattleik á landsbyggðinni fyrir þrifum.

„Félögin á úti á landi verða einfaldlega að laða til sín fleiri íslenska stráka í stað þeirra útlendinga sem þau hafa verið með.

Ég spilaði sjálfur nokkuð lengi í deildinni hér heima meðan hin svokallaða 4 plús 1 regla var í gangi, lík þeirri sem nú var samþykkt. Á þeim tíma varð ég ekki var við að það ylli félögunum vandræðum. Þess vegna skil ég ekki af hverju þessi breyting ætti endilega að valda vandræðum eitthvað frekar í dag.

Vill taka málið úr höndum þingsins

Sævar segir vont að vinna í umhverfi þar sem reglur um fjölda útlendinga taki oft breytingum. Hann vill taka málið úr höndum þingsins og inn í nefnd sem kemur sér saman um reglur um útlendinga í íslenskum körfuknattleik, svo sátt megi ríkja. „Reglur um keppnisfyrirkomulag og útlendinga þarf að vinna innan hóps fagaðila og stjórnar KKÍ. Eina leiðin til þess að gera þessi mál ómöguleg og flókin er að setja þau í hendur á þingfulltrúum hverju sinni. Þeir horfa aldrei út fyrir eigin umhverfi. Fyrr en þessu verður breytt verður aldrei friður um þessi mál innan hreyfingarinnar,“ segir Sævar Óskarsson, formaður körfuknattleiksdeildar KFÍ á Ísafirði.
Fjórir plús einn
» Frá og með næstu leiktíð má hvert lið í úrvalsdeild karla og kvenna og í 1. deild aðeins tefla fram einum leikmanni í einu sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt
» Í vetur og undanfarin ár hefur verið heimilt að hafa tvo útlendinga hverju sinni á leikvellinum í hverjum leik í hverju liði