Þeir þingmenn sem hafa talað manna hæst um vilja fólksins í stjórnarskrármálinu búa í ansi einangruðum heimi.

Þeir þingmenn sem hafa talað manna hæst um vilja fólksins í stjórnarskrármálinu búa í ansi einangruðum heimi. Til að ná sambandi við íslenskan veruleika væri vænlegt fyrir þá að gera sér ferð úr sölum Alþingis og gefa sig á tal við hinn dæmigerða Íslending. Þá kæmust þeir að ýmsu óvæntu. Eins og til dæmis því að almenningur er ekki að ræða stjórnarskrármálið af brennandi áhuga. Það er einfaldlega ekki hlaupið að því að hitta æstan stuðningsmann stjórnarskrármálsins, jafnvel þótt maður fari víða. Eini æsingurinn vegna þess máls hefur verið meðal þeirra sem sátu í stjórnlagaráði og svo í þingsölum hjá þingmönnum sem hljóma ansi veruleikafirrtir þegar þeir hrópa úr ræðustól að ekki megi svíkja þjóðina.

Áhugaleysi þjóðarinnar á stjórnarskrármálinu er æpandi. Þjóðin, sem barði í potta og pönnur á Austurvelli á sínum tíma, hefur undanfarið verið boðuð á vikulegan fund á Ingólfstorgi til að sýna stuðning sinn við tillögur stjórnlagaráðs. Þjóðin hefur skrópað á þá vel auglýstu fundi. Meira að segja RÚV sem reyndi lengi vel að sýna svipmyndir frá þessum fundum gafst að lokum upp á að segja frá þeim, svo snautleg var mætingin.

Fólkið er samt ýmislegt að ræða og ekki síst hvaða flokk það ætlar að kjósa í kosningunum eftir nokkrar vikur. Fjölmargir kjósendur eru nánast í leiðslukenndu bjartsýniskasti vegna kosningaloforða Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hinn geðþekki og vel greindi formaður Framsóknarflokksins, er orðinn maður fólksins og virðist hafa yfirburðastöðu meðal stjórnmálamanna. Þegar hann birtist á sjónvarpsskjánum, hæfilega vinalegur en um leið með yfirbragð stjórnmálamanns sem telur sig hafinn yfir dægurþras, þá hýrnar yfir áhorfendum sem hugsa samstundis: Kjarabót!

Það hentar Framsóknarflokknum alveg prýðilega að aðrir flokkar rífist um stjórnarskrármálið og Evrópusambandið, eins og séu þetta brýn kosningarmál. Á meðan hefur Framsóknarflokkurinn frítt spil í kosningaloforðum og boðar blóm í haga og sæta sumardaga.

Framsóknarflokkurinn virðist átta sig á því stjórnarskrármálið er ekki baráttumál sem brennur á þjóðinni og þótt þjóðin vilji halda áfram viðræðum við Evrópusambandið þá er Evrópusambandsaðild enn sem komið er ekki kosningamál. Framsóknarflokkurinn einbeitir sér að því að ræða um skuldastöðu heimilanna og hvernig megi gera mínus að plús. Aðrir flokkar virðast ekki eiga svar við reiknikúnstum framsóknarmanna.

Þingmenn ættu að einbeita sér að málum sem skipta þjóðina máli og forgangsraða rétt á Alþingi Íslendinga. Svo væri kannski ráð að snúa sér að kosningabaráttunni. Nema menn vilji gefa Framsóknarflokknum sviðið. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir