Enn sannast að Evrópufræðingar áttu kollgátuna. Smáríki geta komið að verulegu gagni innan ESB

Sérkennilegt er að fylgjast með viðbrögðum virðulegra blaða á meginlandi Evrópu vegna atkvæðagreiðslu á þingi Kýpur um skilmála „björgunarpakkans“ frá þríeykinu, sem svo er nefnt. Fyrstu viðbrögð voru þau að benda á að atkvæðagreiðslan á þingi Kýpur sýndi að einstök ríki hefðu enn mun meira forræði mála sinna en ýmsir vildu vera láta. Úrslit atkvæðagreiðslunnar sýndu einmitt það og sönnuðu.

Eftirtektarvert að nauðsynlegt þyki að leiða þennan atburð fram til vitnis um að enn eimi eftir af fullveldi eyjunnar.

Meginskýringin á þeirri niðurstöðu var þó sú, að mikill óróleiki greip um sig hjá herraþjóðunum sjálfum vegna hinnar háværu gagnrýni sem barst hvaðanæva. Björgunarpakkinn var miklu harðneskjulegri en hinir fyrri og beinlínis sagt upphátt og opinberlega að það væri vegna þess að Kýpur væri „örríki“ í ESB, sem ekki gæti vísað til efnahagslegs mikilvægis. Þess vegna hefði verið vandlega íhugað að láta það sigla sinn sjó með sinn vanda.

Þegar í meðaumkunar- og bræðralagsskyni hefði verið ákveðið að veita landinu fyrirgreiðslu, þótt sameiginleg nauðung stæði ekki til þess, væri eðlilegt að smáríkið væri látið gjalda þess í skilmálum fyrirgreiðslunnar. Þess vegna var þeim þrengt svo harðneskjulega ofan í kokið á nýlega kosnum forseta Kýpur. En þegar stjórnmálamenn og sérfræðingar í stærri ríkjum meginlandsins bentu á að skilmálarnir gætu leitt til erfiðleika þar, jafnvel bankaáhlaups í löndum sem veik væru fyrir, tóku að berast misvísandi skilaboð til Kýpur.

Fjármálaráðherrar evruríkja héldu símafund í ofboði og „ráðlagði hann“ að Kýpur skyldi milda aðgerðapakkann og hlífa þeim innistæðueigendum sem ættu minna en 20.000 evrur á sínum reikningum. Þá var Brussel minnt á hinar frægu innistæðutilskipanir, sem m.a. átti að berja Íslendinga með og sumir vilja miða við að séu eða verði 100 þúsund evrur. Ekki minnkaði ruglandinn við það. Svo bárust viðbótarfyrirmæli frá Brussel. Mildin mætti ekki vera ókeypis. Því, sem dregið yrði úr í einhliða niðurskurði á innistæðum þeirra sem ættu minnst, skyldi ná til baka með því að skerða enn frekar innistæður þeirra sem ættu meira.

Við þessar óljósu aðstæður treysti ekki einn einasti þingmaður á þingi Kýpur sér til að greiða atkvæði með þeim samningi, sem forseti landsins hafði verið neyddur til að gleypa fáeinum dögum áður.

En hin virtu blöð, sem áður var vitnað til, láta ekki sínar fyrstu hugleiðingar um sönnun áframhaldandi fullveldis einstakra ESB-ríkja duga. Þau taka fram að þýðingarmikið sé að ESB láti ekki Kýpur komast upp með sitt múður. Það verði að sýna Kýpur, en þó einkum öðrum íbúum svæðisins, að Brussel og stórríki ESB muni ekki sætta sig við andóf þingmannanna.

Der Spiegel kallar það andóf raunar tilraun til „fjárkúgunar“ gagnvart ESB. Þar sem smáríki eigi í hlut snúist sú kúgun vissulega ekki um stórfelldar fjárhæðir í samhengi evruvandans. Hin raunverulega hætta felist því í öðru. Komist örríkið upp með sína sjálfstæðistilburði og fái að beygja brusselvaldið sé hætt við að aðrir telji sér fært að feta sömu slóð.

Vandi stórríkja í Suður-Evrópu hefur ekki verið leystur heldur aðeins rúllað áfram nokkrar veltur. Bankar þar munu fljótlega banka upp á enn á ný og biðja um upphæðir sem taka óþægilega í. Þá er ekki aðeins verið að tala um Spán, Portúgal og Ítalíu. Fleiri ríki engjast, þótt flest séu smærri í sniðum. En ekki þó öll. Áhyggjur af Frakklandi fara dagversnandi. Af þessum ástæðum sé óhjákvæmilegt að niðurlægja Kýpur í þeim mæli sem gert sé. Það er sem sagt ekki eingöngu gert vegna þess að þetta ESB-ríki sé svo smátt og fámennt að það skipti ekki máli. Það hafi auk smæðarinnar verið svo óheppið að það hafi þurft að sýna það sem fordæmi