Lykilmaður Markvörðurinn Samir Handanovic er talinn fremsti knattspyrnumaður Slóvena um þessar mundir. Hann ver mark ítalska stórliðsins Inter Mílanó og mætti einmitt Gylfa Þór Sigurðssyni tvisvar á dögunum.
Lykilmaður Markvörðurinn Samir Handanovic er talinn fremsti knattspyrnumaður Slóvena um þessar mundir. Hann ver mark ítalska stórliðsins Inter Mílanó og mætti einmitt Gylfa Þór Sigurðssyni tvisvar á dögunum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Víðir Sigurðsson í Ljubljana vs@mbl.is Slóvenar eru ekki sáttir við sína stöðu í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson í Ljubljana

vs@mbl.is

Slóvenar eru ekki sáttir við sína stöðu í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Þeir sitja á botninum eftir fjórar umferðir, ásamt Kýpurbúum, en eru þremur stigum á eftir Íslendingum og Albönum, þjóðum sem þeir hafa ávallt verið fremri. Heimasigur gegn Kýpur og töp í Albaníu og Noregi og á heimavelli gegn Sviss var árangur sem kostaði fyrrverandi þjálfara, Slavisa Stojanovic, starfið í nóvember.

Nýr þjálfari (og gamall þó), Srecko Katanec, sagði þegar hann tók við liðinu fyrir jólin að þrátt fyrir slæma byrjun væri það markmið sitt að koma Slóvenum í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Brasilíu sumarið 2014. Lykillinn að því er einmitt að sigra Ísland tvisvar en þjóðirnar mætast nú í tveimur umferðum riðilsins í röð, í Ljubljana á morgun, föstudag, og á Laugardalsvelli 7. júní.

Hælir Íslendingum óspart

Katanec, gamall liðsfélagi Ásgeirs Sigurvinssonar hjá Stuttgart, hefur verið hógværari í viðtölum við fjölmiðla síðustu vikurnar, sérstaklega eftir skell gegn Bosníu í vináttulandsleik á heimavelli í febrúar, 0:3. Hann hefur gripið til hins gamla og sígilda ráðs að tala vel um andstæðinginn og hefur hælt Íslendingum á hvert reipi undanfarið. Farið um þá mörgum orðum í öllum viðtölum við slóvenska fjölmiðla, hversu vel mannað íslenska liðið sé á meðan ýmis vandamál herji á sig og sína leikmenn.

Í dag eru Slóvenar í 56. sæti á heimslista FIFA, númer 27 af Evrópuþjóðum en Ísland er í 92. sætinu og í 40. sæti Evrópuþjóða. Fyrir Slóvena er þetta talsvert fall á þremur árum en árið 2010 voru þeir í sinni bestu stöðu frá upphafi þegar þeir voru metnir 15. besta landslið heims og voru nærri því að komast í 16 liða úrslit á HM.

Katanec kom Slóvenum tvisvar á stórmót

Slóvenar eiga aðeins rúmlega 20 ára sögu með sjálfstætt landslið því þeir léku sinn fyrsta opinbera landsleik 3. júní 1992. Þjóðin fékk sjálfstæði ári áður eftir að hafa rofið sig fyrst allra út úr ríkjasambandinu Júgóslavíu sem þá var að byrja að liðast í sundur.

Fyrrnefndur Katanec var áður landsliðsþjálfari á árunum 1998 til 2002 og afrekaði það fyrstur þjálfara Slóvena að koma þeim í úrslitakeppni stórmóts. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Slóvenar komust nefnilega bæði í lokakeppni EM í Hollandi og Belgíu árið 2000 og í lokakeppni HM í Suður-Kóreu árið 2002. Þeir náðu þó ekki að vinna leiki, urðu neðstir í sínum riðli á EM 2000 með 2 stig úr 3 leikjum og töpuðu öllum sínum leikjum á HM 2002. En fyrir unga þjóð með aðeins 2 milljónir íbúa voru það stórsigrar að komast þetta langt.

Þessum árangri fylgdu Slóvenar eftir með því að komast aftur í lokakeppni HM í Suður-Afríku árið 2010 en þá lögðu þeir Rússa að velli í umspili. Þar unnu þeir fyrsta sigurinn, unnu Alsír og duttu naumlega út í riðlakeppninni eftir harðan slag við Bandaríkjamenn og Englendinga. Þá misstu þeir 2:0 forskot gegn Bandaríkjunum niður í 2:2 jafntefli og það var dýrkeypt eftir 0:1 tap gegn Englandi þar sem jafntefli hefði verið nóg.

Tveir í banni og Koren gefur ekki kost á sér

Ekki hafa orðið stórtækar breytingar á liði Slóvena frá því á HM 2010 og í hópnum gegn Íslandi eru flestir þeirra sem komu við sögu með liðinu í Suður-Afríku. Einu fastamennirnir þaðan sem vantar nú eru miðjumaðurinn Andraz Kirm frá Groningen í Hollandi, sem er í leikbanni, og fyrirliðinn þáverandi Robert Koren, sem nú spilar með Hull og áður með WBA, en hann gefur ekki kost á sér í landsliðið um þessar mundir. Einn enn sem ekki spilar er miðjumaðurinn Josip Ilicic sem leikur með Palermo á Ítalíu en hann er í banni.

Markvörður Inter Mílanó

Fremstir Slóvenanna í dag eru markvörðurinn Samir Handanovic, sem hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína með Inter Mílanó og miðvörðurinn Bostjan Cesar og bakvörðurinn Bojan Jokic sem báðir spila með Chievo á Ítalíu. Alls leika átta úr hópi Slóvena með ítölskum liðum. Þá hefur gamalreyndur sóknarmaður, Milivoje Novakovic, verið kallaður inn í liðið á ný en hann leikur með Omiya í Japan eins og annar framherji liðsins, Zlatan Ljubijankic. Í síðustu undankeppni HM var Novakovic aðalmarkaskorari slóvenska liðsins og hann hefur gert 19 mörk í 54 landsleikjum.

Slóvenska liðið er sem sagt með góðan markvörð, fína varnarmenn og framherja, en stærsta spurningin er hvernig miðjan hjá þeim virkar. Þar er aðalmaður Aleksandar Radosavljevic, harðskeyttur varnartengiliður frá Venlo í Hollandi en aðrir miðjumenn í hópnum eru lítt reyndir.

Fauk útum gluggann

Íslensku þjálfararnir og leikmennirnir vita ekki alveg hvað bíður þeirra í Ljubljana á morgun. Þjálfaraskiptin í vetur þýða að lítið stoðar að rýna í leikaðferð Slóvena í fyrstu fjórum leikjunum. Eins og Heimir Hallgrímsson aðstoðarþjálfari orðaði það við mig, þá fauk leikgreining hans á slóvenska liðinu einfaldlega út um gluggann með gamla þjálfaranum. Katanec prófaði þriggja manna vörn gegn Bosníu, að vísu ekki með sérstökum árangri, og eflaust reynir hann að koma Lars Lagerbäck og Heimi í opna skjöldu á einhvern hátt í þessum mikilvæga leik.

Fyrir Slóvena er allt annað en sigur gegn Íslandi óviðunandi og þeirra framhald í keppninni ræðst að miklu leyti af úrslitunum í viðureign þjóðanna á morgun. Þeir leggja örugglega allt í sölurnar. Reynslan er þeirra megin og það verður forvitnilegt að sjá hvernig vaxandi landsliði Íslands reiðir af á Stozice, hinum nýja og glæsilega heimavelli Slóvena í höfuðborginni Ljubljana.

E-riðill á HM
» Sviss er með 10 stig, Noregur 7, Ísland 6, Albanía 6, Slóvenía 3 og Kýpur 3 eftir fjórar umferðir af tíu.
» Slóvenía og Ísland mætast í Ljubljana kl. 17 á morgun og Noregur tekur á móti Albaníu. Á laugardag eigast við Kýpur og Sviss.
» Ísland á síðan eftir heimaleik við Slóveníu, útileik við Sviss, heimaleiki við Kýpur og Albaníu og loks útileik við Noreg.