Rústir Fjölskylda á hjóli í Maarat al-Numan í Idlib-héraði í gær.
Rústir Fjölskylda á hjóli í Maarat al-Numan í Idlib-héraði í gær. — AFP
Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sundrung ríkir í liði uppreisnarmanna sem berst gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, í gær sögðust 12 menn í yfirstjórn Sýrlenska þjóðarráðsins, SNC, hafa sagt tímabundið af sér, daginn eftir að kjörinn var forsætisráðherra útlagastjórnar samtakanna, Ghassan al-Hitto.

Hitto hefur búið í Bandaríkjunum í áratugi og var áður forstjóri fyrirtækis í upplýsingatækni. Meðal 12-menninganna var talsmaður SNC, Walid al-Bunni, að sögn AFP -fréttastofunnar.

„Þjóðarráðið er ekki kjörið í kosningum og sem slíkt hefur það ekki rétt til að velja sér forsætisráðherra með meirihlutakosningu. Menn hefðu átt að ná fram einróma niðurstöðu,“ sagði einn mannanna, Kamal Labwani.

Soheir Atassi, sem einnig hyggst hætta tímabundið, er veraldlega sinnuð og hefur barist fyrir réttindum kvenna í Sýrlandi. Hún var ákaft hyllt fyrir að gegna lykilhlutverki þegar samtökin voru stofnuð í Doha í Katar í nóvember sl. en margir höfðu áhyggjur af því að karlar og íslamistar væru allsráðandi í SNC.

Efnavopnum beitt?
» Bæði talsmenn stjórnarhers Assads og liðsmenn uppreisnarhópa hafa fullyrt að beitt hafi verið efnavopnum í bardögum í Aleppo á þriðjudag
» Vitað er að Sýrlandsstjórn á mikið af slíkum vopnum. En Bandaríkjamenn sögðu í gær að ekki væru neinar vísbendingar um notkun efnavopna.