Tveir ungir knattspyrnumenn skrifuðu undir samning við enska knattspyrnuliðið Reading í gær. Um er að ræða þá Samúel Kára Kristjánsson úr Keflavík og Tómas Inga Urbancic úr Víkingi.

Tveir ungir knattspyrnumenn skrifuðu undir samning við enska knattspyrnuliðið Reading í gær. Um er að ræða þá Samúel Kára Kristjánsson úr Keflavík og Tómas Inga Urbancic úr Víkingi. Báðir strákarnir náðu að heilla forráðamenn enska liðsins en þeir hafa verið við æfingar hjá félaginu og í gær léku þeir með U18 ára liði Reading. Liðið vann lið frá Japan, 6:0, og skoruðu þeir Samúel og Tómas Ingi sitt markið hvor.

Báðir leika þeir með U17 ára liðinu en Samúel er 17 ára og Tómas Ingi 16 ára.

Reading hefur góða reynslu af Íslendingum. Gylfi Þór Sigurðsson hóf atvinnumannsferilinn hjá liðinu og þeir Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson léku lengi með liðinu við góðan orðstír en Brynjar yfirgaf félagið á dögunum.

gummih@mbl.is