Aðalsteinn Björnsson fæddist á Akureyri 21. júní 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 6. mars 2013.

Útför Aðalsteins fór fram frá Grafarvogskirkju 13. mars 2013.

Elsku afi, það er sárt að kveðja þig en um leið koma upp svo margar minningar um þig. Nokkrar af mínum fyrstu minningum um þig eru þegar við keyrðum um Breiðholtið á vörubílnum þínum því ég fékk oft að sitja í með þér og við keyrðum úr húsagrunnum, sem mér fannst gríðarlega spennandi. Einnig kom ég oft í skúrinn þinn og fylgdist með þegar dytta þurfti að vörubílnum og lærði ég þar mikið á alls konar verkfæri, að saga járn og finna réttu lyklana.

Einnig minnist ég þess er þú stofnaðir litlu leigubílastöðina í bílskúrnum ásamt nokkrum öðrum og öll fjölskyldan tók virkan þátt í því. Ég til dæmis svaraði nokkrum sinnum í símann á stöðinni þegar það vantaði og ýmislegt annað sem þurfti að gera.

Einnig á þessum tíma ertu á kafi í fluginu á TF-SPA eða Spánni eins og hún var alltaf kölluð og fór ég oft með þér í flug og þar tókst þér oft að fá mig til að fá fiðring í magann en það var bara æðislegt. Einnig minnist ég jólanna þegar við krakkarnir fórum út að selja dagatöl fyrir Lions, sem þú varst mjög virkur félagsmaður í, og að launum fengum við súkkulaðidagatal.

En svo dundu ósköpin yfir 1984. Þá færð þú þitt fyrsta heilablóðfall. Voruð þið Nilli að æfa blindflug einhvers staðar við Sauðárkrók og tók það þó nokkuð langan tíma að koma þér til læknis. Varð blæðingin mikil og lamaðist þú alveg hægra megin og ekki var talið að þú myndir tala eða ganga framar, en jú, afi minn, þrjóskan og viljastyrkurinn var svo mikill að þú komst þér úr stólnum og lærðir að tala upp á nýtt – allt á hörkunni.

Eftir þetta allt saman komst þú oft til okkar Bjössa í skúrinn og fylgdist með okkur gera við bíla og oftar en ekki gastu gefið okkur góð ráð og aðstoðað okkur. Einnig minnist ég jeppaferðarinnar sem við fórum í ég þú og Bjössi og þurftum við að fá björgunarsveit til að sækja okkur við Langjökul. Það endaði nú allt vel og var bara gaman svona eftir á.

Nú í seinni tíð fékkstu fleiri heilablæðingar sem komu þér aftur í hjólastólinn sem þú gerðir allt til að losna við. Undir lokin varstu orðinn fangi í eigin líkama, en nú er ég viss um að þú hleypur um frjáls og glaður um ókomna tíð.

Ég minnist þín með miklum söknuði en þó með mikilli þökk fyrir allt sem þú hefur kennt mér um ævina og ég tala nú ekki um viljastyrkinn sem dreif þig áfram sama hvað á gekk. Ég er viss um að mamma tekur vel á móti þér og þið munuð njóta ykkar vel. Þú lifir í hjarta mínu um ókomna tíð. Ég segi nú að lokum: Hafðu það eins gott og þú átt skilið, afi minn, við munum öll sakna þín.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Hafþór, Þórunn og dætur.

Elsku afi minn, ég kveð þig með miklum söknuði og trúi að nú líði þér betur, laus undan þjáningum, eða eins og dætur mínar sögðu: „Nú er afi langi hamingjusamur, frjáls úr hjólastólnum og búinn að hitta ömmu Stínu og þau eru hlaupandi um allt.“

Ég man hvað þér fannst gaman að ferðast um landið og um heiminn.

Við fórum oft saman í Þórsmörk með starfsfélögum frá Hreyfli og þar var oft glatt á hjalla, mikið sungið við varðeldinn og farið í leiki.

Þú varst dugnaðarforkur, hafðir ákveðnar skoðanir og með þrjóskari mönnum sem ég kynntist en þessi þrjóska hjálpaði þér þegar þú þurftir að læra að ganga og tala upp á nýtt eftir mikil veikindi.

Við ferðuðumst til Spánar, Gíbraltar, Afríku og fleiri staða. Þú elskaðir að fara í ferðir með Húsbílafélaginu og þú áttir líka þennan flotta húsbíl.

Flugið átti hug þinn og þú varst einn af stofnendum Flugklúbbs Mosfellssveitar og auðvitað nutum við góðs af þessu áhugamáli þínu, því oft fengum við að fljúga með þér. Þessar flugferðir voru ævintýri fyrir okkur, það var svo gaman þegar þú flaugst „beint upp og síðan beint niður“, þá fengum við kitl í magann og skemmtum okkur konunglega.

Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með þér og góðar minningar um skemmtilegar samverustundir munu ávallt fylgja okkur.

Elsku amma, Bjössi og Árný, megi góður Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg okkar.

Minning um yndislegan afa mun lifa í hjarta okkar alla ævi.

Hvíldu í friði.

Þín dótturdóttir,

Ágústa Björk og fjölskylda.