Söfnun Kristján Björn Tryggvason er með myndarlegt skegg og hefur lagt sitt af mörkum í Mottumars.
Söfnun Kristján Björn Tryggvason er með myndarlegt skegg og hefur lagt sitt af mörkum í Mottumars. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta...

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta...“ með handboltalandsliðinu hljómar í símanum, þegar hringt er í Kristján Björn Tryggvason, sem er sá einstaklingur sem hefur safnað mestu í mottumars í ár, um 552.000 krónum, en í fyrra safnaði hann um 970.000 krónum.

Kristján Björn, sem verður 32 ára í júní, segir að sér renni blóðið til skyldunnar. Hann hafi greinst með heilaæxli fyrir um sjö árum og læknir hafi þá sagt sér að hann ætti í mesta lagi fimm ár eftir heilbrigður. „Ég stóð frammi fyrir tveimur leiðum, að njóta lífsins eins og mögulegt væri eða leggjast í þunglyndi. Ég ákvað strax að sleppa síðarnefndu leiðinni, fór í erfiða meðferð sem fólst meðal annars í tveimur uppskurðum, geislameðferð og lyfjameðferð, og hafði betur gegn meininu. Ég tek því heilshugar þátt í átakinu til að styrkja aðra í sömu sporum og eins fyrir sjálfan mig.“

Óvænt áfall

Fyrsta áfallið kom skyndilega. „Ég vann við að keyra með úrgangsolíu úr skipum og smurstöðvum og var niðri á Hafnarfjarðarhöfn,“ rifjar hann upp. Hann segir að hann hafi þurft að bíða lengi í bílnum og hafi dottað á milli. Þegar loks hafi verið búið að tæma tankinn hafi hann gengið frá og lagt af stað. „Ég þurfti að stoppa við hliðið og allt í einu réð ég ekkert við hægri fótinn. Þegar ég ætlaði að færa hann fór hægri höndin hingað og þangað, en á einhvern hátt tókst mér að stöðva bílinn með þeim vinstri. Þá fór höfuðið af stað og ég fékk flog. Þetta ástand varaði í eina til tvær mínútur en síðan fór allt í samt lag og ég hélt áfram. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum næstu þrjá mánuði og tengdamamma mín, sem er hjúkrunarfræðingur, hvatti mig til að fara til læknis. Ég sagði alltaf já, já og fór að hennar ráðum um síðir, sem betur fer.“

Þegar Kristján Björn greindist með krabbameinið áttu þau Kristín Þórsdóttir eitt barn en nú eiga hjónin von á sínu þriðja barni, sem á að fæðast 7.9.13. Hann vinnur á sambýli og segist vera í draumastarfinu, en hann átti frí í gær eftir að hafa verið á næturvakt. „Margir halda að ég sé að gantast þegar ég segist vera í draumastarfinu en þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

HÁLFNAÐ ER VERK ÞÁ HAFIÐ ER Í MOTTUMARS

Vantar um 8.000 kr. á mann

Mottumarskeppni Krabbameinsfélagsins lýkur formlega á hádegi á morgun, föstudaginn 22. mars, og þá verður ljóst hverjir verða í efstu þremur sætunum í bæði liða- og einstaklingskeppninni, en áfram verður tekið við framlögum næstu daga.

Kristján Björn Tryggvason hefur farið víða með „söfnunartunnu“ og í gær hafði hann safnað mestu allra einstaklinga eða um 552.000 kr., Vilhjálmur Óli Valsson hafði safnað um 482.000 kr. og Páll Sævar Guðjónsson um 348.000 kr. Norðurál var efst í liðakeppninni með um 679.000 kr., Alcoa-Fjarðaál hafði safnað um 627.000 kr. og Vodafone um 432.000 kr. Söfnunarfénu verður varið í rannsóknir, forvarnir, stuðning og ýmis önnur verkefni sem tengjast baráttunni við krabbamein í karlmönnum. Markmiðið er að safna samtals 30 milljónum króna. Um 1.900 einstaklingar og lið taka þátt í keppninni og safni hver einstaklingur og hvert lið um 8.000 kr. til viðbótar er markmiðinu náð.