Streð „Það tók drjúgan tíma að fá öll tilskilin leyfi og úttektir að ógleymdri vinnunni við innréttingar og frágang. Við opnuðum í apríl 2011 eftir nokkuð langa fæðingu,“ segur David.
Streð „Það tók drjúgan tíma að fá öll tilskilin leyfi og úttektir að ógleymdri vinnunni við innréttingar og frágang. Við opnuðum í apríl 2011 eftir nokkuð langa fæðingu,“ segur David. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Bráðum verða liðin tvö ár síðan David Anthony Noble opnaði á Laugavegi veitingastaðinn Litla bóndabæinn.

Bráðum verða liðin tvö ár síðan David Anthony Noble opnaði á Laugavegi veitingastaðinn Litla bóndabæinn. Staðurinn hefur vakið töluverða lukku bæði meðal heimamanna og ferðamanna en David leggur mikið upp úr að elda úr hreinu hráefni gómsæta rétti sem gestir geta auðveldlega kippt með sér ef þeir vilja.

Þeir sem leggja leið sína til Davids ættu líka að taka eftir breskum áhrifum á matseðlinum en eigandi staðarins ólst upp í bænum Higham í Kent. „Ég var mjög áhugasamur um íslenska tungu og hélt af stað í nám við University College London. Ég var ekki langt kominn í náminu þegar það rann upp fyrir mér að ég vildi í raun mest af öllu búa á Íslandi. Þar ætlaði ég að halda náminu áfram en á endanum varð lítið úr því að ég settist á skólabekk,“ útskýrir David.

Þetta var árið 2007 og segir David frá hvernig hann átti auðvelt með að fá vinnu í góðærinu. Hann hóf störf sem uppvaskari á veitingastað og færðist bæði á milli veitingastaða og kaffihúsa um leið og hann færðist smám saman upp í starfi. Einhvers staðar á leiðinni kynntist David íslenskum eiginmanni sínum, Pálmari Þóri Hlöðverssyni kaffibarþjóni, sem David segir að hjálpi til við að tryggja að enginn verði svikinn af lífræna kaffinu sem boðið er upp á hjá Litla bóndabænum.

Það var svo í kjölfar bankahrunsins að tækifæri bauðst til að leigja á Laugavegi 41. „Það tók tímann sinn að koma húsinu í rétt horf því hér hafði áður verið verslun. Það tók drjúgan tíma að fá öll tilskilin leyfi og úttektir að ógleymdri vinnunni við innréttingar og frágang. Við opnuðum í apríl 2011 eftir nokkuð langa fæðingu,“ segir David og gantast með að hafa sennilega aldrei vaskað meira upp en núna þegar hann á sinn eigin veitingastað.

Ekki fer milli mála þegar David lýsir staðnum að mikil alúð og metnaður er lagður í staðinn. „Ég hef sérstaklega mikla ástríðu fyrir vönduðum landbúnaðarvörum og stend mig að því að sakna helst frá Kent alls kyns góðgætis sem bændurnir þar framleiða. Þessi áhugi sést í matarvalinu hjá Litla bóndabænum en hér leggjum við okkur fram við að kaupa helst beint frá býli og hampa mörgum af þeim afbragðsgóðu matvælum sem íslenskir bændur búa til – og gefa þeim bresku ekkert eftir.“ ai@mbl.is