Hallmundur Kristinsson skrifar skemmtilega hugleiðingu á Boðnarmjöð: „Sonur minn kvartaði undan námslánum; þau væru alltof lág þegar ætti að lifa af þeim en allt of há þegar ætti að borga þau. Þá kvað faðir hans: Lán eru til þess að taka.

Hallmundur Kristinsson skrifar skemmtilega hugleiðingu á Boðnarmjöð: „Sonur minn kvartaði undan námslánum; þau væru alltof lág þegar ætti að lifa af þeim en allt of há þegar ætti að borga þau.

Þá kvað faðir hans:

Lán eru til þess að taka.

Tvíræð þó nokkuð að hreppa því

ólán að borga til baka.

Best væri kannski að sleppa því!“

Halldóra Traustadóttir grípur til afhendingar sem er skemmtilegt bragform og yrkir í tilefni af gallabuxnaauglýsingaherferð Benetton á Íslandi.:

Beri við að bráð- mig -vanti -buxur galla-,

ætíð bera eygi kalla.

Þá Þórarinn M. Baldursson:

Afhendur til yrkinga sér ýmsir nýta,

séu þessir sér að flýta.

Og Helgi Zimsen:

Afhent kvæði ætla ég nú upp að dikta

Gaman er við form að fikta.

Ingólfur Ómar Ármannsson orti hringhendu í góðviðrinu:

Veðrið blíða varma ljær

von hjá lýðum glæðir;

sólin víða sindrar skær

snjó í hlíðum bræðir.

Ekki viðraði eins vel þegar Hallgrímur Gíslason orti:

Að vetrinum er vont að treysta veðráttunni.

Best að vera bara inni

og bíða þess að hreti linni.

Þá Kristján Runólfsson:

Nú er úti norðan hríð,

í næstu hús þó grilli,

senn er lokið sælutíð,

sér vart augna á milli.

Magnús Ástvaldsson er í öðrum hugleiðingum:

Ætíð vetrar ógnar hret,

á mig setur hlekki.

Íslenzkt ket í ofninn set,

útlenzkt met ég ekki.

Loks kastar Þórarinn fram stökum á öðrum nótum:

Málin vandast vinur minn,

vart þó standi á svari:

Ég held að fjandans heimurinn

hríðversnandi fari.

Finn ég anda köldu á kinn,

klökkur í blandið stari.

Ég held að fjandans heimurinn

hríðversnandi fari.

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is