Yngri kynslóðin Þorvaldur og Steinunn með barnabörnum og barnabarnabörnum á 55 ára brúðkaupsafmæli sínu.
Yngri kynslóðin Þorvaldur og Steinunn með barnabörnum og barnabarnabörnum á 55 ára brúðkaupsafmæli sínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorvaldur S. fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1954 og prófi í arkitektúr frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn 1961. Þorvaldur S.

Þorvaldur S. fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1954 og prófi í arkitektúr frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn 1961.

Þorvaldur S. starfaði hjá arkitektunum Hans Erling Lagkilde og Ib Martin Jensen í Kaupmannahöfh 1960-61 og var Sagsarkitekt hjá Erik Möller í Kaupmannahöfn 1961-63. Eftir heimkomu var hann arkitekt hjá húsameistara ríkisins 1963-67 og starfrækti arkitektastofu í samvinnu við Manfreð Vilhjálmsson arkitekt 1967-84.

Talsmaður skógræktar

Þorvaldur S. varð forstöðumaður Borgarskipulags 1984. Starfsheiti var breytt í skipulagsstjóri 1996 og gegndi hann því embætti til 2001 er hann varð borgararkitekt til 2004. Þá var Þorvaldur S. stundakennari í húsagerð við verkfræði- og raunvísindadeild HÍ 1969-75.

Þovaldur var Inspector scholae í MR 1954, sat í stjórn Arkitektafélags Íslands 1965-72, var formaður þess 1969-71, sat í stjórn Sjálfstætt starfandi arkitekta 1978-81, í stjórn Norræna sumarháskólans 1966-71 og Norræna félagsins frá 2004, formaður Norræna félagsins í Reykjavík 2004-2010 og formaður NBD á Íslandi (Nordisk byggedag) 1992-2010, í stjórn Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs frá 1983 og í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur frá 1979 og formaður frá 1987-97.

Þorvaldur hefur hannað margar opinberar byggingar og íbúðarhús, s.s. Kjarvalshús, menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík, barnaskóla á Hallormsstað og með Manfreð Vilhjálmssyni íbúðir fyrir aldraða og heilsugæslustóð á Egilsstöðum, Stórutjarnaskóla, Þjóðarbókhlöðuna, Lýðháskólann í Skálholti, Árbæjarkirkju o.fl. Hann hefur skrifað greinar í tímarit um arkitektúr og skipulagsmál og haldið fyrirlestra.

Þorvaldur S. hlaut fegurðarverðlaun Reykjavíkur fyrir húsið Fáfnisnes 3, 1973 og Menningarverðlaun DV 1980, ásamt Manfreð Vilhjálmssyni, fyrir húsagerðarlist. Auk þess hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar.

Fjölskylda

Þorvaldur kvæntist 25.9. 1955 Steinunni Jónsdóttur, f. 6.11. 1933, stúdent og húsfreyju. Hún er dóttir Jóns Jónssonar, f. 25.10. 1908, d. 13.8. 2002, framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins í Innri-Njarðvík, og Björneyjar Jakobínu Hallgrímsdóttur, f. 26.4. 1904, d. 22.4. 1995, kennara og húsfreyju.

Börn Þorvaldar S. og Steinunnar eru Jón Þór Þorvaldsson, f. 2.12. 1956, arkitekt, búsettur í Reykjavík, kvæntur Guðrúnu Önnu Ingólfsdóttur og eru dætur þeirra Steinunn, f. 20.6. 1980, arkitekt, og Elina María, f. 19.8.1996 en sambýlismaður Steinunnar er Þröstur Erlingsson og er barn þeirra Kristófer Þór. f. 10.5. 2011 og dóttir Steinunnar frá fyrra hjónabandi er Anna María Atladóttir, f. 3.2. 2005, og börn Þrastar eru Hrafnkell og Heiðdís Harpa; Herdís Sif Þorvaldsdóttir, f. 22.2. 1962, landfræðingur og flugfreyja, gift Finni Orra Thorlacius Sigurðssyni og eru börn þeirra Sindri Snær Thorlacius, f. 24.6. 1990, og Sædís Sunna Thorlacius, f. 23.2. 1997; Þorvaldur Bjarni, f. 3.3. 1966, tónlistarmaður, kvæntur Þórunni Geirsdóttur, skipulagsstjóra og sýningarstjóra hjá Þjóðleikhúsinu, og eru dætur þeirra Herdís Hlíf, f. 26.4. 1999, og Hafdís Hekla, f. 29.4. 2004.

Systkini Þorvaldar S. eru Dóra, f, 14.8. 1922, húsfreyja í Kópavogi; Herdís, f. 15.10. 1923, leikkona, búsett í Reykjavík; Þóra, f. 18.2. 1925, húsfreyja í Reykjavík; Sigríður, f. 1.8. 1926, d. 1.5. 1931; María, f. 16.6. 1928, d. 26.10. 1999, húsfreyja og saumakona í Bandaríkjunum.

Foreldrar Þorvaldar S. voru Þorvaldur T. Bjarnason, f. 6.11. 1895, d. 29.9. 1932, kaupmaður í Hafnarfirði, og María Víðis Jónsdóttir, f. 14.12. 1895, d. 4.5. 1982, húsmóðir og bóksali í Hafnarfirði.