— Morgunblaðið/Kristján
21. mars 1734 Jarðskjálftar urðu í Árnessýslu. Sjö eða átta menn létust og sextíu bæir skemmdust, einkum í Flóa, Ölfusi og Grímsnesi.

21. mars 1734

Jarðskjálftar urðu í Árnessýslu. Sjö eða átta menn létust og sextíu bæir skemmdust, einkum í Flóa, Ölfusi og Grímsnesi. Tíu bæir féllu til grunna og voru ekki aftur byggðir upp „fyrir vatni og sprungum jarðar,“ sagði í Mælifellsannál.

21. mars 1881

Frost á Akureyri mældist 32 stig á Réaumurmæli (40 stig á Celsíusmæli) en það var mesta frost sem þar hafði orðið þennan mikla frostavetur. Metið er ekki viðurkennt.

21. mars 1968

Snjódýpt í Vestmannaeyjum var 90 sentimetrar, sem mun vera einsdæmi. Hitamælirinn á Stórhöfða fór á kaf. Fólk þurfti víða að fara út um glugga á íbúðarhúsum og björgunarsveitir grófu eitt hús upp, en í því bjuggu eldri hjón.

21. mars 1974

Undirskriftir 55.522 Íslendinga voru afhentar forseta sameinaðs Alþingis þar sem varað var við uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þetta var stærsta undirskriftasöfnunin hérlendis og var hún nefnd Varið land.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.