Íbúafundur Fjölmenni var í Sæmundarskóla í Grafarholti í gær á íbúafundi um uppbyggingu í Úlfarsárdal.
Íbúafundur Fjölmenni var í Sæmundarskóla í Grafarholti í gær á íbúafundi um uppbyggingu í Úlfarsárdal. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is Nokkur hiti var í fundarmönnum á fjölmennum íbúafundi í Grafarholti í gær þar sem borgarstjóri og fleiri kynntu áform um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Á annað hundrað manns sóttu fundinn.

Sviðsljós

Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

Nokkur hiti var í fundarmönnum á fjölmennum íbúafundi í Grafarholti í gær þar sem borgarstjóri og fleiri kynntu áform um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Á annað hundrað manns sóttu fundinn.

Til stendur að byggja skóla, íþróttahús, sundlaug og menningarmiðstöð en uppbygging hverfisins er með öðru og minna sniði en upphaflega stóð til og hefur þar að auki frestast. Framkvæmdir eiga að hefjast í október 2014 og ljúka í lok árs 2017. Borgin hefur 3,6 milljarða úr að spila í verkefnið á næstu fimm árum.

Fundurinn hófst kl. 17:35 og hann átti að standa til 19. Framsögur átta einstaklinga stóðu samtals í 82 mínútur. Þá fyrst, þegar fundartímanum var í raun að ljúka, hófust almennar umræður sem stóðu í 25 mínútur.

Skipuleggjendum fundarins hefði kannski mátt vera ljóst að það væri óraunhæft að ætla að láta átta erindi og almennar umræður rúmast á 90 mínútna fundi. Þá voru erindin á fundinum misáhugaverð en eitt fjallaði að mestu um hvort hafa ætti sameiginlega kaffiaðstöðu fyrir starfsmenn menningarmiðstöðvar, íþróttamiðstöðvar og skóla. Þegar umræður hófust var a.m.k. enginn sem vildi ræða um það heldur var það allt annað og mikilvægara sem fólki bjó í brjósti.

Fjölmargir íbúar tóku til máls. Spurt var meðal annars um með hvaða hætti íbúar gætu komið að ákvarðanatöku um framhaldið. Þá gagnrýndu ýmsir yfirvöld fyrir að leggja meiri áherslu á önnur hverfi borgarinnar eins og miðborgina.

Einn fundarmaður sagðist hafa keypt sér hús í rólegu hverfi en heyrði nú af því að til stæði að flytja heilan flugvöll í nágrennið með tilheyrandi áreiti. Viðkomandi sagði þetta alls ekki hafa verið inni í myndinni þegar húsið var keypt og minnti á að allir þeir sem byggju í nágrenni Vatnsmýrar hefðu flutt í þau hverfi vitandi af flugvellinum í nágrenninu. Viðkomandi hlaut dynjandi lófaklapp í lok ræðu sinnar.

Einn minnti á að nú væri í umræðunni brú yfir Fossvog og áætlað væri að það verkefni myndi kosta um einn milljarð króna.

Gert til að draga fleiri íbúa að

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sagði borgina vilja gott samráð um málið og að því fyrr sem menn næðu saman því hraðar gengju framkvæmdir. Hann sagði uppbygginguna hugsaða til að draga fleiri íbúa inn í hverfið og auka lóðasölu.

Formaður Fram sagði að samningaviðræður stæðu yfir við borgina en ekki væri búið að ganga frá einu né neinu og að beðið væri eftir næstu viðbrögðum frá Reykjavíkurborg. Hann sagði undir borginni komið hvort félaginu yrði útveguð sú aðstaða sem þyrfti í hverfin. Fólk gagnrýndi borgaryfirvöld vegna málefna Fram.

BORGARSTJÓRI

Sjö milljörðum minna nú

„Það er ekkert tilhlökkunarefni að mæta á fundi þar sem maður er að fara að horfa framan í fullt af fólki sem or ofsalega reitt,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri á fundinum. Borgarstjóri hélt ræðu í upphafi fundar og svo aðra eftir framsögur. Hann svaraði hins vegar ekki fyrirspurnum fundarmanna úr sal.

Jón sagði að hrunið hefði sett gríðarlegt álag á allt innra kerfi borgarinnar og dregið úr tekjum. „Við höfum í dag úr um það bil sjö milljörðum minna að spila en við höfðum árið 2008. Það hefur gert að verkum að við höfum þurft að fara í alls kyns aðgerðir og bæði starfsfólk og stjórnmálamenn í borginni lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að reyna að leysa úr þessum vanda,“ sagði Jón.