Egill Gr. Thorarensen fæddist á Selfossi 17. nóvember 1944. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 18. febrúar sl.

Útför Egils fór fram frá Háteigskirkju 28. febrúar 2013.

Við vinkonurnar í saumaklúbbnum „Fröken Arnfinnu“ frá Siglufirði kynntumst Agli þegar hann hóf sambúð með einni okkar, Ásdísi Matthíasdóttur. Egill var myndarlegur á velli og bauð af sér góðan þokka. Hann féll strax vel inn í hópinn með sinni þægilegu framkomu og velvilja. Saumaklúbburinn okkar stendur fyrir ýmsum uppákomum með mökum sínum, m.a. gönguferðum, ferðalögum og skemmtunum.

Minnisstæð er gönguferð um Fimmvörðuháls. Hópurinn hafði keypt gistingu í skála Útivistar efst á fjallinu. Þegar hópurinn kom í skálann þreyttur og blautur seint um kvöld var þar fyrir hópur Þjóðverja sem ekki hafði keypt gistingu en taldi lögmálið „fyrstir koma fyrstir fá“ gilda. Þýskukunnátta Egils kom þarna að góðum notum. Sýndi Egill ótrúlega lipurð og eftir nokkurt þref lauk málinu þannig að báðir hóparnir dvöldust í skálanum í sátt og samlyndi um nóttina. Daginn eftir var haldið niður í Þórsmörk.

Á Kattahryggjum kom sér vel hvað Egill var vel á sig kominn en hann hljóp fram og til baka um hryggina eins og fjallageit og leiddi okkur hverja af annarri dauðskelkaðar yfir ófæruna. Ferðinni lauk í Básum í Þórsmörk. Á lokakvöldi ferðarinnar eldaði Egill dýrindis hátíðarkvöldverð og kom þá vel í ljós hversu flinkur kokkur hann var. Þær urðu margar ánægjustundirnar sem við áttum saman bæði hér heima og að heiman en við fórum í ógleymanlegar ferðir til Tékklands og Frakklands.

Síðustu árin dáðumst við öll að þeirri alúð og umhyggju sem Ásdís sýndi Agli í hans erfiðu veikindum. Við þökkum ánægjuleg kynni af góðum dreng um leið og við vottum Ásdísi og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Eva, Guðrún, Ingibjörg, Guðrún, Kristín, Þórunn og makar.