Í sérflokki Aaron Broussard sækir að körfu KR en hann gerði 31 stig í leiknum og var stigahæstur Grindvíkinga sem eru 1:0 yfir í rimmunni.
Í sérflokki Aaron Broussard sækir að körfu KR en hann gerði 31 stig í leiknum og var stigahæstur Grindvíkinga sem eru 1:0 yfir í rimmunni. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grindavík Skúli B. Sigurðsson sport@mbl.is Grindvíkingar tóku forystu í einvígi sínu gegn KR í gærkvöldi þegar liðin mættust í Röstinni í fyrsta leik liðana í undanúrslitum Dominos deildarinnar.

Í Grindavík

Skúli B. Sigurðsson

sport@mbl.is

Grindvíkingar tóku forystu í einvígi sínu gegn KR í gærkvöldi þegar liðin mættust í Röstinni í fyrsta leik liðana í undanúrslitum Dominos deildarinnar. 95:87 var lokastaða leiksins og óhætt að segja að sigur Grindvíkinga, þó tæpur hafi staðið undir lok leiks, hafi verið verðskuldaður.

Það lá við algerri krossfestingu KR-inga fyrstu 20 mínútur leiksins þar sem heimamenn réðu lögum og lofum á öllum vígstöðum á vellinum. Vesturbæingar voru í værum þyrnirósarblundi og hugsanlega eitthvað enn að ganga frá kústinum eftir síðustu seríu sína. En upprisa þeirra var þó ekki langt undan, því það tók þá aðeins nokkrar mínútur í seinni hálfleik að koma því 16 stiga forskoti sem Grindvíkingar höfðu byggt upp fyrstu 20 mínútur leiksins niður og aftur komnir inn í leikinn.

Tóku sér kaffipásu

Að sama skapi var í raun ótrúlegt hversu afslappaðir Grindvíkingar mættu til leiks í seinni hálfleik. Í stað þess að hamra sjóðandi heitt járnið þá tóku þeir sér kaffipásu og gestirnir nýttu sér það til fulls. Það var ekki fyrr en undir lok leiks að Grindvíkingar gátu kvittað upp á sigur í þessum leik.

KR-ingar fá risahrós frá undirrituðum að gefast aldrei upp í þessum leik og börðust fyrir hverjum bolta. Ef þeir hefðu mætt til leiks frá fyrstu mínútu hefði ekki verið spurning að þeir hefðu getað stolið heimavallarréttinum af Grindvíkingum þetta kvöldið.

Orðið á götunni

Orðið síðustu daga á götunni hefur verið þannig að flestir eru tilbúnir að setja sinn pening á Grindvíkinga í þessari rimmu. Svo sem ekkert athugavert við það þar sem þeir enduðu jú deildina á toppnum og KR-ingar kreistu sig aðeins í 7. sætið. En þessi rimma á eftir að verða hörð og strax í gær var farið að hitna á milli einstakra leikmanna. Minn peningur fer á það að upp úr sjóði í einum þessara leikja sem koma skulu. Það sem mun ríða baggamun í þessari rimmu mun koma af bekk liðanna. Úrslitakeppnin hefur oft á tíðum verið sviðið fyrir óvænta leikmenn til að koma inn af tréverkinu og sýna hvað í þeim býr. Í gær voru framlög frá bekk beggja liða nokkuð jöfn en undirritaður telur að þetta eigi eftir að breytast.

Broussard í sérflokki

Af leikmönnum í gær var það Aaron Broussard, leikmaður Grindvíkinga, sem var í algerum sérflokki. Kappinn sýndi mikinn eldmóð og hörku á báðum endum vallarins og endaði þennan leik með 31 stig og 11 fráköst. Hinn sívinsæli Brynjar Þór Björnsson var atkvæðamestur KR þetta kvöldið með 24 stig. „Við töpum þessum leik í fyrri hálfleik,“ sagði Brynjar að leik loknum í gær.

„KR eru með gott lið og við verðum að vera á tánum í 40 mínútur gegn þeim,“ sagði Þorleifur Ólafsson, leikmaður Grindvíkinga, eftir leik og svo sannarlega orð að sönnu hjá honum.

Grindavík – KR 95:87

Grindavík, undanúrslit karla, fyrsti leikur, mánudaginn 1. apríl 2013.

Gangur leiksins : 5:2, 10:10, 19:10 , 23:10, 30:17, 38:24, 43:30, 50:34 , 52:43, 63:49, 71:59, 74:67 , 76:71, 80:74, 81:79, 95:87 .

Grindavík : Aaron Broussard 31/11 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 28/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/10 fráköst, Samuel Zeglinski 6/4 fráköst/6 stoðsendingar, Ryan Pettinella 6/5 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Jón Axel Guðmundsson 3.

Fráköst : 28 í vörn, 13 í sókn.

KR : Brynjar Þór Björnsson 24/5 fráköst/5 stoðsendingar, Brandon Richardson 21/5 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Kristófer Acox 14/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/8 fráköst, Darshawn McClellan 8/6 fráköst, Martin Hermannsson 6/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 2.

Fráköst : 27 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson, Jón Bender.

Áhorfendur : 689