Helga Þórðardóttir
Helga Þórðardóttir
Eftir Helgu Þórðardóttur: "Stefna Dögunar snýst um réttlæti. Réttlæti fyrir heimilin og réttláta grunnframfærslu. Réttlæti á líka að stjórna fiskveiðikerfinu."

Stefna Dögunar snýst um réttlæti. Við leggjum áherslu á að leysa úr skuldamálum heimila og fyrirtækja á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Ástæðan er sú að mikið óréttlæti hefur átt sér stað undanfarin ár þar sem fjölskyldur hafa verið reknar út af heimilum sínum vegna peningalegra skulda. Þessa aðför að fjölskyldum ætlum við að stöðva. Aðgerðir í þágu heimilanna munu skapa forsendur fyrir mannsæmandi lífi þeirra sem eru í vandræðum. Það mun minnka félagsleg vandamál og auka kaupgetu viðkomandi fjölskyldna. Þess vegna mun allt þjóðfélagið hagnast á slíkum aðgerðum þegar horft er til lengri tíma. En okkur í Dögun finnst þó mikilvægast að stöðva óréttlætið, nú er mál að linni.

Við viljum réttlæti við stjórn fiskveiða og þess vegna viljum við gagngera endurskoðun á stjórn fiskveiða. Við viljum að jafnræði ríki og að allir hafi jafnan rétt á að nýta auðlindina en ekki bara fáir útvaldir. Við viljum að framsal og veðsetning veiðiheimilda verði óheimil. Við í Dögun viljum frjálsar handfæraveiðar. Frelsi til atvinnu eru mikilvæg mannréttindi.

Annað réttlætismál sem Dögun leggur ríka áherslu á er grunnframfærsla. Við ætlum okkur að lögfesta neysluviðmið Velferðaráðuneytisins sem fyrst. Við teljum það ekki boðlegt að bjóða samborgurum okkar upp á það að lifa í fátækt. Aldraðir, öryrkjar og aðrir lágtekjuhópar hafa þurft að taka óásættanlega skerðingu á sig. Svona aðgerðir snúast um réttlæti en ekki jöfnuð, eða hvers vegna eiga þessir hópar að búa við fátækt svo að bankarnir sem við endurreistum sýni bullandi gróða?

Frá hruni hafa margir hópar orðið fyrir óréttlæti. Framundan eru erfiðir tímar fyrir íslenska þjóð. Þær ákvarðanir sem teknar verða munu snúast um réttlæti. Við í Dögun munum ætíð leita lausna sem hafa í för með sér réttlæti fyrir almenning.

Höfundur er í 3. sæti á lista Dögunar í Reykjavíkurkjördæmi suður.