Þingvallavatn Vatnið er nú blátt og tært en ef þörungagróðurinn nær sér á strik, t.d. vegna aukinna næringarefna, verður það grænt og gruggugt.
Þingvallavatn Vatnið er nú blátt og tært en ef þörungagróðurinn nær sér á strik, t.d. vegna aukinna næringarefna, verður það grænt og gruggugt. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Teikn eru á lofti um að tærleiki Þingvallavatns sé í hættu, að mati Hilmars J. Malmquists, forstöðumanns og líffræðings á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Hann hefur rannsakað vatnssýni úr Þingvallavatni um árabil.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Teikn eru á lofti um að tærleiki Þingvallavatns sé í hættu, að mati Hilmars J. Malmquists, forstöðumanns og líffræðings á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Hann hefur rannsakað vatnssýni úr Þingvallavatni um árabil. Hilmar er einn fyrirlesara á málstofu um Þingvelli sem haldin verður á morgun.

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur tekið þátt í vöktunarverkefni með árlegri sýnatöku úr Þingvallavatni frá árinu 2007. Til eru niðurstöður annarra rannsókna sem ná allt aftur til ársins 1907. Rannsóknir sýna að nánast sömu þörungategundir eru algengastar í Þingvallavatni og voru þar fyrir rúmum 100 árum en magn þeirra hefur aukist.

Í kynningu á erindi Hilmars á vefnum natturan.is kemur m.a. fram að Þingvallavatn hafi hlýnað í kjölfar loftslagshlýnunar, útlit er fyrir að styrkur næringarefna í írennsli vatnsins norðan úr þjóðgarðinum hafi aukist, þörungamagn úti í vatninu hefur vaxið og rýni minnkað.

Hilmar sagði erfitt að segja til um hve bráð hætta sé á að rýni í Þingvallavatni minnki. Menn viti ekki hvernig vatnið bregðist við auknum styrk næringarefna. Hann sagði að ef til vill verði nóg að styrkur þeirra skríði yfir einhver tiltekin mörk til þess að allt fari á versta veg. Hilmar sagði þetta vandamál vera þekkt í vatnavistkerfum.

„Það er ekki hægt að útiloka að eitthvað svona gerist í Þingvallavatni, en mér finnst ólíklegt að staðan sé orðin þannig núna. En blikurnar eru sannarlega á lofti,“ sagði Hilmar.

Magn niturs í Þingvallavatni hefur verið takmarkað til þessa. Aukning á því leiðir til aukins þörungavaxtar. Hann veldur því að rýni minnkar, vatnið verður grænleitara og missir blámann og tærleikann. Fari þróunin á versta veg mun hún hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir lífríkið í heild, að sögn Hilmars. En er hægt að sporna við?

„Það er að stíga léttar til jarðar og reyna að lifa þannig að menn setji sem minnst mark á náttúruna,“ sagði Hilmar. Hvað varðar Þingvallavatn sagði hann hægt að stýra umferð ökutækja lengra frá vatninu og reyna að draga úr óþarfa umferð. Dregið hefur úr landbúnaði og áhrifum hans í kringum vatnið. En sumarbústöðum hefur fjölgað og þeim fylgir mengun. Bústaðirnir standa að stórum hluta á lekum hraunum og mengun frá þeim skilar sér út í vatnið, þar á meðal frárennsli frá siturlögnum rotþróa. Hilmar sagði það vera þekkt á verndarsvæðum erlendis að skólp sé flutt í burtu. Nyrsti hluti þjóðgarðsins er á heimsminjaskrá UNESCO vegna menningararfleifðar. Búið er að leggja inn bráðabirgðatillögu um að allt Þingvallavatn og vatnasvið þess fari á skrána vegna náttúruarfleifðar. Verði hún samþykkt má búast við strangari reglum um umgengni á Þingvöllum og í nágrenni þeirra en annars staðar á landinu.

MÁLÞING UM ÞINGVALLAVATN HALDIÐ Á MORGUN

Blátt og bjart

„Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu?“ Þannig hljóðar yfirskrift málþings sem Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands standa sameiginlega að. Málþingið verður haldið í fundarsal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, í Reykjavík klukkan 14.00-17.00 á morgun. Þar verður fjallað um Þingvelli og Þingvallavatn frá ýmsum sjónarhornum. M.a. verður Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur heiðraður og mun hann ávarpa gesti málþingsins.