Víkverji átti góða og viðburðaríka páskahelgi, þar sem hver atburðinn rak annan.

Víkverji átti góða og viðburðaríka páskahelgi, þar sem hver atburðinn rak annan. Víkverji var varla fyrr búinn að rekast á Charlie Sheen á pöbbarölti, og var að fá sér pylsu á Bæjarins beztu, þegar honum er litið aftur fyrir sig yfir biðröðina að þar stendur lágvaxinn maður með kunnuglegt andlit, sem hann reyndi að hylja með trefli. Var þar ekki bara mættur Ben Stiller, í fylgd tveggja þokkagyðja.

Morguninn eftir brá Víkverji sér í sundlaugarnar í Laugardal og eftir að hafa fengið sér smá sprett var kærkomið að slaka á í einum pottinum. Þegar Víkverji var kominn ofan í missti hann hreinlega andlitið af undrun. Á móti honum sat enginn annar en Russell Crowe, búinn að láta krúnuraka sig. Crowe var ekki með neina stjörnustæla og spjallaði við Víkverja dágóða stund um hve Ísland væri frábært land og svo hefði hann líka hitt Charlie Sheen og Ben Stiller á krá í miðborginni!

Víkverji reiknar með að nú séu flestir fyrir löngu búnir að átta sig á að ofanritað er hreinn skáldskapur, enda 1. apríl í gær og margir sem létu plata sig. En Charlie Sheen var vissulega á landinu um helgina, ef marka má fregnir fjölmiðla, þannig að þessi lýsing var ekki svo ýkja fjarri raunveruleikanum. Ef hugsað er fram í tímann er heldur ekki svo fjarlægt að sjá fyrir sér að heimsóknir fræga fólksins til Íslands verði orðnar svo tíðar að þær verði hættar að teljast fréttnæmar og endi bara í dálkum eins og þessum. Hver veit.

Víkverji brosti í kampinn yfir aprílgöbbum fjölmiðla í gær, sem flest voru fyrirsjáanleg. Litlu munaði þó að Víkverji drifi sig út í Heiðrúnu í gærkvöldi að ná sér í ódýran páskabjór, ríkisstjórninni hefði alveg verið trúandi til að koma á annarri eins bullreglugerð og að takmarka sölu og dreifingu páskabjórs við sjálfa hátíðisdagana.