Ásbjörn Óttarsson alþingismaður er sá ræðumaður sem talaði lengst á 141. löggjafarþinginu þegar lagður er saman ræðutími þingmanna og sá tími sem þeir vörðu til að gera athugasemdir úr ræðustóli Alþingis.

Ásbjörn Óttarsson alþingismaður er sá ræðumaður sem talaði lengst á 141. löggjafarþinginu þegar lagður er saman ræðutími þingmanna og sá tími sem þeir vörðu til að gera athugasemdir úr ræðustóli Alþingis. Samanlagt talaði Ásbjörn í 28 klukkustundir og 12 mínútur, samkvæmt ræðulista á vef Alþingis.

Þegar tími athugasemda er lagður við ræðutíma breytist listinn yfir málglöðustu þingmennina nokkuð frá lista sem var birtur í Morgunblaðinu á laugardaginn var. Þar var einungis tekið tillit til ræðutíma en athugasemdunum sleppt. Næstur Ásbirni er Pétur H. Blöndal sem talaði samtals í 25 klukkustundir og 38 mínútur.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fellur niður í 11. sæti sé tekið til samanlagðs ræðutíma og þess tíma sem fór í að gera athugasemdir. Steingrímur varði til þess 759 mínútum eða 12 klukkustundum og 39 mínútum. Hann er í 8. sæti þingmanna sé aðeins tekið tillit til ræðutíma.

Á vef Alþingis kemur fram að haldnar hefðu verið 4.366 þingræður á 141. löggjafarþinginu og stóðu þær í 22.500 mínútur eða 375 klukkustundir. Gerðar voru 5.945 athugasemdir og stóðu þær samtals í 9.133 mínútur eða rúmlega 152 klukkustundir. Meðallengd hverrar þingræðu var 5,2 mínútur og meðallengd hverrar athugasemdar var 90 sekúndur. gudni@mbl.is