Fleiri lið Konráð vill að fast sé tekið á fækkun liða og félögin vinni markvisst í því að fjölga liðum til að halda áfram þróun íþróttarinnar hér á landi.
Fleiri lið Konráð vill að fast sé tekið á fækkun liða og félögin vinni markvisst í því að fjölga liðum til að halda áfram þróun íþróttarinnar hér á landi. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Eins og kom fram í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag ætlar Afturelding, sem féll úr N1-deildinni í handbolta í síðustu viku, að mæta með B-lið til leiks næsta vetur.

Handbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Eins og kom fram í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag ætlar Afturelding, sem féll úr N1-deildinni í handbolta í síðustu viku, að mæta með B-lið til leiks næsta vetur. Konráð Olavsson, þjálfari liðsins, sagði um 40 stráka viljuga til að spila í Mosfellsbænum og því verður að finna verkefni fyrir þá alla.

Hann hefur stórfelldar áhyggjur af fækkun liða hér á landi og finnst lítið gert til að hvetja félögin til að bæta við liðum. Konráð hvetur önnur félög til að fylgja í kjölfarið en heyrst hafa sögusagnir um að fleiri félög íhugi að skrá B-lið til leiks.

Handboltinn í hættu

„Fækkun liða er stórkostlegt vandamál að mínu persónulega mati,“ segir Konráð sem útskrifaðist með meistaraþjálfaragráðu frá EHF á síðasta ári. Í meistararitgerð sinni í náminu reyndi hann að svara spurningunni: „Af hverju er jafnfámenn þjóð og Ísland eins góð í handbolta og raun ber vitni?“

Hann komst að þeirri niðurstöðu að fjöldi liða á litlu svæði væri ein aðalástæðan eða svokallaður „handboltaklasi“.

„Styrkur Íslands sem handboltaþjóðar er þessi klasi og hann er að mínu mati í stórhættu. Núna eru aðeins 16 lið skráð til leiks og lítið gert finnst manni til að hvetja félög til að bæta við liði eða hvetja lið sem spila í utandeildinni til að skrá sig til leiks í deildarkeppninni.

Það sem er að gerast er að það eru átta lið í hvorri deild og öflugir strákar úr 1. deild fara upp í efstu deild. Þar með fer þetta allt að þjappast saman í átta lið og þannig grefur undan klasanum,“ segir Konráð.

Hann bendir á Akureyri sem dæmi. „Það er mikið af ungum og öflugum strákum á Akureyri en þar er bara eitt lið á frekar stóru svæði. KA og Þór ættu bæði að spila á Íslandsmótinu og hjálpast frekar að um að bæta við þriðja liðinu en ekki fækka niður í eitt. Auðvitað getur verið erfitt að safna peningi og leita eftir styrkjum þegar fleiri lið eru um hituna en við megum ekki fækka liðum þegar við getum fjölgað þeim,“ segir Konráð.

Hægt að tvöfalda fjölda liða

Svokölluðum ungmennaliðum var meinuð þátttaka í 1. deild á síðasta ársþingi HSÍ en Konráð vill að félögin mæti með annað lið til leiks í Íslandsmótið og þannig verði auðveldlega hægt að fjölga liðum umtalsvert.

„Ef við skoðum meistaraflokkana hér á landi eru mjög margir leikmenn enn að spila með 2. flokki líka. Við erum alltaf að missa unga leikmenn út og þá yngist meðalaldurinn enn frekar hér heima. Hér í Mosfellsbænum og eflaust víðar er helmingur meistaraflokks skipaður strákum sem spila enn með 2. flokki. Við ætlum að bæta við liði þar sem strákar sem eru að banka á dyrnar hjá aðalliðinu, bæði yngri og eldri leikmenn, fá tækifæri,“ segir Konráð og þannig verði hægt að fjölga liðum auðveldlega.

„Það er hægt að tvöfalda fjölda liða á einni nóttu ef félögin í efstu tveimur deildunum gera þetta öll. Þeir sem eru sammála mér ættu að stofna lið. Það ætti að vera verkefni okkar að vinna markvisst í því að fjölga félögum,“ segir Konráð en með fjölgun liða fylgir því óhjákvæmilega að efsta deild stækkar.

„Við þurfum að fjölga sem fyrst í tíu lið og svo strax í tólf liða úrvalsdeild og hafa átta liða úrslitakeppni. Íþróttir eins og körfuboltinn sem hafa haldið sig við það fyrirkomulag eru að fá full hús og mikla stemningu. Þegar ég var að spila fyllti handboltinn Ásgarð en nú fyllir körfuboltalið Stjörnunnar Ásgarð á meðan handboltinn er að hverfa. Liðum fækkar og við verðum að spyrna við fótum.“

Utandeildarliðin líka með

Konráð sér einnig fyrir sér að hægt verði að virkja utandeildarliðin og hafa þau með á Íslandsmótinu í nýrri 2. deild sem hægt væri að stofna fjölgi liðum nóg.

„Það eru nokkur mjög fín lið í utandeildinni og af hverju ættu þau ekki að vera með? Það er hægt að setja upp 2. deild þar sem liðin geta valið hvort þau fara upp eða ekki. Hafi þau ekki áhuga á að spila í 1. deild afþakka þau boðið og rétturinn færist á næsta lið fyrir neðan. Það fer kannski enginn upp og enginn niður,“ segir Konráð og bendir á að lið eins og KR, sem er með ágætlega öflugt unglingastarf, geti hafið leik í nýrri 2. deild sem meistaraflokkur og hreinlega sleppt 2. flokki.

„Ég bara hvet þá sem eru sammála mér að stofna lið þar sem 2. flokks strákar og fleiri geta spilað. Svo hvet ég lið í utandeildinni til að skrá sig til leiks og jafnvel leggja niður utandeildina og skrá hana sem 2. deild þannig að „hobbílið“ geti verið með. Við verðum að fara að fjölga liðum,“ segir Konráð Olavsson.