Hekla Horft til fjallsins frá Búrfelli í Þjórsárdal. Eldfjallið gaus síðast árið 2000 og bendir ýmislegt til að ekki sé langt í næstu umbrot, með tilliti til jarðhræringa og að í síðari tíð hafa gosin yfirleitt komið með um tíu ára millibili.
Hekla Horft til fjallsins frá Búrfelli í Þjórsárdal. Eldfjallið gaus síðast árið 2000 og bendir ýmislegt til að ekki sé langt í næstu umbrot, með tilliti til jarðhræringa og að í síðari tíð hafa gosin yfirleitt komið með um tíu ára millibili. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Hegðun Heklu þessa dagana er alveg eðlileg, þó ekki sé heldur ólíklegt heldur að hún fari að hreyfa sig,“ segir Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur.

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hegðun Heklu þessa dagana er alveg eðlileg, þó ekki sé heldur ólíklegt heldur að hún fari að hreyfa sig,“ segir Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur. Hún fór um páskana að rótum eldfjallsins og kynnti sér þar stöðu mála. Var þar á heimavelli en hún er einmitt frá Selsundi, sem er efst á Rangárvöllum og er einn svonefndra Heklubæja. Hefur hún í starfi sínu meðal annars rannsakað Heklu og þekkir því til mála.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gaf í sl. viku út aðvörun og lýsti yfir óvissustigi vegna jarðhræringa í Heklu. „Jarðskjálftar í tengslum við Heklugos eru sjaldgæfir, ekki síst milli gosa, en þó ekki óþekkt fyrirbæri. Hrina svona smáskjálfta getur vissulega verið fyrirboði goss, en ekki er hægt að tímasetja neitt í því sambandi. Viðvörun almannavarna var þörf og sjálfsögð og viðbrögð fjölmiðla alveg eðlileg.“

Fannir bráðna ekki

Enginn er svo mikill hiti í Heklu þessa dagana að fannir séu farnar að bráðna. Slíkt þarf ekki heldur að gefa vísbendingar um að eldgos sé í aðsigi. „Miðað við núverandi mælitækni sést ekki nema með hálfrar til einnar klukkustundar fyrirvara ef Heklugos er í aðsigi, það er þegar kvikan er að þrýstast upp. Hreyfingarnar nú gefa því ekki nægar upplýsingar til að reikna með eldgosi á næstunni,“ segir Guðrún sem var eystra með myndavél, hamar, skóflu og fleira slíkt. Segist raunar ekki fara út á mörkina nema með slíkan búnað, tól og tæki.

Fara yfir stöðuna í vikunni

Stöðugt er fylgst með ástandi mála við Heklu og um páskana hafa fulltrúar almannavarna og jarðvísindamenn Veðurstofunnar verið á bakvakt – og bera þeir bækur sínar saman reglulega.

„Við höfum ekki talið ástæðu til að gefa út neinar frekari viðvaranir eða grípa til aðgerða. Höldum þó enn lægsta viðbúnaðarstigi,“ sagði Víðir Reynisson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samtali við Morgunblaðið. Nú í vikubyrjun segir hann að fulltrúar almannavarna og vísindamenn muni fara yfir stöðuna og leggja mat á fyrirliggjandi upplýsingar. Í framhaldi af því verði metið hvort t.d. viðbúnaðarástand gildi áfram.

Eldfjall
» Eldgos ekki ólíklegt, segir Heklufræðingur sem kannaði stöðuna nú um helgina
» Eldgos sést með klukkustundar til hálftíma fyrirvara
»Jarðskjálftar í tengslum við eldgos eru sjaldgæfir
» Viðbúnaðarástand verður endurskoðað í vikunni.