Anton Þór Baldvinsson var fæddur á Litla-Árskógssandi 22. febrúar 1936. Hann lést á sjúkrahúsi Siglufjarðar 22. mars 2013.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Freydís Þorvaldsdóttir, f. 6. ágúst 1914, d. 4. desember 1985 og Baldvin Jóhannesson, f. 6. janúar 1904, d. 13. janúar 1975. Systkini Antons Þórs eru: Jóhannes, f. 17. júní 1937, m. Hulda Ellertsdóttir, Brynjar f. 22. júní 1939, Þorvaldur, f. 29. júlí 1940, m. Ingigerður L. Jónsdóttir, Gylfi, f. 8. september 1941, m. Hildur Marinósdóttir, Zophonías, f. 28. ágúst 1943, m. Margrét Júlíusdóttir, Ragnheiður, f. 19. júní 1948, m. Ólafur Guðjónsson og Pálína, f. 27. desember 1951, m. Njáll Skarphéðinsson.

Þann 30. desember 1967 giftist Anton Þór Valgerði Freyju Friðriksdóttur, f. 20. febrúar 1946, d. 10. mars 2013. Börn þeirra eru: 1. Elvar Þór, f. 11. maí 1967, m.Vala Lárusdóttir, dætur Elvars og Bjarkar Sturludóttur eru Elísa og Henný. 2. Vignir Þór, f. 30. maí 1969, dóttir hans og Þórunnar Bjarnadóttur er Jenný Ósk. 3. Freydís Baldrún, f. 28. júlí 1973, m. Sigurður Viðar Heimisson, dóttir þeirra er Alexía Ósk. 4. Friðrikka Björg, f. 21. ágúst 1977, m. Karl Hersteinsson, börn þeirra eru Anton Valur og María Valgerður, dóttir Friðrikku og Gests Hermannssonar er Klara Rut. 5. Eyþór, f. 28. janúar 1980, m. Kristín María Stefánsdóttir, sonur þeirra er Fannar Ingi, sonur Eyþórs og Sigríðar Þrastardóttur er Aron Elí.

Anton Þór, eða Tóti eins og hann var oftast kallaður, ólst upp á Árskógssandi. Eftir fermingu fór hann til sjós á bátum frá Hauganesi og dvaldi þar hjá skyldfólki sínu. Hann fór síðan á vetrarvertíðir suður á land og síldveiðar fyrir norðan á sumrin. Eftir að hann hætti til sjós vann hann við múrverk. Tóti hafði listræna hæfileika og hafði t.d. gaman að teikna. Áhugamálin voru m.a. brids og laxveiðar. Tóti og Valla bjuggu mestallan sinn búskap á Dalvík.

Anton Þór verður jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju í dag, 2. apríl 2013, kl. 13.30.

Anton Þór, eða Tóti eins og hann var oftast nefndur, ólst upp í stórum systkinahópi til fullorðinsára við mikið ástríki en lítil efni eins og ástand þorra fólks var um miðja síðustu öld. Í hans heimabyggð var það talið eðlilegt að börnin hjálpuðu til við að bera björg í bú og lenti það oft hart á elstu börnunum. Tóti fékk varla að klára fermingarveisluna sína, þar sem hann var þá þegar ráðinn háseti á bát hjá móðurbróður sínum og fór sinn fyrsta róður þá um kvöldið, enda þurfti ekki að eyða tíma í að telja peninga, né skoða rándýr leiktæki. Þetta kom sér vel fyrir stórfjölskylduna þar sem öll þénusta frumburðarins gekk nær óskipt í heimilið. Fljótt kom í ljós að þessi hægláti ungi maður var bæði samviskusamur og afburða verklaginn við sjómannsverkin, sem varð til þess að vinnuframlag hans var eftirsótt næstu tugi ára til sjós. Sem ungur maður stóð hann fyrir því með yngri bræðrum sínum að kaupa trillubát sem notaður var til tekjuöflunar fyrir bernskuheimilið til margra ára. Ekki má gleyma lúxusbifreiðinni A-1091 sem margir eiga góðar minningar frá tíðum dansiballferðum, enda bílstjórinn ólatur við að þeytast um með skemmtanaglaða félaga, hvort heldur var í nágrennið eða í næstu sýslur. Þannig liðu árin, en allt hefur sinn tíma. Eftir alvarlegt slys á sjónum fór Tóti í land og fór að vinna við múrverk sem varð hans aðal atvinna þar til heilsan brast. En sjórinn togaði ávallt í og þá kom trillan að notum á vetrum til rauðmaga- og grásleppuveiða, til að vinna uppí dauðan vinnutíma í landi. Það er erfitt fyrir menn sem hafa unnið hörðum höndum frá barnsaldri að standa frammi fyrir því að vera gagnslausir til vinnu vegna veikinda sem ekki er hægt að bæta. Tóti barðist við illvígan sjúkdóm sem var honum mjög erfiður nú undir lokin og við bættist að kona hans, Valgerður Freyja, sem var hans stoð og stytta í veikindunum, fékk áfall 18. febrúar sl. sem leiddi hana til dauða þann 10. mars sl.

Á kveðjustund þökkum við þér samfylgdina og biðjum almættið að blessa ykkur hjónin og styðja afkomendur ykkar og þeirra fjölskyldur í sorg sinni.

Elvar, Vignir, Freydís, Friðrikka, Eyþór, þið og fjölskyldur ykkar eigið alla okkar samúð, megi Guð vera með ykkur.

Fyrir hönd systkina frá Sælandi og fjölskyldna,

Jóhannes Baldvinsson.