Lawrence Okoye
Lawrence Okoye
Einn allra efnilegasti frjálsíþróttamaður Breta, kringlukastarinn Lawrence Okoye, hefur ákveðið að snúa sér að amerískum fótbolta og hefur þegar átt í samningaviðræðum við nokkur félög úr bandarísku NFL-deildinni.

Einn allra efnilegasti frjálsíþróttamaður Breta, kringlukastarinn Lawrence Okoye, hefur ákveðið að snúa sér að amerískum fótbolta og hefur þegar átt í samningaviðræðum við nokkur félög úr bandarísku NFL-deildinni.

Okoye er 21 árs gamall og á breska metið í kringlukasti. Hann komst í úrslit á Ólympíuleikunum í London á síðasta ári en náði aðeins 12. sæti sem var nokkuð frá væntingum. Okoye sagðist eftir leikana íhuga að snúa sér að annarri íþrótt og nú er hann orðinn staðráðinn í að sú íþrótt verði amerískur fótbolti, en Okoye þótti efnilegur í enskum ruðningi áður en hann fór að æfa kringlukast fyrir aðeins þremur árum.

NFL-félögin sem sett hafa sig í samband við Okoye sjá hann öll fyrir sér sem varnarmann en kappinn tók þátt í æfingum í Atlanta á dögunum þar sem leikmenn gátu sýnt sig og sannað. Slíkar æfingabúðir verða aftur í Dallas um næstu helgi en ef marka má Okoye sjálfan er nánast útséð með að hann semji við eitthvert félag, sama hvernig gengur í Dallas.

„Það verður nýliðaval úr skólunum í apríl svo ég mun ekki skrifa formlega undir neitt fyrr en eftir það, en ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að af þessu verði,“ sagði Okoye í viðtali við Daily Mail. sindris@mbl.is