Horft um öxl Þegar Jakob Jóhann Sveinsson rifjar upp tímabilið í fyrra þá segist hann hafa verið allt of þreyttur.
Horft um öxl Þegar Jakob Jóhann Sveinsson rifjar upp tímabilið í fyrra þá segist hann hafa verið allt of þreyttur. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sund Kristján Jónsson kris@mbl.is Lítið fór fyrir Jakobi Jóhanni Sveinssyni, sundmanni úr Ægi, á mótum í vetur. Jakob tjáði Morgunblaðinu að hann yrði tæplega áberandi á mótum í sumar en ekki væri þó þar með sagt að hann væri hættur sem keppnismaður.

Sund

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Lítið fór fyrir Jakobi Jóhanni Sveinssyni, sundmanni úr Ægi, á mótum í vetur. Jakob tjáði Morgunblaðinu að hann yrði tæplega áberandi á mótum í sumar en ekki væri þó þar með sagt að hann væri hættur sem keppnismaður. Jakob er á þrítugasta og fyrsta aldursári en náði því mikla afreki síðasta sumar að keppa á fernum Ólympíuleikum áður en hann náði þrjátíu ára aldri.

Æfingaálag hjá sundfólki í fremstu röð er gífurlega mikið. Jakob segist hafa verið að leika sér að undanförnu en hefur þó ekki beinlínis legið uppi í sófa. „Ég hef eiginlega verið að leika mér í vetur. Ég syndi bara þrisvar í viku en lyfti þrisvar í viku og fer í fimleika þrisvar í viku. Ég er fyrst og fremst að einbeita mér að náminu núna og reyna að klára það. Maður þarf að hugsa til framtíðar og ég þarf að vera með eitthvað í höndunum þegar ég hætti í sundinu,“ sagði Jakob í samtali við Morgunblaðið en hann er í umhverfis- og byggingaverkfræði. „Maður sefur eiginlega ekkert þessa dagana og er bara niðri í skóla allan daginn. Maður getur æft aðeins á kvöldin en svo fer maður aftur upp í skóla,“ bætti Jakob við en hann stefnir að útskrift á næsta ári.

Varðandi sumarið segist Jakob ekki vera í góðu sundformi. „Ég held að ég keppi ekki mikið í sumar. Ég er ekki í það góðu sundformi þar sem ég hef bara verið að æfa sundið þrisvar í viku. Ekki er hægt að segja að það sé mikið t.d. miðað við hversu mikið maður æfði í fyrra.“

Var of þreyttur í fyrra

Fyrir fáum árum var Jakob í hópi bestu bringusundsmanna í Evrópu en hann varð fyrir miklum vonbrigðum á Ólympíuleikunum í London í fyrra þar sem hann var langt frá því að komast í undanúrslit í 100 og 200 metra bringusundi. Jakob veltir því fyrir sér hvað hann hafi gert rangt í fyrra því líðan hans sé öll önnur og betri nú þegar hann hefur dregið úr álaginu.

„Ég finn mikinn mun á mér og hef verið að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég finn núna að ég var of þreyttur í fyrra. Margir segja að ég hafi lent í ofþjálfun en ég ætla ekki að fullyrða neitt um það enda er erfitt að átta sig á því. Ég finn bara að nú á ég auðveldara með að sofa, auðveldara með að hlaupa og gera alls kyns hluti,“ sagði Jakob.

Löngunin er til staðar

Jakob segist ekki hafa misst löngunina til þess að æfa og keppa á meðal þeirra bestu. Hann sé hins vegar að prófa nýjar leiðir og útilokar ekki að láta reyna á hvort hann komist á sína fimmtu Ólympíuleika árið 2016. Það hefur engum Íslendingi tekist.

„Löngunin er svo sem til staðar. Ég er aðeins að prófa nýja hluti, opna á fleiri möguleika í æfingum og fara út fyrir þægindasviðið. Ég er að prófa mig áfram með nýja hluti til að sjá hvort þetta virki eða hitt. Enn eru þrjú ár í Ólympíuleika. Ef maður heldur sér í formi þá getur maður farið af stað og komist í keppnisform á nokkrum mánuðum,“ sagði Jakob en hann hefur meðal verið í ýmsum pælingum undanfarið með öðrum Ólympíufara, Árna Má Árnasyni úr ÍRB, sem kominn er heim frá námi í Bandaríkjunum. Þeir eru ekki að nota nákvæmlega sömu aðferðir en bera saman bækur sínar.

Verður fyllt upp í húðflúrið?

Til gamans má geta þess að Jakob er með ólympíuhringina húðflúraða á líkamann og hefur látið setja ártölin sín fjögur inn í hringina: 2000, 2004, 2008 og 2012. Ólympíuhringirnir eru jú fimm og Jakob getur ekki neitað því að það sé freistandi að reyna að leggja lokahönd á húðflúrið eftir leikana í Ríó 2016 eins og hann kom raunar inn á í spjalli við Morgunblaðið í London. „Það er svo sem freistandi og margir eru að ýta aðeins á það. Við sjáum til,“ sagði Jakob Jóhann Sveinsson og var spar á yfirlýsingar enda langt í næstu Ólympíuleika.