Sigurður Sveinn Pétursson fæddist á Akranesi 27. janúar 1969. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Noregi þann 6. febrúar 2013.

Útför Sigurðar fór fram frá Lörenskog-kirkju, 15. febrúar 2013, þar sem hann er jarðsettur. Minningarathöfn um Sigurð fór fram í Akraneskirkju 26. mars 2013.

Þeir eiga stóran stað í hjarta manns þeir vinir sem maður eignast á uppvaxtarárunum og fylgja manni upp frá því. Það er eins og einhver sameiginleg tenging vaxi innra með manni og fylgi manni um ævina þrátt fyrir að lífið beri menn hvern í sína áttina.

Ég kynnist Sigga Sveini við upphaf skólagöngu í Brekkubæjarskóla, tveir litlir drengir af Esjubrautinni sem urðu nánast eins og samlokur uppvaxtarárin á Skaganum og svo í framhaldinu á skólagöngu okkar í Reykjavík. Á þessum árum var margt brallað eins og gengur og gerist. Við stofnuðum m.a. hið virðulega félag „Potturinn“ sem hafði m.a. það markmið að sameina okkur vinina að nýju í heita potti sundlaugarinnar, í hádeginu eftir erfið átök gærkvöldsins. Jafnframt fylgdi þessum hóp mikil gleði og kátína og varst þú þar ávallt fremstur meðal jafningja hvað varðaði ný og skemmtileg uppátæki. Eitt af einkennum félagsins var einkennisorð hvers og eins og að sjálfsögðu valdir þú ansi góða lýsingu á sjálfum þér með orðunum „ég er ótrúlegur“.

Ég minnist þess hve afslappað og jákvætt andrúmsloft einkenndi vinskap okkar og hef í hjarta mér allar okkar notalegu ánægjustundir sem hófust á Esjubrautinni og fylgdu okkur alla tíð.

Silju, Sól, Ara, Pétri, Magneu og öðrum ættingjum og vinum votta ég mínar dýpstu samúð. Hvíl í friði, vinur, þú varst sannarlega ótrúlegur.

Einar Georgsson.