Skemmtiferðaskip Europa í Magdalenufirði á Svalbarða. Sífellt fjölgar ferðum stórra skipa um norðurslóðir.
Skemmtiferðaskip Europa í Magdalenufirði á Svalbarða. Sífellt fjölgar ferðum stórra skipa um norðurslóðir. — Ljósmynd/Peter Prokosch http://www.grida.no
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það geta ekki allir reiknað með því að vera bjargað hvenær sem er og hvar sem er í heiminum,“ sagði Anne Holm Gundersen, yfirráðgjafi Björgunarmiðstöðvar Norður-Noregs í Bodø og fyrrverandi framkvæmdastjóri stöðvarinnar, á fundi með norrænum blaðamönnum nýlega. „Ef þú ferð um afskekkt hafsvæði þá verður þú að geta bjargað þér sjálfur eða njóta fylgdar einhvers sem getur komið þér til hjálpar. Ef óhapp verður má reikna með að björgunaraðgerðir taki langan tíma.“

Gundersen sagði að meira en 100 skemmtiferðaskip hefðu komið til Svalbarða í fyrra. Um borð í mörgum þeirra hafi verið allt að 3-4 þúsund manns. „Það segir sig sjálft að við getum ekki haft mannskap né tæki til að bjarga 3-4 þúsund manns á skömmum tíma,“ sagði Gundersen. Hún sagði að skip sem sigli um þessar slóðir verði að vera með eigin björgunarviðbúnað sem grípa megi til ef eitthvað beri út af.

Jonny Didriksen, aðalráðgjafi í aðgerðastjórn norska hersins í Bodø, sagði að flestir ferðamennirnir hefðu komið með stórum skemmtiferðaskipum til Svalbarða. Aðrir komu með flugi og fóru í siglingu með skipum og bátum frá Svalbarða. Didriksen sagði tilhneiginguna vera þá að farþegunum fjölgi en ekki skemmtiferðaskipunum. Þau verða sífellt stærri. Þetta veldur áhyggjum því verði óhapp mun það krefjast mjög umfangsmikilla viðbragða. Mögulega gæti þurft að bjarga 6-8 þúsund manns úr háska á svæði þar sem er erfitt veðurfar, miklar fjarlægðir og veikir innviðir.

John Espen Lien, undirofursti og upplýsingafulltrúi norska hersins, rifjaði upp þegar skemmtiferðaskipið Maxim Gorkíj sigldi á ís við Svalbarða sumarið 1989 svo leki kom að skipinu. Um borð voru tæplega þúsund manns. Fólkið fór sumt í björgunarbáta og annað á ísjaka áður en því var bjargað. Einnig tókst að koma í veg fyrir að skipið sykki og koma því til hafnar.

Didriksen sagði sömu þróun vera við austurströnd Grænlands og við Svalbarða. Þar fjölgi einnig ferðum stórra skemmtiferðaskipa.

Gundersen sagði að einn vandinn á norðurslóðum væru fjarskiptin. Skilyrði til fjarskipta versni eftir því sem norðar dragi. Erfitt er fyrir t.d. flugvélar að ná sambandi við stöðvar á jörðu niðri og ekki er hægt að treysta á gervihnattasamskipti.

Reglur í undirbúningi

Gundersen sagði að Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) væri að undirbúa nýjar reglur vegna farþegasiglinga á pólsvæðunum. Í þeim verði gerðar auknar kröfur til skipanna hvað varðar styrkleika, búnað um borð, einkum björgunarbúnað, þjálfun og þekkingu áhafna og aðra þætti. Þessar hertu reglur eiga að taka gildi árið 2016. Gundersen kvaðst vona að gerð yrði krafa um að tvö skemmtiferðaskip fylgdust alltaf að á ferðum um norðurslóðir.

Í Noregi eru tvær björgunarmiðstöðvar. Hlutverk þeirra snýr einungis að björgun mannslífa á sjó, landi og í lofti. Aðrar stofnanir sjá um að koma í veg fyrir eignatjón, mengun eða annað slíkt. Björgunarmiðstöð Norður-Noregs er í Bodø og annast hún leitar- og björgunarstörf alveg upp á norðurpól, austur á 35°E og suður á 65°N. Björgunarmiðstöð Suður-Noregs er í Stavanger og ber ábyrgð á svæðinu sunnan við 65°N. Sunnan við línuna búa um 4,5 milljónir manna en norðan við um hálf milljón manna. Norðursvæðið er dreifbýlla og mun stærra. Margir eru þar til sjós og olíuvinnsla er talsverð. Veðurfar er einnig erfiðara en í Suður-Noregi.

Tveir starfsmenn eru alltaf á vakt í björgunarmiðstöðinni í Bodø og eru fleiri kallaðir til ef eitthvað gerist.

Útköllum hefur fjölgað á síðastliðnum árum, einkum í S-Noregi að sögn Gundersen. Björgunarþjónustan sinnti meira en 7.365 atvikum í fyrra, þar af voru tæplega 3.500 á sjó, rúmlega 2.000 á landi og um 500 í lofti og um 1.000 tengdust sjúkraflutningum með þyrlum. Mikið er um útköll á sumrin vegna fólks sem lendir í vandræðum á skemmtibátum. Hún sagði að á árum áður hefði mikill tími farið í leit að þeim sem voru í neyð. Nú fylgir yfirleitt staðsetning neyðarkallinu sem sparar mikinn tíma í leitarstörfum.

Stöðin í Bödö tekur á móti neyðarboðum sem eru send í gegnum COSPAS-SARSAT kerfið. Það er frá neyðarsendum flugvéla, skipa og sendum sem fólk ber á sér. Stöðin í Stavanger tekur á móti Inmarsat C boðum. Boðin berast alls staðar að úr heiminum, þar á meðal frá Íslandi og jafnvel allt frá Suðurskautslandinu.