H7N9 Mennirnir tveir voru báðir frá Sjanghæ og langveikir.
H7N9 Mennirnir tveir voru báðir frá Sjanghæ og langveikir. — AFP
Heilbrigðisyfirvöld í Sjanghæ, fjölmennustu borg Kína, hafa fyrirskipað heilbrigðisstofnunum að herða eftirlit með öndunarfærasjúkdómum eftir að tilkynnt var um helgina að tveir menn, 87 ára og 27 ára, hefðu látist úr nýju afbrigði fuglaflensu, H7N9,...

Heilbrigðisyfirvöld í Sjanghæ, fjölmennustu borg Kína, hafa fyrirskipað heilbrigðisstofnunum að herða eftirlit með öndunarfærasjúkdómum eftir að tilkynnt var um helgina að tveir menn, 87 ára og 27 ára, hefðu látist úr nýju afbrigði fuglaflensu, H7N9, snemma í marsmánuði.

Yfirvöld í Hong Kong hafa einnig ákveðið að herða eftirlit og þá hafa stjórnvöld í Taívan fyrirskipað að allir sem ferðast frá meginlandinu, Hong Kong og Macau undirgangist hitamælingu við lendingu.

Báðir mennirnir áttu við langvinna sjúkdóma að etja en hvorki fjölskyldumeðlimir þeirra né aðrir nánir þeim reyndust hafa smitast. Ungi maðurinn vann sem slátrari og 35 ára kona, sem einnig hefur greinst með afbrigðið, hafði komist í návígi við fugla en ekki er vitað til þess að fólk hafi áður smitast með H7N9.

„Spurningin er hvort vírusinn muni stökkbreytast og verða meira smitandi, frá manni til manns,“ sagði Michael O'Leary, fulltrúi Kína við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, í gær. Hann sagði ekkert benda til þess á þessum tímapunkti en benti á að vírusar breyttust stöðugt.

Kínverjar þykja einna berskjaldaðastir gagnvart fuglaflensunni, þar sem alifuglar eru hvergi fleiri en í Kína og er haldið í návígi við mannfólk víða í dreifbýlinu.